Að vera ástfanginn

Græn héruð hafa alltaf heillað mig, alveg síðan ég var barn. Að skokka inn með Djúpá í Kálfafellslandi fyrir sjötíu árum var guðdómlegur ævintýraheimur, á grasflekkjum innan um hraunstrýtur klæddar grámosa og svarta hraunkanta með litlum skútum undir. Allt þetta setti hugmyndaflugið á fljúgandi ferð sem svo aftur gerði kroppinn svo fisléttan að þreyta og mæði voru bara orð sem höfðu enga þýðingu. Þessa tilveru var alldeilis dásamlegt að heimsækja.
 
Hið græna og grasi vaxna var hins vegar búsæld, undirstaða þess að geta lifað, undirstaða þess að geta heimsótt ævintýraheiminn, undirstaða alls. Svo er ég langt í burtu í öðru landi sem er fyrir gamlan Fljótshverfing aldeilis ótrúlega grænt. En svæðið inn með Djúpá og fleiri svæði í Kálfafellsheiði lifa með mér svo sterkt að ég get fundið mig vera þar bara hvenær sem ég vil þegar lífið er hljóðlátt og mér tekst að gera tilveruna einfalda. Það er órjúfanlegur kærleikur.
 
 
 
 
 
 
Og nú í öðru vísi tilveru. Við erum í fjórða sinn komin upp í Norrland Susanne og ég. Við erum full af órjúfanlegum kærleika til þessa landshluta, kærleika sem ég hef oft áður reynt að útskýra í bloggunum mínum. Það verður aldrei útskýrt, það verður að upplifa.
 
Við borðuðum eitt sinn morgunverð á farfuglaheimili í Norrland, í Jokkmokk sem er 865 km nánast beint norðan við Örebro, í beina línu, en bílferðin þangað eru 1166 km. Við sátum á viðarklæddri verönd við farfuglaheimilið, sex km norðan við heimskautsbaug, og glansandi og safaríkar laufkrónur afmörkuðu þessa verönd. Það var hlýr júlidagur þar sem stuttermaskyrtan var mátulega hý. Ég gekk inn til að fá mér meira á diskinn. Inni í sjálfum matsalnum sat meðal annars par, næstum á mínum aldri, og bara sí svona mættist augnaráð okkar.
 
Mæti maður augnaráði upp í Jokkmokk, þá heilsast fólk að sjálfsögðu. Litlu seinna vissu þau að ég hafði komið til Svíþjóðar 1994 og einnig hvað ég hafði unnið við. Ég vissi hins vegar að þau bjuggu í Stokkhólmi og að konan var sálfræðingur en maðurinn var arkitekt. Við vissum líka um áhugamál hvers annars.
 
Tíminn leið hratt og ég ímyndaði mér að Susanne væri orðin hissa á hvað ég aðhefðist þarna inni í matsalnum. En þegar ég kom út til hennar aftur var hún í líflegu samtali við annað par þar sem konan var sænsk en maðurinn frá Austurríki. Þá vissi hún þegar að þau voru fjallgöngufólk af holdi og blóði, trú Lapplandi, og einnig þá vissu þau þegar að ég kom frá Íslandi. Svo héldum við áfram að tala saman þar til við höfðum öll lokið við að borða morgunverð okkar.
 
Þetta er reynsla okkar af Lappland og Norrland yfir höfuð, hvort heldur við tölum um Kolåsen eða Jokkmokk og allt þar á milli.
 
 
 
Kirkjan á myndinni, eða Lappkapellet á Kolåsen, er þungamiðja þessarar myndar. Fjallahótelið Kolåsen er til hægri við myndina, en einmitt þar erum við núna við landamæri óbyggðanna. Mynd: Anna Romare Blyckert, Kolåsen. Textann neðan skrifaði ég fyrst og hann getur átt við svo marga staði en myndina fann ég síðar og hún féll svo vel að textanum.
 
 
Við sitjum á brekkubrún eða fjallsbrún og höfum útsýni langar leiðir, yfir fell og hnjúka, stöðuvötn og dali, og við sjáum einnig há fjöll. Hæstu fjallatopparnir eru gróðurlausir en að öðru leyti er allt grænt utan stöðuvötnin, grænt þar til blái liturinn tekur yfir í fjarlægð. Það er logn, kyrrðin er fullkomin, ekkert truflar. Guð er nálægur. Nei, hann er ekki nálgur, hann er með, hann er í öllu. Þannig stund má aldrei taka enda hún en gerir það samt. Eftir stendur minning og það er minningin sem aldrei tekur enda. Hún fylgir með og er alltaf tiltæk þegar hennar er þörf.
 
Nú er einhver mikið ástfanginn af Norrland og einmitt þá má ekkert meira segja því að lífið er fullkomið.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0