Gæt þessa dags 2

Það er kannski ekki svo algengt að fólk vitni mikið í vinnuna sína og ég veit að hér í landi er nokkuð af fólki sem gerir það ekki vegna þess að þá finnst því sem það eigi ekkert líf utan vinnunnar. En nú er komið að því hjá mér að gefa skýringu á því hvers vegna ég vitna svo oft í vinnuna og Vornes og hver er ástæðan að hluta til að ég er enn að vinna þar. Mér, ellilífeyrisþeganum, þykir vænt um vinnuna mína og skammast mín ekki fyrir. Ef ég hefði ekki gegnum árin þrifist með vinnuna mína hefði mér heldur ekki liðið vel í einkalífinu.

Vinur minn og fyrrum vinnufélagi mitt í skógunum í Svartnesi í sænsku Dölunum, hann Gísli, elskar vinnuna sína. Hann er búinn að vinna við ráðgjöf í áratugi og vinnur enn. Það eru ekki hans orð, en ég veit að ef hann færi bara af skyldurækni í vinnuna og hundleiddist þar, þá mundi hann líka vera hundleiðinlegur heima. Ég hef ekki spurt hvort hann sé það en ég tel mig vita býsna vel að svo sé ekki. Ég spurði Gísla í tölvupósti um daginn hvort honum þætti vinnan skemmtileg. Ég vissi að honum þætti það en ég vildi fá hann til að segja það með sínum orðum. Ég hef hans leyfi til að nota orð hans.

Gísli sagði meðal annars eftirfarandi í tölvupósti: Ég hef mest yndi af ráðgjöfinni af öllu því sem ég geri. Sem dagskrárstjóri lendi ég í vinnu sem mér finnst ekkert sérstaklega skemmtileg, en ef ég fæ tækifæri til að vinna með sjúklingum lifna ég allur við. Þetta var ástæðan til að ég fór að vinna með þetta. Það er ekkert sem jafnast á við að taka við ráðviltum alkohólista og fara með honum í þetta ferðalag sem við köllum BATA. Sjá augu hans opnast smám saman og vonina vakna til að sjá að það finnst líf án áfengis. Enda, ef vel tekst til, þá eigum við þetta fólk það sem eftir er ævinnar. Hvað er meira gaman og gefandi en að geta rétt öðrum hjálparhönd. Við erum forréttindafólk.

Satt best að segja finnst mér að ég þekki mig í öllu því sem Gísli segir þarna. Ég hef líka frétt af manni sem var búinn að vinna einhver ár sem ráðgjafi en fór svo að lesa sálarfræði. Að loknu því námi gat hann ekki hugsað sér annað en að koma til alkohólistanna aftur. Honum fannst bara svo gaman að vinna með þá.

Finnskættaði presturinn Harry Månsus fór til sviss til að læra guðfræði vegna þess að hann átti sér þann draum að kenna Svíum guðfræði. Eitthvað varð til þess að Månsus hætti sem guðfræðikennari, alla vega um tíma, og hann fór að vinna á meðferðarheimili fyrir alkoholista. Þar uppgötvaði hann að það fundust mikið meiri andlegheit í Svíþjóð en hann hafði talið, og annað; þessi vinna styrkti trú hans. Månsus hefur líka skrifað nokkrar bækur um andlegheit og það mesta sem ég veit um hann hef ég eftir lestur þessara bóka.

Ég vil svo frá eigin brjósti segja að það er mikil lífsreynsla að kynnast fólki á ólíkum aldri, menn og konur, sem allt í einu eftir niðurlægingu neyslunnar tekur þá ákvörðun að breyta lífi sínu og verða betri manneskjur. Við þessar aðstæður kemur margt óvænt fram í fari þeirra og þetta fólk segir mjög oft athyglisverða, óvænta og fallega hluti og ég kalla þessar setningar gullkorn. Flest gullkornin sem ég hef heyrt á meðferðarheimilunum verð ég að hafa fyrir sjálfan mig.

