Að endingu frá Kálfafellsdvöl í september 2017

Þegar sem unglingur áttaði ég mig á því að Stefán bróðir hafði eiginleika sem vantaði alveg í mig. Hann þekkti fé á löngu færi, gat sagt hvar hann hefði séð sama fé árið áður eða eitthvað á þá leið og hann sá hvernig því leið.
 
 
Eins og þessi mynd ber með sér, mynd sem ég tók í september síðastliðnum, þá er hann árvökull og tekur vel eftir. Í bílferð í heiðinni sagði hann allt í einu að hann hefði séð fimm kindur sem ekki væru ennþá komnar í girðinguna með öðru fé. Það átti nefnilega að fara að rétta. Ég er átta árum yngri og hafði ekki séð neina. Svo verður að segja eins og er að Stefán er fjármaður, hann er góður við fé. Hann er kominn á eftirlaun en hann er samt á fullu við að aðstoða við fjárbúskap.
 
Svo var réttardagur á Kálfafelli og það var í fyrsta skipti sem ég sá réttað í húsi. Fallegt var féð og hvaða bóndi sem var mátti vera stoltur af svona fríðum hópi.
 
Móðurfólkið mitt kemur frá Seljalandi, nokkra kílómetra frá Kálfafelli. Þau voru 16 systkinin og þau eru öll farin heim og við sjáum þau aldrei meira. Að koma í heimsókn á Seljaland var ekki að koma á hvaða bæ sem var, en hluti systkinanna bjó þar alla sína ævi. En Seljaland fór ekki úr ættinni því að nú býr Snorri bróðir þar með henni Ragnheiði sinni. Snorri og Stefán eiga það sameiginlegt að hætta ekki að annast fallegt fé þó að þeir séu komnir á aldur og Snorri er með eigin fjárbúskap. Trúlega líður þeim best þannig.
 
 
Að horfa út um suðurgluggann frá matarborðinu, þar sér maður yfir stórt landssvæði sem varð til svo nýlega að ég reikna með að afar og ömmur langafa og langamma minna hafi upplifað það tímabil. Hér er ég að tala um eystri hluta Skaftáreldahrauns.
 
 
Austur með hlíðunum austan við Seljaland rennur Hlíðarvatnið. Stundum sást silungur í vatninu og þó að það væri ekki meira en að sjá gára fyrir silungi á hreyfingu í þessu kyrrláta vatnsrennsli -það var ævintýri.
 
Ragnheiður og Snorri, takk fyrir stóru tertuna sem ég fékk að borða svo mikið af þegar ég kom til ykkar í haust. Og útsýnið frá matarborðinu þar sem við borðuðum af tertunni, það er ekki alveg hversdagslegt. Seljaland er alveg einstakur staður skulið þið vita ábúendur.
 
Og Hafdís í austurbænum á Kálfafelli, þakka þér fyrir að gefa þér tíma og rölta um með mér og sýna mér nýja húsið sem þið Rúnar Þór eruð að byggja. Þegar þú af innlifun sagðir mér frá fyrirætlunum ykkar var virkilega skemmtilegt að hlusta á þig.
 
Heiða í vesturbænum, þakka þér líka fyrir að ganga um með mér og sýna mér hvað þið Björn Helgi hafið fyrir stafni og að sýna mér nýju gistihúsin ykkar tvö, þau sem þegar eru tilbúin. Og gaman er að sjá á netinu einkunnirnar sem þið fáið frá viðskiptavinum ykkar.
 
Lárus í efri bænum, þakka þér líka fyrir að koma til mín í heimsókn í sumarhúsið hennar Fríðu þar sem ég dvaldi í nokkra daga meðan meðan á Kálfafellsdvöl minni stóð, dvöl sem ég notaði til að viðhalda góðum minningum og tilfinningum mínum fyrir bernskuslóðum mínum. Þú ert fróður maður og viðræðugóður Lárus og drengur góður.
 
Hér með lýkur skrifum mínum um Kálfafell 2017 utan eina mynd sem ég læt fljóta með í lokin.
 
 
Ætli ég hafi ekki verið svo sem tólf ára þegar ég gekk við annan mann á svipuðum aldri eftir rákinni sem liggur þarna svolítið skáhallt eftir klettinum. Við fengum ekki lof fyrir tiltækið get ég fullyrt og þegar ég horfði á þetta í haust var ég mjög ákveðinn í að gera enga nýja tilraun. Mér hraus hugur við.
 
Þegar ég ók vestur á bóginn og þessari nokkurra daga heimsókn minni til bernskuslóðanna var lokið, fann eg fyrir sama trega og ég hef alltaf fundið fyrir þegar ég yfirgef Fljótshverfið.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0