Jólabloggið 2013

Það eru öðru vísi jól á Sólvöllum núna og verða aldrei söm og áður. Í dag þegar ég byrja á þessu bloggi eru sextán dagar til jóla og reyndar setti ég upp jólaljós í dag en það hef ég aldrei gert áður alveg að eigin frumkvæði. Ég hef alltaf haft stjórnanda við það, eða alla vega hafa verið mikil samráð um þann þátt jólahaldsins. Valdís hugsaði mikið um fólk og einn þáttur hennar í því var að senda mikið af jólakortum. Hún tók í það mikinn tíma og annaðist það af mikilli alúð. Ég ætla ekki að reyna að gera það af jafn mikilli eljusemi og hef komið því á framfæri áður að ég mun aðeins senda örfá kort til þeirra sem ég veit að hafa engin samskipti gegnum tölvu.
 
Í þessu bloggi eiga að felast örlítil ágrip frá árinu sem er að líða og þau ágrip byrja ekki fyrr en farið er að líða nokkuð á árið. Eftir heimkomuna að lokinni Íslandsferð með öskuna eftir Valdísi byrjaði lífið að mótast hér við þessar nýju að stæður. Eftir að Valdís hætti að vinna fyrir all mörgum árum urðu skörp verkaskipti með okkur. Valdís sá um matinn og mest af þrifum og ég hélt áfram uppbyggingu á Sólvöllum og hætti aldrei alveg að vinna í Vornesi. Það sem ég kunni í matargerð fyrir mörgum árum var rokið út í veður og vind og ég fékk að byrja frá byrjun.
 
Valgerður dóttir mín var hér þegar Valdís dó og um það bil þrjár vikur eftir það og leiðbeindi mér með margt við matargerðina. Málið var hins vegar að þá var ég var ekki byrjaður sjálfur að láta á reyna við eldhúsbekkinn þannig að ég skildi kannski ekki allt sem hún sagði mér eða sýndi. Ég var líka með hugann reikandi um alla heima og geima. En svo hefur eitt og annað af húsmæðrakennslu hennar síast inn og jafnvel man ég stundum hluti sem ég hef hugsað að ég þurfi að prufa við tækifæri.
 
Aðrir þættir í heimilishaldi voru mér ekkert ókunnir. Að þvo þvott og strauja fötin mín lærði ég heima hjá mömmu og svo áfram í Skógum þar sem hver varð að bjarga sér. Að skúra gólf er ég vanur við en seinvirkur er ég við skúringar. Eftir tveggja til þriggja vikna einveru á Sólvöllum og aðlögun mína að nýju lífi komu Rósa og fjölskylda og voru hér í fimm vikur. Þau tóku yfir eldhúsbekkinn og sögðu mér að hafa engar áhyggjur af því og ég hélt mínu áfram hér úti við, til dæmis við að aðstoða smið við að byggja stóra verönd og sjálfur eyddi ég mörgum vikum við að byggja einangraðan grunn undir gamla hlutann af Sólvallahúsinu. Einnig við að gera lóðina klára kringum nýja húsið sem byggt var í fyrra og Valdís gaf nafnið Bjarg.
 
Meðan Rósa og fjölskylda voru hér voru einnig felld fimm stór birkitré sem stóðu skammt að baki íbúðarhúsinu. Þar á eftir kom heitasti hluti sumarsins og sveittur en eljusamur tók Pétur þessi tré að sér, hreinsaði af þeim allar greinar og brytjaði í hæfilega búta. Svo gekk hann frá þessu öllu þar til allt var orðið hreint. Þannig var það þennan tíma. Við unnum öll af mikilli þolinmæði að svo mörgu hér heima og Hannes Guðjón hafði líka sína reku og tók þátt í framkvæmdum með öðrum köllum þegar mest var í gangi. Hann hjálpaði mér líka að klippa steypustyrktarjárn og var almennt mjög vinnufús og þegar hann fékk sem mest að gera var vinátta hans líka best og einlægust.
 
