Ég hef verið alveg hrikalega . . . . . .

Ég hef ekki bloggað í nokkra daga og ástæðan er að nokkru leyti að internet hefur ekki virkað hjá okkur nema þá helst að við gátum sent og tekið ámóti e-pósti. Ég verð að viðurkenna að mér fannst það töluverð fötlun að geta ekki farið inn á netið og það var svo komið að við gátum eiginlega ekki fylgst með atburðum í Grímsvötnum. Ég varð svolítið hissa á því hvað mig vantaði mikið. Atburðirnir í Grímsvötnum áttu að vísu aukinn þátt í þessum söknuði.

Ég hef verið alveg hrikalega latur í dag. Þetta er fyrsti dagurinn í langan tíma þar sem ég hef ekki haft neitt á dagskránni annað en að vera Valdísi eitthvað til aðstoðar vegna gestakomu. Það var nefnilega hlutverk hennar að þessu sinni að taka á móti konunum fjórum sem eru með henni í klúbbnum sem hittist einu sinni í mánuði til að borða saman hádegisverð. Nú var margt tilbúið og næstum því tilbúið hér heima hjá okkur, meðal annars nýtt eldhús. Þær voru forvitnar konurnar um það hvernig eiginlega liti út hjá okkur að þessu sinni. Þær vissu nefnilega að það hefðu orðið miklar breytingar. Svo tókst þetta svona líka ljómandi vel hjá Valdísi og allir voru ánægðir, ef til vill ætti ég að segja að allar voru ánægðar, en ég fékk þó að borða með þeim.

Á sama tíma og Fljótshverfingar og fleiri Skaftfellingar ásamt mörgum landsmönnum reyna að draga andann léttar og eru byrjaðir að þrífa til í kringum sig, þá gekk ég út í skóginn hjá okkur í 20 stiga hita og sól til að vökva lítil tré sem við höfðum fært til í þeirri iðjagrænu náttúru sem við lifum í hér. Þetta gerði ég svona rétt á milli mála í dag. Ég stóð við gráa plasttunnu og jós í garðkönnu þegar spætan byrjaði allt í einu að tromma í tré beint yfir höfði mér. Ég leit upp en var hreint ómögulegt að koma auga á þennan litla fugl sem getur trommað alveg ótrúlega hátt með aðferð sem ég skil bara alls ekki. Fyrir nokkrum dögum sá ég spætu hlaupa niður birkitré hér rétt bakvið húsið og það var auðséð að hún fann hellings fæðu í berkinum sem mér var alveg ómögulet að koma auga á. Hún flaug svo burtu með nefið fullt af fæðu sem börnin hennar hafa væntanlega átt að gæða sér á.

Þetta átti sér stað einhverjum degi eftir að hrossagaukurinn yfirgaf hreiðrið við leikskólann á Klaustri og stuttu eftir að mikið af fuglum hlýtur að hafa yfirgefið hreiður sín í Fljótshverfinu. Eftir öllu að dæma, eins og það kemur okkur fyrir sjónir, hlýtur að hafa verið mikið meira öskufall þar. Við vorum orðin hissa á því að allar fréttir miðuðust við Klaustur en kannski var það vegna þess að það var hreinlega ófært austur í Fljótshverfi. Við höfum verið mikið með hugann þarna á mínum bernskuslóðum. Hann finnski Markku, en við erum oft í sambandi, sagði í dag að hann hefði mikið meiri samúð með Íslendingum þegar erfiðleikar sæktu þá heim eftir að hann hefði kynnst mér.

Við höfðum heimsókn í nokkra daga þar sem Hannes Guðjón nafni minn var hér á ferð með fjölskyldu sinni. Það eitt krefst sérstaks bloggs en að ég byrja á þessu bloggi bara til að koma mér í blogggang aftur. Áðan kenndi ég interneti um að ég hefði ekki bloggað í heila viku en það var fleira sem lá að baki. Það var líka of mikið að gera. Ég hef unnið all nokkuð í Vornesi upp á síðkastið og svo lögðum við mikið kapp á að ljúka ákveðnum hlutum hér heima fyrir heimsókn Rósu og fjölskyldu og svo kvennanna í dag. Það var líka hreinlega of mikið að gera. Ég ætla að birta hér nokkrar myndir.


