Heimurinn er fullur af góðu fólki.

Það er nú orðið meira vesenið á mér. Á þriðjudaginn var ók ég 60 km vegalengd til að fara á jólahlaðborð með miklum, miklum mat. Í gær var ég í matarboði hjá Auði og Þóri. Í dag fór ég á tónleika sem enduðu með jólahlaðborði, líka með miklum mat. Þessir tónleikar voru í kirkjunni sem tilheyrði okkur Valdísi áður og tilheyrir mér svo sem ennþá, enda voru það margir sem tóku vel á móti mér þar.
 
Það er nú meira hvað fólk getur gert marga hluti vel og fallega. Ég gleðst svo sannarlega yfir því hversu margir hafa betri söngrödd en ég og ég dáist að því hversu margir geta gengi fram og leikið á margs konar hljóðfæri. Ég dáðist að söngstjóranum, hvernig hún söng í hljóði fyrir framan börn sem voru með í vissum atriðum. Hún lokkaði þau áfram, eins og dró þau nær sér, og fékk þau til að syngja nokkurn veginn óhikað. Svo hikuðu þau ekki við að klóra sér ef þau klæjaði í stóru tána eða á olnboganum. Þau björguðu sér.
 
Svo er alltaf verið með helgileiki á jólatónleikum og mér finnst þeir svo sem sjaldnast takast svo vel. Samt var það eiginlega sniðugt að sjá eitt atriði sem fékk á sig svolítið óvæntar sveiflur í dag. Offursti Heródesar sem fór fyrir hersveitinni sem átt að taka öll börn af lífi sem voru innan við tveggja ára aldur hafði langt laf niður úr skikkju sinni sem dróst langt á eftir honum. Einn hermanna hans steig í lafið á leiðinni út aftur og þá varð svolítið erfitt fyrir offurstann að ganga. Hann þreif því dálítið kröftuglega í lafið og þeytti því fram með hliðinni á sér og þá steig hann í það sjálfur. Þá gerði hann það einfalt og tók lafið í fang sér og sleppti öllum hégóma. Svo gekk hann greiðlega út.
 
Það var auðvitað ekki samkvæmt reglunum en hvað gerir maður ekki til að forðast að detta á kirkjugólfið innan um 120 manns. Annars á að sleppa svona atriðum á jólatónleikum. Það á ekki að tala um það innnan um börn að taka börn af lífi. Þetta voru því bara makleg málagjöld. Eða hvað?
 
Ég hitti hann Björn hjúkrunarfræðing sem var kórfélagi og vinur Valdísar. Hann var í kaffi hjá landshöfðingjanum í Örebroléni um daginn. Þórir og Auður lentu líka af algerri tilviljun í þessu kaffi. Svo sagðist Björn hafa tekið eftir málfari borðfélaga sinna og þegar að var gáð voru þetta Íslendigarnir Auður og Þórir. Þau og Björn þekktu sama fólk, það er að segja Guðjón og Evu Þórðardóttur. Og öll höfðu þau líka þekkt Valdísi. Heimurinn er lítill sögðu Auður og Þórir í gær þegar ég borðaði hjá þeim og heimurinn er lítill sagði Björn líka yfir jólahlaðborðinu áðan. Öll voru þau líka sammála um að það hefði verið svo gaman að hittast af þessari tilviljun hjá landshöfðingjanum.
 
Björn nefndi við mig að Valdís hefði látið sér annt um fólk. Hefði einhver verið lasinn eða átt bágt á einhvern hátt, þá hefði hún alltaf viljað vita hvernig fólki hefði gengið að ná sér. Hún spurði hvernig fólk hefði það og hún sá fólk og það þótti mörgum vænt um sagði Björn. Góð og hlýleg ummæli það. Mér finnst Björn vera nákvæmlega svona maður líka.
 
Ég virti fyrir mér gömlu kórfélaga Valdísar. Þau hafa svo sem ekki orðið yngri á síðustu árum sem ég hef svo sjaldan séð þau. Náttúrufræðinginn Ingvar langar að koma á Sólvelli. Ég hringi til hans eftir áramót og við sjáum til. Ég fæ gjarnan að gista í foreldrahúsum hans upp í Dölum en í dag eru þessi hús afdrep borgarfólks sem vill hafa athvarf í sveitakyrrð og fallegri náttúru. Eva Norman sagðist enn muna að ég hefði sagt hana öruggan bílstjóra. Ég fór eitt og annað með kórfólkið áður fyrr og hún vildi gjarnan keyra bílinn minn. Valdís sat þá aftur í með kórkonum og ég sat í makindum í farþegastólnum og fann mig öruggan undir stjórn Evu.
 
Magnus og Kerstin voru þarna. Magnús er tæknifræðingur og var í vinnuferðum á Íslandi meðan Heimaeyjargosið stóð yfir. Kerstin var búin að fara í tvær mjaðmaaðgerðir áður en ég fór í mína. Bodil tannlæknir líka, en hennar mjaðmaaðgerðir voru erfiðar þó að hún hafi náð sér að lokum. Nú er hún að fara á kunnar slóðir suður í Afríku til að gera við tennur fátæks fólks eins og hún hefur svo oft gert áður.
 
Svona var nú það. Ég ætlaði ekki að nenna þessu en ég er feginn að hafa farið og merkt að ég á marga góða kunningja. Nokkur heilsuðu upp á mig vegna þess að þau þekktu Valdísi og þekktu mig í sjón. Það er eins og ég hef áður sagt; heimurinn er fullur af góðu fólki.


Kommentarer
Björkin.

Er ekki hissa þó söngfélagar systur minnar eigi góðar minningar.Hún var bara góð.Vildi öllum vel.Góða nótt mágur minn.

Svar: Satt er það. Sá þetta ekki fyrr en að morgni svo að ég segi góðan dag.
Gudjon

2013-12-15 @ 00:21:25


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0