Það eru góðir tímar

Það var merkilegt að líta út í morgun -það var snjór. Ekki þó meira en svo að það var ekki hægt að segja að það væri almennilega hvítt. En fátt er svo með öllu illt að ei boði gott. Jörðin blotnaði og ekki var það verra að þaðvar að hreyta niður regndropum fram eftir degi. Og svo um hálf fimm leytið þegar við Valdís vorum að leggja af stað til Örebro var hvorki rigning eða haglél en einhvers staðar þar á milli og það var mikil úrkoma. Svo núna rétt fyrir dimmumótin fór ég út að kanna málin og bera á eitt beykitré og þá var ég ekki í vafa um að það hafði verið góð grasspretta í dag.

Nú er friðurinn úti -ég fer í vinnu á morgun og vinn í þrjá daga. Svo hef ég frí í átta daga. Málarinn sem ætlaði að byrja í dag byrjar ekki fyrr en á föstudag. Ulf heitir hann. En hann kom í heimsókn til að gera grein fyrir þessu. Þetta breytir áætluninni þannig að ég verð tilbúinn með meiri trésmíði en til stóð áður en hann byrjar. Kannski var það bara ágætt. Eldhúsið verður tilbúið samt sem áður þegar Valdís tekur á móti vinkonum sínum í mat í seinni hluta mánaðarins. Þá verður hún drottning í sínu nýja eldhúsi.

Ef ég þyrfti ekki að fara að leggja mig mundi ég láta gamminn geysa svolítið lengur. Ég tek ekki áhættuna á að ég verði hress á morgun ef ég fer seint að sofa, ég þekki sjálfan mig það vel. Ég gæti sofnað við aksturinn, yrði beyglaðri í andliti þegar ég kæmi á vinnustað og yrði ekki sannfærandi í því sem ég segði. Ég veit svo að það er spáð hlýindum um helgina og þá verður ábyggilega hægt að heyra gras og skóga vaxa. Það eru góðir tímar


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0