Smá fréttir úr sveitinni

Ævintýrið í Jämtland er um garð gengið, við Susanne komum heim á þriðjudaginn var. Ég er heima en Susanne er í heimsóknum hjá ættingjum og vinum í Sörmland. Það var gott að koma heim og við erum ekki meira langferðafólk en svo að eftir um það bil 300 km ferðalag síðasta spölinn vorum við þreytt. En það var gott að koma heim, við þurftum ekkert að versla, allt var til taks. Rósa Pétur og Hannes Guðjón sem höfðu verið hér skiluðu þannig af sér. En hvað það var notalegt. Kærar þakkir fyrir það.
 
Ég var frekar fljótur að fara í stígvélin mín og fara eina umferð um eignina. Allt var kunnuglegt og skemmtilegt, allt leit vel út. Rósa og fjölskylda höfðu tekið höndum um mikið af berjum, gert sultur og fleira en samt voru ber eftir. Þu ber voru enn að vaxa. Svo borðuðum við og svo fór ég út aftur.
 
 
 
 
Þetta grasker hafði þrifist vel, er orðið 39 sm í þvermál og 22 sm þykkt. Það verður á eina og aðra súpuskáp þegar skammdegið leggst yfir. Það lítur öðru vísi út en ég hef séð áður. Ég er ekki viss hvaða sort þetta er, var ekki svo duglegur að ég skráði það þegar ég sáði. Ég verð að læra að skrá betur en ég hef gert, maður á góðum aldri á að geta lært svoleiðis.
 
 
 
 
Bláberjarunnarnir voru hættir að bera uppi grænjaxlana. Í dag var meðal annars uppbindidagur. Á þessum runna er langur tími í þroskuð bláber.
 
 
 
 
Mikill kostur við mörg kvæmi er að það eru bláber yfir fleiri vikur. Þessi eru ekki svo stór sem sum önnur, en þau eru góð samt.
 
 
 
 
Svo skrýtið sem það nú er þá gleymdi ég að líta á þessa berjarunna þangað til í gær, en þeir eru sunnan við Bjarg. Berin heita aronia og eiga að vera með því besta sem hægt er að næra sig á. Þau eiga að hægja á öldrun og þau eiga að auka ónæmi fyrir inflúensu og sitthvað fleira sem ég ekki man. Lætur vel fyrir suma. Þau eru stór þessi ber og greinarnar voru farnar að hanga niður í jörð. Því tíndi ég í dag 1,7 kíló. Það er fljótlegt að tína þau. þau vaxa í klösum og í hverjum klasa eru allt að tuttugu ber. Með svolítilli lipurð er hægt að fá öll berin af klasanum í lófann og þá er lófinn eiginlega fullur.
 
 
 
 
Aronia berin eru ekki alveg fullþroskuð, alla vega ekki í skugga, en ég tíndi þetta til að létta á greinunum og tíndi þau best þroskuðu. Í kvöld ætla ég að velja einhverja uppskrift af aronia sultu og það verður frumraun mín með þessi ber. Það verður gman en kannski dregst sjálf sultugerðin til morgundagsins.
 
Svona er nú í sveitinni og svo hef ég heimsótt og spjallað við beyki og bjarkir, eikur og hlyni, furur og greni og seljur og heggi ásamt einhverju fleiru. Allir virðast hafa það gott og komust af án mín í þessar tvær vikur sem við vorum að heiman.
 
 
 
 
Svo er það þannig að sum bláber eru vel þroskuð og þessi eru á stærð við minni vínber. Það er líka þannig að fólkið sem var hér meðan við vorum í burtu skildi eftir ís í frysti. Í kvöld þegar ég fer að taka þvi rólega er ég alveg ákveðinn í því að fá mér bláber og ís.
 
Gangi ykkur allt í haginn.


Kommentarer
Bjørkin

Það er fjör í berjagróðrinum hjá ykkur.Fallegar myndir. Ekki svikin að heimkomunni frá mínum Stokkhólmsbúum..Allt gott aðf frétta úr rignIngunni á austurlandinu .Kveðja frá Vopnafirði ☺

Svar: Mágkona mín, þakka þér fyrir þessa fallegu kveðju. Ef það rignir mikið á austurlandinu máttu senda slatta til mín. Skógargróðurinn er ekki enn búinn að ná sér að fullu eftir þurrkana í fyrrasumar. En lífið er gott samt og ekki aldeilis slæmt að fá berjauppskeruna sem bónus. Með bestu kveðju til ykkar allra á Vopnafirði.
Gudjon

2019-08-18 @ 00:43:48


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0