Fyrir mörgum árum var nær fertugur maður frá suður Svíþjóð í meðferð í Vornesi. Sonur hans sjö ára kom í heimsókn til hans um helgi þegar ég vann og sátu þeir feðgar móti hvor öðrum við borð í matsalnum. Sonurinn var prúðbúinn og með bindi. Ég gekk eftir matsalnum og nálgaðist borð þeirra og ég sá á öllu að pabbinn var búinn að segja syninum frá mér. Þegar ég kom á móts við borðið þar sem þeir sátu gekk sonurinn ákveðið fram á gólfið, stillti sér þar upp, rétti fram hendina til að heilsa og hneigði sig djúpt. Sjö ára barn hefur aldrei þori ég að fullyrða heilsað mér með slíkri lotningu sem þessi drengur gerði. Það var engin uppgerð, hann vildi ljúflega gera þetta.

Eitt sinn skrifaði ég út mann á mínum aldri vegna þess að hann viðurkenndi alls ekki að hann hefði áfengisvandamál. Þar með hafði hann ekkert að gera í Vornesi. Síðar sama dag hringdi yfirmaður hans í vinnunni til mín til að tala um þetta. Það var kona og hún sagði að maðurinn væri búinn að koma og tala við sig. Hún sagðist líka skilja að ég hefði sent hann heim þar sem hann bara sæi alls ekki vandamálið, hún vissi það vel. Hins vegar sagði hún mér frá því að maðurinn hefði sagt henni að það hefði unnið þarna maður sem hann hefði ákveðið að taka sér til fyrirmyndar í einu og öllu því að það væri eftirsóknarvert að vera eins og hann. En, sagði svo maðurinn, í morgun kom þessi maður til mín og skrifaði mig út.

Úff! og hvað sagði ég þá? Það er ekkert sérstakt að segja annað en að ég gerði rétt. Hins vegar verð ég að viðurkenna að þegar ég lagði tólið á var ég ekki alveg ósnortinn eftir samtalið.

Það er mikil mannrækt ef fólki tekst að lifa eftir 12 spora kerfinu. Eitt sinn fyrir mörgum árum kom fyrrverandi rektor framhaldsskóla í Svíþjóð í Vornes, þá all löngu orðinn ellilífeyrisþegi. Bakkus hafði sigrað hann. Hann kom með konu sinni og dóttur til að fá upplýsingar um það hvað meðferðin gengi út á. Þegar ég var búinn fara í gegnum það hvað meðferðin gengi út á og útskýra sporin 12 var hann orðinn merkjanlega snortinn og viðkvæmur. Hann rétti út hendina móti mér og sagði: Ef ég hefði gert það sem þú gerðir þegar ég var á þínum aldri, þá væri ég kannski eins og þú ert í dag. Þá var komið að mér að vera viðkvæmur en því hampaði ég ekki.

Það er frábært að fá kveðju frá fólki sem var í Vornesi fyrir kannski 15 árum eða fólki sem var í Svartnesi fyrir 17 árum. Það sannar það sem Gísli sagði að við getum átt þetta fólk alla ævi, það er að segja að við hittum hjartað í því. Þeir eru líka ófáir fyrrverandi Svartnessjúklingar sem ég hef hitt löngu eftir Svartnes og þegar þeir nefna nafn Gísla hlýnar rödd þeirra. Gísli er maður sem ekki gleymist segja þeir. Að fá kveðju frá heilli fjölskyldu er nú það lang besta. Margur sjúklingurinn í Vornesi hefur grátið sáran af sorg, samviskubiti, skömm og sektarkennd gagnvart fjölskyldunni og öll fjölskyldan hefur grátið af sömu ástæðu vegna alkohólistans. Það eru mörg pörnin sem hafa fengið mömmu eða pabba til baka vegna þess að Vornes fannst þegar á því þurfti að halda.

Svartnes og Vornes hafa verið mér mikil lífsreynsla og mótað persónuleika minn mikið. Ég held að ég muni koma til með að finnast fyrir Vornes eitthvað áfram og kannski stuðla að því með útréttri hendi að nokkur börn fái til baka bæði mömmur og pabba. Og án efa mun ég mun ég halda áfram að nefna Vornes í blogginu mínu. Það er þá eins gott að ég haldi áfram að rækta garðinn minn. Við erum forréttindafólk sagði Gísli.

               Gæt þessa dags
               því hann er lífið
               lífið sjálft



Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0