Sólvallaskýrsla

Eiginlega er jólahreingerningunni lokið á Sólvöllum. Hún fór í fyrsta lagi fram úti við og ég get lofað því að það var mikil hreingerning. Því sem ég hef verið að gera úti við er ekkert lokið, en það verður ekki gert meira fyrir jól. Því segi ég að jólahreingerningunni sé "eiginlega" lokið. Allur eldiviður er kominn í skjól utan mjög kræklóttar greinar sem liggja bakvið Bjarg og tveir fjögurra metra langir eikarstofnar sem liggja framan við Bjarg, en þó á snyrtilegum stað.
 
Hins vegar er það ekki merki um hirðusemi að þeir skuli liggja þar ennþá. En, þannig er það bara að skipulagningu á Sólvallasvæðinu er ekki lokið en er hins vegar vel á veg komin. Eftir hálft ár reikna ég með að ég verði ánægður með staðinn. Það verður ekki vinna í hálft ár en því lýkur samt ekki fyrr en komið verður fram í júní eða svo -ímynda ég mér. Ég mun líka sýsla við margt annað á þeim tíma og þá segi ég sýsla. Það er mikill munur á að vera að hamast við að byggja og framkvæma annars vegar og að sýsla hinsvegar. Það verður nauðsynlegt fyrir mig sem ellilífeyrisþega að hafa mínar sýslur. Ef ekki fer ég mikið fyrr að mygla.
 
Þetta er ekki snoturt, eða hvað? Og eiginlega var það verra daginn áður en ég tók myndina, með hálf rifna bláa ábreiðuna yfir viðarstaflanum sem Jónatan tengdasonur og síðar Gústi mágur hlóðu upp 2012 eins og ég hef sagt áður. Þeir unnu verk sitt vel en þessi staður var ekki til frambúðar og eldiviður á aldrei að vera undir yfirbreiðslu, hann á að vera undir þaki.
 
En þetta er allt annað. Steinninn þarna fyrir miðri mynd verður væntanlega umvafinn bláberjalyngi um mitt næsta sumar, ekki slæmt það. Það voru margar hjólbörur og gríðar margir kubbar sem leyndust í haugnum sem er horfinn og kominn undir þak og ég er mikið ánægður.
 
Það eru mikið stærri svona steinar bakvið Bjarg. Valdísi fannst það réttlæta að húsið yrði nefnt Bjarg. Það voru að sjálfsögðu áhrif frá Bjargi í Hrísey sem fékk hana til að vilja þetta nafn. Það var líka nauðsynlegt að láta húsið heita eitthvað. Öðrum kosti hefði það verið kallað nýja húsið eða bílskúrinn. En Bjarg er einfaldlega fínt hús og að kalla það bílskúrinn hefði auðvitað verið mesta hneysa.
 
Nú líður viðnum vel, meðal annars í þessu skýli sem þarna er ennþá bara hálf fullt.
 
Þarna er svo viður frá fimm birkitrjám sem voru fellt í sumar og Pétur annaðist af kostgæfni. Að þær voru felldar að sumri til átt sínar ástæður sem ég sleppi að útskýra. Það eru fjórar stæður þarna inni og það mun gefa yl á Sólvelli í margar, margar vikur. Væntanlega í Stokkhólmi líka þegar þar að kemur. Þennan við þarf svo að taka út úr húsinu að vori og kljúfa. Um leið þarf ég að gera húsinu svolítið til góða og svo á hann að fara inn í það aftur. Aukaverk en svo verður það að vera. Viðurinn er alla vega á góðum stað núna en í morgun var hann úti, fórnarlamb, regns, snjóa og vinda.
 
*          *          *
 
Upp úr hádegi á morgun fer ég svo til Stokkhólms til fundar við Hannes Guðjón og fjölskyldu. Það verður tilbreyting frá sveitalífinu og ég hef alltaf gaman að Stokkhómsferðum og ég þarf ekkert svo merkilegt að gera þar. Ég hef til dæmis gaman af því að fara á kaffihús og leika heldri borgara svolitla stund. Svo hef ég líka gaman af að fara í feluleik með honum nafna mínum, að borða með fjölskyldu hans í nýja borðkróknum þeirra. Og svo að hitta væntanlega svolítið af gestum sem koma til þeirra. Svo fer ég heim á aðfangadag.
 
Á Þorláksmessu sleppi ég svo jólablogginu mínu út á netið. Það er dálítil langt en það verður að hafa það. Ekki hef ég frétt af því hvort eitthvað að ófrímerktu jólabréfunum mínum hafa komist á leiðarenda til þeirra sem ekki hafa internet. Það væri gaman að frétta af því máli. En nú þarf ég að ganga frá farangri mínum og reyna að gleyma engu. Nú hef ég enga aðstoð við að muna en líklega kem ég til með að bjarga mér samt sem áður. Ég tek bara góðan tíma í það.
 


Kommentarer
Björkin

Góða ferð mágur minn.Kær jólakveðja til litlu fjölskyldunar í Sth.

2013-12-19 @ 22:05:44


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0