Þegar ég er að koma einhverju áfram á ég erfitt með að taka til eftir mig. Mér verður á að fresta því og fresta því aftur og er óánægður með það því að ég vil að það líti vel út í kringum mig. Þessir sumargestir mínir tóku af mér margt ómakið í þessu og ég veit í dag að ef þau hefðu ekki verið hér og gert svo mikið sem þau gerðu, þá liti ekki eins vel út á Sólvöllum og það gerir í dag. Eða að öðrum kosti væri ég alls ekki búinn að gera það sem ég er búinn að gera af öðru.
 
Mín hugmynd áður en ég byrjaði að skrifa þetta jólablogg, sem líka á að vera jólabréf til þeirra sem ekki hafa aðgang að netinu, að nefna helst engin nöfn. Þá er alltaf hætta á að það verði óréttlæti í þakklætinu sem ég ber til svo margra þó að það sé alls ekki meiningin. En þessa fjölskyldu varð ég þó að nefna sérstaklega, enda eru þau mín nálægasta fjölskylda landfræðilega þannig að það leiðir að hluta til af sjálfu sér að þau komi mest við sögu.
 
Ég er mjög heimakær maður. Ferðir mínar um heiminn get ég reiknað á hluta af fingrum annarrar handar. Mínar ferðir eru hér innanlands og svo milli Svíþjóðar og Íslands og til baka aftur. Ég er líka vinafár. Stórfjölskylda mín eru dætur mínar tvær með fjölskyldum þeirra, systkini mín fimm með fjölskyldum og svo systur Valdísar. Ég lít á þetta fólk sem stórfjölskyldu mína. Svo eru vinirnir fáir -en góðir vinir. Svo þekki ég fullt af frábæru úrvalsfólki. Ég hef hugleitt það síðustu dagana að það er mikilvægt að eiga nána vini sem ekki eru í fjölskyldunni en ég er ekki duglegur við að rækta þá vináttu. Skólasystir mín frá Skógaárunum frá því fyrir meira en hálfri öld birtist allt í einu hér. Nú tilheyrir hún góðra vina hópnum.
 
Ég ætlaði ekki að nefna fólk en núna er hún nefnd, hún heitir Kristín. Hún fór með mér í fyrstu ferðina sem ég hef farið nánast um árabil, fjögurra daga ferð upp í sænsku Dalina. Vinátta hennar hefur fengið mig til að endurmeta verðmæti vináttu. Ég nefnilega finn að ég get vel hafnað í því að einangrast sem karlfauskur hér heima á Sólvöllum með óæskilegum afleiðingum. Ég tek undir orð prestsins Nisse sem heimsótti mig fyrir nokkrum dögum að þegar okkar nánustu falla frá, þá verðum við sem eftir lifum að finna okkur nýjan farveg. Ég er búinn að panta sæti á jólaborði í gömlu kirkjunni okkar Valdísar. Ég nenni því ekki en mér ber að haga mér skynsamlega.
 
Ísland er rómað fyrir náttúrufegurð og ég bý í alldeilis ótrúlega fallegu landi. Ég þarf ekki að fara langt til að það sé mér mikið og gott ferðalag. Fyrir mig er ferðalag í næstu sýslu ferðalag sem ég nýt. Ég er nokkuð nægjusamur og lít á nægjusemi sem eina af mörgum góðum dyggðum. Ég á alla möguleika á góðu lífi í nýjum farvegi og það er á mína ábyrgð að ég einangri mig ekki í einsemd með óæskilegum afleiðingum. Ég á börn og barnabörn ásamt öðrum í stórfjölskyldunni minni og mér ber skylda til að horfa fram á við og taka ábyrgð á því að ég er í fyrsta lagi faðir og afi og svo bróðir, mágur og frændi í þessari fjölskyldu. Svo vil ég líka vera góður vinur vina minna.
 
