Stefnumót í Sólvallaskóginum

Í gærkvöldi var ég að til klukkan rúmlega ellefu til að vera tilbúinn að taka á móti málara og smið í morgun. Svo var ég kominn á stjá lítið fyrir klukkan sjö í morgun og allt gekk gríðarlega vel í dag og fyrst fór málarinn heim og síðan smiðurinn. Þá fórum við Valdís inn til Örebro til að kaupa plötu á eldhúsbekkinn og þá gekk ekki eins vel. Allt virtist snúa öfugt og ég ætla ekki að rekja það en við komum heim bekkplötulaus. Nokkru eftir að við komum heim ákvað ég að fara einn hring í skóginum og á göngunni þar áttaði ég mig á því að best væri að taka því rólega í kvöld og fara svo aðra ferð til Örebro á morgun og vera betur stemmdur. Meðan ég var í skóginum gekk Valdís frá hér heima við frumstæðar aðstæður.

Ég var með tommustokkinn í vasanum og gekk að fyrsta hlyninum sem varð á vegi mínum og hann hafði vaxið um 38 sm. Því næst gekk ég að því beykinu sem næst mér var og mældi vöxtinn á greininni sem fyrst hafnaði í hendi minni. Hún hafði vaxið 20,5 sm. Því næst gekk ég að litlu eikartré og toppurinn á því hafði vaxið um 14 sm. Það er 16. maí í dag og þetta er alveg makalaust. Þeir sögðu upp í Umeå fyrir fáeinum dögum að ákveðin birkitré þar sem fylgst er nákvæmlega með væru þremur vikum fyrr á ferðinni en var fyrir nokkrum árum.

Í fyrra var ég einu sinni sem oftar í gróðrarstöð inn í Örebro og hitti þar skrúðgarðameistara sem var hugguleg og viðmótsgóð kona. Hún ráðlagði mér mér að bera vel á beykitrén okkar svo að þau yrðu að virkilegum trjám á skömmum tíma. Og hvaða áburð á ég að nota spurði ég? Hænsnaskít sagði hún. En svo sagði hún að í raun væri það best að ég bara pissaði kringum beykitrén. Það var auðvitað ósköp einfalt og ég fór að ráðum hennar og beykitrén uxu vel í fyrra. Nú er komin ný vertíð og ferðir mínar í skóginn eru flestar stuttar og farnar í ákveðnum tilgangi. Hallærislegt dettur kannski einhverjum í hug og það getur mér svo sem fundist líka, en líklega er þó ekkert eðlilegra en að gera þetta.

Í gær dvaldí ég hjá einu beykitrjanna í áburðarskini og þegar ég var tilbúinn leit ég beint fram og sá elg örstutt fyrir framan mig. Við horfðum svolitla stund hvor á annann og svo skokkaði elgurinn burtu á sínu svífandi skokki sem er elgjum svo eðlilegt. Á hringferð minni í skóginum áðan stoppaði ég aftur hjá sama tré í sama tilgangi og hugsaði sem svo að kannski væri ég ekki einn núna heldur. Og viti menn! Nú voru elgirnir tveir en í aðeins meiri fjarlægð. Ég á eftir að stoppa einu sinni enn hjá þessu tré áður en áburðargjöfinni kringum það er fullnægt. Ef ég verð þar um svipað leyti annað kvöld, hvað ætli elgirnir verði margir þá?

Nú er virkilega kominn svefntími fyrir mig því að ég ætla að vera vel á mig kominn á morgun. Valdís á það svo sannarlega inni að það komi bekkplata á eldhúsbekkinn hið fyrsta. Við förum því í aðra verslunarferð upp úr hádegi og verðum þá vonandi plötunni ríkari. Ég ætla að reyna að vera svolítið fullorðinn maður á morgun því að ég er nú orðinn 69 ára.



Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0