Vorverk

Við Lennart nágranni, ellilífeyrisþegi og smiður spígsporuðum hér úti til klukkan að ganga níu og dáðumst að veðrinu, vorinu og öllum gróðrinum. Það lá næstum krakkalega vel á okkur og andagiftin okkar stráði orðunum óspart yfir byggðarlagið. Lennart vildi ekki þiggja kaffi því að þau hjónin ætluðu að hita kaffi heima og drekka það úti í guðsgrænni náttúrunni. Svo gekk hann með léttum skrefum heimá leið. Þá var hitinn 22 gráður.

Fyrr um daginn var hún Valdís kona mín á fullu við vorverk úti. Hún byrjaði að setja niður kartöflur, síðan sinnti hún rabarbaranum, tíndi upp grjót við innkeyrsluna, bar á alparósirnar og vökvaði þær og vökvaði sár eftir byggingarframkvæmdir. Hún virtist óstöðvandi og ég bara botnaði ekkert í þessu. Svo kallaði hún á mig í matinn. Ég sneið loftlista í loft sem er dálítið frábrugðið venjulegum loftum þannig að þetta var föndurvinna, málaði listana og aðstoðaði málarann sem byrjaði fyrir alvöru á málningarvinnunni. Svo tók ég myndir af Valdísi.


Garðholan er ekki stór en það er á áætlun þegar við verðum búin að taka nýja húsnæðið í notkun að gera þokkalegan kálgarð. Það verður góð rabarbarasultan sem verður ávöxturinn af þeim jarðabótum sem Valdís var að ljúka við þarna á myndinni.


Svo var hún allt í einu komin af stað með sláttuvélina og þurfti ekki einu sinni á aðstoð minni að halda við að koma henni í gang í fyrsta skipti á vorinu. Þau eru ekki máttleysisleg skrefin sem hún tekur þarna konan mín.


Hjá ungu nágrönnunum sunnan við hófust byggingarframkvæmdir í dag. Það er engin kyrrstaða í sveitinni.


Svo er það beykilaufið sem ég hef svo oft talað um. Ég verð að sýna myndir af því svo að fólk fari ekki að halda að þetta sé bara blaður í mér. Við sjáum þarna eitt og eitt gamalt laufblað, en síðasta lauf síðast árs fellur þegar nýtt lauf springur út. Ég segi að beykilaufin séu fallegustu laufblöð þeirra trjáa sem ég þekki til meðan þau eru í fæðingu.


Og þetta eru nokkrum dögum eldri laufblöð á sama tré og er á næstu mynd fyrir ofan.


Í gær, rétt áður en skyggði, sáum við Brodda fara stórum skrefum hér bakvið húsið. Eða kannski var það Brodda þar sem við vitum ekki hvort þetta var hann eða hún. Svo fór broddgölturinn undir alparós norðan við húsið og þar tókum við mynd af honum og það má gereina hann þarna á miðri myndinni. Ef við hefðum ekki séð til hans á ferðinni hefðum við aldrei vitað að hann huldi sig þarna undir alparósinni. Það er mikið af svona dýralífi alveg á næstu grösum við okkur sem við tökum ekki eftir nema vera með afar vel opin augu.

Meðan við Lennart töluðum saman hér úti trommaði spætan léttilega úti í skógi, skógardúfurnar kuruðu þar einnig og til allra átta sungu margs konar smáfuglar fyrir elskurnar sínar. Nú er kvöldkyrrðin og rökkrið gengin í garð og mál fyrir ellilífeyrisþegana að leggja sig með Óla Lokbrá sem leiðarljós. Á morgun tekur galvaskur ungur málari hús á okkur um sjöleytið og eftir það verður erfitt að hvíla í draumalandinu.


Kommentarer
Rósa

dugleg hún mamma mín!



hvað eru lars og stína að byggja?



kveðja,



r

2011-05-10 @ 09:20:52


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0