Að lokum: Ég var aldrei alveg viss um, og er ekki enn, hvort ég hefði þakkað nægjanlega fyrir alla þá miklu og mikilvægu aðstoð sem ég og dæturnar ásamt fjölskyldum nutum eftir fráfall Valdísar. Ég vil því gera það einu sinni enn. Þið sem hjálpuðuð okkur hér í Örebro, flest Íslendingar, mikið þakklæti til ykkar allra fyrir alla á vinnu sem þið lögðuð af mörkum og öll vingjarnleg orð sem þið létuð falla um Valdísi og í okkar garð. Alveg það sama til ykkar allra sem aðstoðuðuð við minningarathöfnina í Reykjavík. Ég veit að þið létuð í té svo mikla vinnu og sýnduð hlýhug, nærgætni og skilning. Þið tilheyrðuð stórfjölskyldunni flest ef ekki öll.
 
Svo er komið að Hrísey. Þvílíkar móttökur sem við fengum. Og öll sú ósérhlífna vinna sem þið lögðuð af hendi. Ég þakka ykkur svo innilega fyrir þetta allt. Valdís komst heim að lokum eftir ferð sína til ókunns lands sem varð henni svo ástsælt og hugleikið. Fyrir hana var það að komast heim að lokum að hafna í hríseyskri mold. Allt var fyrirfram ákveðið af hennar hálfu utan minningarathöfnin í Reykjavík. Hefði hún verið spurð eftir því sjálf hvort við ættum ekki að gera það líka hefði hún líklega svarað því til að það væri allt of mikil fyrirhöfn út af sér. En það var ekki of mikil fyrirhöfn, það var einungis það sem hún átti inni hjá okkur. Ég er ekki í vafa um að hún hefur verið ánægð með þessi síðustu spor á leiðinni heim til fyrirheitnu moldarinnar. Líkaminn fer þangað en andinn, hið ósýnilega, á sér annað heimaland sem við fáum ekki að vita um fyrr en daginn sem við verðum líka kvödd heim.

 Og þið hin sem sýnduð í verki hlýhug á einn og annan hátt, þið fáið jafn miklar þakkir fyrir það.

Þessar síðustu línur voru þungar að skrifa en síðan heldur lífið áfram í nýjum farvegi móti hinni óþekktu framtíð þar sem ég stend í brúnni hvað mitt eigið lif varðar. Það er ég sem er ábyrgur fyrir því að gera það að góðu lífi þangað til ég verð kallaður heim.

 

Það er síðla kvölds, skammdegismyrkur úti og mikil kyrrð á Sólvöllum þegar ég er að ljúka þessum skrifum. Hérna fyrir framan mig þar sem ég sit og skrifa er skógurinn sem ég dáist svo mikið að. Ég sé hann ekki fyrir myrku skammdeginu, en samt sem áður er nokkuð bjart yfir huga mínum núna þegar ég hef lokið við að skrifa jólabloggið sem einnig verður jólabréf.

 

                Gleðileg jól og farsælt nýtt ár öll þið sem lesið þetta.

                                                                           Þess óskar Guðjón frá Kálfafelli.

 



Kommentarer
Björkin

Gleðileg jól elsku mágur og svili.Gott og farsælt komandi ár.Þökkum allar liðnar stundir.Líði þér sem allra allra best.Takk fyrir jólabréfið,alltaf flott hjá þér. Jólakveðja frá börnunum.

Svar: Takk sömuleiðis og kveðjur til baka til allra.
Gudjon

2013-12-24 @ 16:05:19
Dísa gamli granni

Takk fyrir þetta fallega bréf og hlýlegar kveðjur.Við sendum líka hlýjar kveðjur til baka og óskir um gleðilegt ár. Mér sýnist þú vera búinn að leggja góðan grunn að svo megi verða. Sátum hér saman hjónin og lásum.

Svar: Já Dísa, við vorum búin að vinna að því lengi að gera vistina hér góða og ég hef svo haldið því áfram einn. Nú eru þáttaskil og meiri frísundamöguleikar framundan. Og svo fáið þið bara ennþá meiri kveðjur frá mér og góðar óskir. Með bestu kveðju frá Guðjóni.
Gudjon

2013-12-28 @ 00:39:15
Dísa gamli granni

Takk fyrir þetta fallega bréf og hlýlegar kveðjur Sendum líka hlýjar kveðjur til baka með óskum um gleðilegt ár. Mér sýnist þú vera búinn að leggja góðan grundvöll að því að svo verði.

2013-12-28 @ 00:54:37


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0