Síminn hringdi -það var Hannes

Við Valdís tölum oft um það að við þyrftum að taka dag og heimsækja Hannes. Svo bara dregst það að við heimsækjum hann. Þegar við segjum Hannes eigum við við alla fjölskylduna. Við búum það nálægt þeim að við eigum að geta haft nánari tengsl við þetta barnabarn en þau sem búa í meira en tvöþúsund kílómetra fjarlægð. Ég reikna líka með að við Valdís séum eins og aðrir afar og ömmur -að yngsta barnabarnið er einfaldlega yngst. Í gær hringdi Rósa og þá var öll fjölskyldan úti á gönguferð. Þau voru þá búin að vera á leikvelli og það hafði verið svo gaman. Ég heyrði í símanum að Hannes var þar nálægt og trallaði, söng og talaði mikið. Mamma hans sagði að hann væri mikið á ferðinni og þætti afskaplega gaman að hlaupa niður brekkur.


Á þessari mynd er hann ekki að hlaupa niður neina brekku, hann er á leikvellinum. Hann bara brosir sínu fallegasta brosi móti myndavélinni og svipurinn ber vott um að hann er meðal vina -þeirra sem hann treystir mest af öllum, mömmu og pabba. Hann hefur ekkert að óttast.


En maður er ekki á leikvellinum bara til að brosa móti myndavél, maður verður nú að klifra líka og æfa kroppinn sinn vel fyrir framtíðina. Og það er rosa gaman að klifra skulið þið vita, eða mér sýnist það á þessu andliti svo varla verður um villst.


Svo var það á leiðinni af leikvellinum sem Rósa hringdi til mín og ég heyrði Hannes tralla, syngja og tala þar álengdar. Viltu tala við afa? spurði mamma hans, og á myndinni sjáum við hvernig hann tók því. Ég heyrði í símanum hvernig hann hætti að tralla og syngja og nú talaði hann skipulega og sagði frá einhverju afar mikilvægu sem ég ekki skildi kannski svo vel, en ég var þess full viss að hann var að segja mér frá einhverju stóru.

Er þetta ekki makalaust? Fyrstu tvær myndirnar voru teknar einhverjum mínútum áður en Rósa hringdi þarna í gær. Þessi síðasta var tekin meðan Hannes var að tala við mig í símann. Í gærkvöldi sáum við Valdís svo þessar myndir hér heima. Ég segi oft að Jón Sveinsson, Nonni, fór út með haustskipinu fyrir einum 130 árum. Með vorskipinu árið eftir fór bréfið heim þar sem Nonni sagði mömmu sinni frá því að hann hefði komist klakklaust til Kaupmannahafnar.


Kommentarer
Anonym

En hvað það er flottur lítill strákur sem þið eigið, þið megið alveg vera montin af honum.

Bestu kveðjur til ykkar allra,

Þórlaug

2011-05-08 @ 15:13:28


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0