Hér stendur Valdís við kjötkatlana í umhverfi sem hún er vel sátt við. Þetta er ekki alveg tilbúið. Það vantar til dæmis flísar á veggina yfir bekknum, það er eftir að setja sökkulinn framan á fæturna undir skápunum og smávegis meira er eftir. En vel nothæft er það samt.


Já, það er mikið sem hefur breytst í þessu húsi okkar á Sólvöllum. Þessi mynd er tekin í gamla hlutanum og það sem hefur átt sér stað innan húss í þeim hluta hússins hefur allt átt sér stað eftir áramót. Gamla gólfið var látið fjúka út á lóð og helmingurinn af því lenti í eldiviðargeymslunni hjá Anders smið og hinn helmingurinn í eldiviðargeymslunni okkar. Svo þegar gólfið var tilbúið undir parkett horfðum við á loftið og svo horfðum við ennþá meira á loftið. Svo fauk það út á lóð líka. Svo fengu útveggirnir sjö sm styrkingu, viðbótar einangrun og nýjar veggjaplötur. Það eina af því gamla sem sést í húsinu eftir þetta er loftið yfir eldhúsinu. Það var þó lakkaður viður en er núna hvítmálað. Þetta mundu þau sem seldu okkur húsið þekkja en heldur ekkert meira. Þau líta inn einstaka sinnum. Þessi hluti fékk nýjan panel utanhúss og nýja glugga í fyrrasumar.


Þarna eru kátar stelpur í góðu yfirlæti í dag og eru að spekúlera eitthvað mikilvægt. Eins og sjá má vantar áfellur og gerefti á gluggana.


Og þarna stilltu þær sér svolítð upp svo að haninn í hópnum gæti tekið mynd af þeim. Það má sjá að baki þeim að það vantar þar tvær hurðir. Aðra þeirra, hurðina fram í forstofu keyptum við fyrir nokkrum mánuðum. Þegar við keyptum hana vorum við ekki ákveðin í að framkvæma það innanhúss sem nú er búið að framkvæma. Hurðin er því ennþá geymd í byggingarvöruverslunni en hún var þó borguð í lok janúar. Heyrðu! það eru eftir jarðarber á diskinum.

Hér með birti ég þetta blogg og byrja svo á blogginu um heimsókn Stokkhólmsfjölskyldunnar. Ég vil þó segja að lokum að hið græna haf sem breiðir úr sér utan við gluggann sem ég sit við er alveg með ólíkindum


Kommentarer
Auja

Þetta hefur nú bara breyst úr húsi í höll eins og maður segir. Vonandi sjáum við það allavega næsta sumar, sennilega ekki í sumar því miður, kveðjur til Valdísar

2011-05-26 @ 21:40:20
Valgerður

Mikið aldeilis fínt. Gerði mamma kartöflusúpuna eða......?

VG

2011-05-27 @ 15:24:17
Þórlaug

Það er ekki lítið fínt nýja eldhúsið ykkar, til hamingju með það.

Bestu kveðjur til Valdísar,



Þórlaug

2011-05-28 @ 00:30:06
Dísa gamli nágranni

Mikið er þetta afskaplega huggulegt hjá ykkur.

Ég get alveg ímyndað mér að Valdís sé ánægð með með eldhúsið ykkar og allt húsið. Þið eruð ótrúlega dugleg að vera búin að koma öllu þessu í verk.

Okkar allra bestu hamingjuóskir með allt þetta.Ottó biður að heilsa og ég nátturlega líka.

Dísa g.ng.

2011-06-02 @ 23:49:28


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0