Gæt þessa dags 1

Ég hef verið trassi  -lengi-  og ekki sinnt hlutum sem er mikilvægt að sinna. Ég hef hagað mér eins og ég hafi loforð frá Guði almáttugum um að ég hafi ein þrjátíu ár eftir af lífi mínu. En ég hef ekki þetta loforð. Líf mitt, og okkar Valdísar, hefur nú í nokkur ár gengið út á að byggja upp hið veraldlega. Við búum í landi sem býr yfir ótrúlegri veðursæld og er guðdómlega fallegt og við gefum okkur ekki tíma til að skoða þetta fallega sköpunarverk. Fyrir nokkrum árum las ég mikið meira af úrvals bókum, ég lagði oft leið mína í Nikolaikirkjuna í Örebro og sat þar í kyrrðinni meðan lífið brussði fyrir utan eða ég fór gjarnan á einhvern kyrrlátan stað undir berum himni og sat þar og bara horfði í einhverja átt og var til.

En eins og ég sagði áðan gengur lífið næstum eingöngu út á það veraldlega um þessar mundir, að koma upp þaki yfir höfuðið og skapa þær aðstæður sem fólk telur sæmandi. Andlega hliðin hefur setið á hakanum og ég hef hugsað svo að ég snúi mér að henni þegar við erum tilbúin með það veraldlega. Satt best að segja verður ekki aftur snúið með það úr þessu og ekki annað að gera en að vona að sá sem öllu ræður gefi okkur þann tíma sem við þurfum til ljúka byggingarvafstri okkar og tíma til að sinna lífinu sjálfu eftir það.

Ég sat fyrir mörgum árum með presti á kaffihúsi í Brickebacken í Örebro, en hann kom oft á meðferðarheimili þessi prestur til að hlusta á fólk sem vildi tala um erfið mál. Ég sagði við hann að það væru oft andlegar stundir þar sem alkohólistar sem virkilega vildu breyta lífi sínu sætu saman og töluðu heiðarlega frá hjartanu. Þá sagði hann setningu sem ég hefði svo gjarnan viljað hafa heyrt mikið fyrr eða fundið upp á sjálfur: Þar sem manneskjur eru opinskáar og heiðarlegar, þar finnast andlegheitin. Það er að vísu einfaldara að segja þetta á sænsku: Där det finns öppenhet och ärlighet, där finns också andlighet.

Síðan hann sagði þetta hef ég mjög oft notað orð hans yfir það sem ég hafði reynt að segja með mikið fleiri orðum ótal sinnum áður. Svo einfalt er það með andlegheitin. Þetta gildir ekki bara fyrir alkohólista á meðferðarheimili. Þetta gildir fyrir allt fólk. Þar sem einhver byrjar að tala úr dýpstu fylgsnum hjarta síns gerir einhver annar það líka og þar svífur að lokum friður um sali og það er eins og andrúmsloftið staldri við og samkenndin ráði ríkjum.

Ef ég les setningu sem hefur djúp áhrif á mig og ég gef mér tíma til að hugleiða meininguna eru það andlegheit fyrir mig. Það er í dag mikið af bókum í umferð sem eru fullar af spakmælum, til dæmis spakmæli fyrir hvern dag ársins. Útgefendur hafa áttað sig á því að það er markaður fyrir þessar bækur. Ekki hafa þeir skapað andlega leit fólks, en þeir hafa áttað sig á því hvert vatnið leitar um þessar mundir. Ein bók með texta fyrir hvern dag heitir Tuttugu og fjögurra stunda bókin, gefin út á íslensku 1986. Hún tilheyrir því gömlum bókum í þessu samhengi. Í formála hennar er sagt að hún sé ætluð félögum í AA, það er að segja fólki sem lifir samkvæmt 12 spora kerfinu. Það var því engin tilviljun að ég sat mikið með þessa bók inn á Vogi í janúar árið 1991 og þar las ég gjarnan með tárvotum augum vísdómsorð á síðu allra fremst í bókinni. Ég vildi endilega fá meðferðarfélaga mína til að lesa þessi vísdómsorð og skynja hið djúpa innihald þeirra -og- það var ekkert vandamál að fá þar fylgjendur í trúnni. Þeir sem ekki áttu peninga skrifuðu hreinlega upp úr bókinni minni.

                    Gæt þessa dags
                    því að hann er lífið
                    lífið sjálft

                    og í honum býr
                    allur veruleikinn
                    og sannleikur tilverunnar
                    unaður vaxtar og grósku
                    dýrð hinna skapandi verka
                    ljómi máttarins.

                    Því að gærdagurinn er draumur
                    og morgundagurinn hugboð
                    en þessi dagur í dag
                    sé honum vel varið
                    umbreytir hverjum gærdegi
                    í verðmæta minningu
                    og hverjum morgundegi
                    í vonarbjarma.

                    Gæt þú því vel
                    þessa dags.

                                              (úr Sanskrít)

Undir þessum línum stendur ekkert nafn, en þar stendur í staðinn; "Úr Sanskrít", sem segir að vísdómsorðin eru alls ekki ný af nálinni. Þessi boðskapur; að takist mér að gæta dagsins í dag, komi ég í framtíðinni til með að eiga góðar minningar um gærdaginn og hlakka til morgundagsins, var mikill fagnaðarboðskapur fyrir fjörutíu og átta ára mann sem sat sveittur í lófum í sjúkrahússlopp inn á Vogi.

Ég hef hugleitt mikið undanfarið vinnu mína í Vornesi og hvers virði hún hefur verið fyrir mig gegnum árin, hvort hún hefur mótað mig mikið eða lítið. Takist mér ekki þokkalega að lifa mínu lífi samkvæmt því sem ég túlka í vinnunni í Vornesi, verða sjúklingarnir þar fyrstir til að átta sig á að þessi maður er ekki virðingarinnar verður þar sem hann lifi ekki samkvæmt kenningu sinni. Þeir finna margt á sér sem í dag eru í þeirri stöðu sem ég var í sjálfur árið 1991. Þankabrot mín um þetta verða fleiri á næstunni.

               Gæt þessa dags
               því að hann er lífið


Nikolaikirkjan í Örebro. Ég tók myndina frá Wikipedia en veit ekki hver ljósmyndarinn er. Ég vona bara að hann fyrirgefi mér að hafa notað hana. Myndin er tekin í júlí 2010


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0