Vorið góða grænt og hlýtt

Veðurfræðingurinn Per sem var með spána í sjónvarpinu í kvöld, hann var góður. Hann spáði verulega hlýnandi eða langt yfir meðallagi miðað við árstíma. Síðan spáði han öðru sem var mjög mikilvægt; hann spáði rigningu eftir helgina.

Átjánda og tuttugasta apríl var ég að tala um að bjarkirnar væru sprungnar út en blöðin væri lítil ennþá, sama var þá með hegginn. Í dag, tveimur vikum seinna get ég kannski sagt sem svo að birkið sé 85 % laufgað, reyniviðurinn eins, eikin er laufguð um 20 %, álmurinn 20 %, hlynurinn 30 %, öspin 5 %, beykið 2 %, askurinn 0 % og svo eru einhverjar tegundir eftir sem ég ekki man í augnablikinu. Að nefna svona tölur er auðvitað bara út í bláinn, en meiningin er bara að segja að það á alveg gríðarlega mikið eftir að ske. Samt er þvílíkt mikið laufhaf þegar komið. Svona er Svíþjóð í dag.

Ég hef verið í vinnu í gær og í dag og verð á morgun líka, dagavinna en langir dagar. Alkohólistarnir eru fínir eins og venjulega. Þeir sem skrifast inn án þess að vera viljugir til að breyta lífi sínu, þeir hverfa venjulega fljótlega á einn og annan hátt. Því verður úrvalsfólk ráðandi á staðnum. Í dag fórum við ráðgjafarnir í bowlingsal og kepptum í bowling. Ég mundi kannski velja að segja að við lékum okkur í bowling. Ég var 18 árum eldri en sá næstelsti en ef við höldum þessu áfram má ungafólkið vara sig á ellilífeyrisþeganum komst ég að í dag. Kannski ætti ég að æfa í laumi og sigra svo í ráðgjafakeppni. Ég hef einu sinni prufað þetta áður, en það var upp í Falun árið 1995. Æ, mér fer ekki vel að monnta mig.

Við ætlum að halda áfram að njóta vorsins þó að það verði áframhald á byggingarvinnu enn um sinn. Það er að sjá að það verði mikið af bláberjum að baki húsinu og verða því væntanlega mörg kvöldin með bláber og Tyrkjajógúrt í eftirrétt. Því er haldið stíft fram hér í landi að bláber séu það hollasta sem náttúran bjóði upp á.

Nú er kominn háttatími fyrir ellilífeyrisþegann sem þarf að vakna snemma í fyrramálið. Góða nótt.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0