Heimsókn á Sólvelli

Það var mikið líf á Sólvöllum um og eftir síðustu helgi þegar Hannes og fjölskylda voru í heimsókn. Það var margt fyrir hann að kynnast og margt að aðhafast sem hann getur ekki gert heima hjá sér. Þetta stundaði hann líka vel frá morgni til kvölds að frádregnum miðdegisblundinum. Myndavélar voru á lofti og hér eru nokkrar myndanna sem teknar voru af lífinu í sveitinni.


Amma keypti sláttuvél handa Hannesi í fyrra en þá var hann eiginlega of lítill til að hjálpa ömmu sinni við sláttinn. Hann var hins vegar duglegri við að hjálpa afa að hreinsa grjót af svæðum þar sem Peter gröfumaður var búinn að rusla til. Þá skoðaði hann litla steina nákvæmlega, smakkaði jafnvel aðeins á þeim og kastaði þeim svo þangað sem honum fannst að þeir ættu að vera. Við vorum ekki alltaf alveg sammála um það hvert hann mætti kasta þeim en við rukum þó ekki í hár saman út af svoleiðis smámunum. Núna þótti Hannesi sem sláttuvélin væri mikið meira við hans hæfi, alveg sérstaklega þegar einhver gat hugsað sér að keyra hjólbörurnar við hliðina á honum við sláttinn.


Inn á milli voru smá hlé og hér gaf hann sér tíma til að heimsækja dýragarðinn hennar ömmu. Þarna heldur hann í eyrað á gylltu dádýri. Það er sama dádýr og það sem gerði afa bilt við eitt sinn um nótt áður en baðherbergið var tilbúið. Afi fór þá út að skógarjaðrinum til að bera á tré og var með vasaljós sem hann vingsaði til og varð þá allt í einu var við gyllt dádýr rétt við hliðina á sér. En svo mundi hann í hálfgerðum svefnrofum eftir því að þetta dádýr tilheyrði dýragarðinum hennar ömmu og þá var allt í lagi.


Hannesi þótti mjög gaman að fara í skógarferðir. Einn daginn tók hann mest eftir trjákrónum hátt uppi. Annan dag tók hann mest eftir maurum sem áttu tvær ferðaleiðir yfir slóðina okkar og þá setti hann hendur á hné sér, beygði sig niður, og virti þessi athafnasömu smádýr fyrir sér. Þegar maurarnir tóku að leggja leið sína upp stígvélin hans var tími til kominn að halda áfram. Á myndinni er Hannes að sýna mömmu sinni stíga sem hann rataði orðið um sjálfur.


"Amma, ætlarðu ekki að sleppa mér inn, ég er orðinn svangur eftir slátt og skógarferð." Og amma sleppti honum inn.


Svo fékk hann brauðsneið hjá ömmu sinni og ávaxtasafa að drekka með.


Þá var komið að því að hjálpa afa að mæla parkett.


Svo fór mamma upp á loft til að sækja föt og þá var nú Hannes aldeilis ákveðinn í því að fara þangað líka. Hann var ekki í neinum vafa um það hvernig ætti að fara upp stiga og lagði galvaskur af stað. Hann fékk vernd við þessa stigaferð en fannst kannski sem það væri alveg óþarfi.


Hins vegar þegar hann var kominn upp til mönmmu sinnar og leit við var eins og honum brygði ögn. Seinna þegar komið verður handrið á loftskörina og Hannes verður orðinn stærri er eins víst að hann fari þarna upp til að leika sér. Þá þarf líka afi að vera búinn að hanna stiga sem hægt verður að draga fram og niður af loftinu á lipran hátt. Það verkefni er á framtíðaráætlun.

Nú er Hannes farinn heim með mömmu og pabba og það er hljóðlátara á Sólvöllum. Hann mun örugglega ekki gleyma þessari heimsókn á næstunni og hann mun skilja það næst þegar hann verður spurður hvort hann vilji koma í heimsókn til ömmu og afa.


Kommentarer
Þórlaug

Það er alltaf gaman að fá þessi litlu kríli í heimsókn og að sjá þau uppgötva eitthvað nýtt. Hannes Guðjón hefur líka sannarlega nóg nýtt að sjá og heyra hjá ykkur í sveitinni.



Bestu kveðjur til ykkar,

Þórlaug

2011-05-29 @ 17:37:17
Rosa

Takk fyrir okkur!



Kveðja,



R

2011-06-01 @ 10:23:21


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0