Það er ýmislegt í höfn um þessar mundir

Í gærmorgun fann ég fyrir einhverjum óróleika yfir því að ég yrði ekki búinn með það sem ég þyrfti að klára áður en ég færi til Íslands. Svo hvarf sá morgunóróleiki og mér gekk vel með mitt. Mér finnst sá tími kominn að Sólvellir fái á sig röð og reglu einkennin. Það er ekki hægt að segja að svo hafi verið síðustu ár. En aðeins meira um morgunóróleikann. Forðum tíð var morgunangist förunautur minn, en svo gafst hún upp á mér. Farið hefur fé betra.
 
Já, svo gekk mér vel með mitt sagði ég og það var eins og ég næði svolítið í skottið á mér í gær og ekki síður í dag. Í morgun tók ég til, akkúrat það sem mig hefur langað svo lengi að byrja á. Svo flutti ég til sjö hjólbörur af mold, bara af þráa til að ég gæti með sanni sagt við sjálfan mig að dagana fram að Íslandsferð á laugardaginn kemur verði það bara tiltekt og að koma hlutunum í röð og reglu. Þess vegna hef ég átt afbragðs afmælisdag í dag.
 
Bull er þetta í manninum er kannski hægt að láta sér detta í hug, aleinn, og segist hafa átt góðan afmælisdag. Það fyrsta er nú að afmælisdagurinn minn er ekki svo stórt fyrir mér. Í öðru lagi er áfangalok stórt atriði fyrir mig. Ég segi oft að það að geta gengið fáein skref til baka og litið yfir áfangann og vera ánægður, það er munaður. Svo voru hlutir sem ég þurfti að ganga frá hugarfarslega og það var eins og dagurinn í dag væri réttur dagur til þess. Hvers vegna veit ég ekki en ég hef haft gott næði til þess í dag.
 
Svo hélt ég reyndar upp á daginn. Ég prufaði sultuna/marmelaðið sem ég gerði í gær. Ég hélt fyrst að ég hefði eyðilagt það með of miklu engifer en svo er ekki. Annað hvort neita ég svo sterklega að viðurkenna þetta með engiferið eða þá að bragðið hefur jafnað sig á fyrsta sólarhringnum. Ég trúi á það síðarnefnda.
 
Ég fór líka "út að borða" kvöldmat um klukkan fjögur í dag. Ég borðaði auðvitað hjá manninum sem veit að ég vel gjarnan fisk og kjúkling. Ég þekki hann ekkert utan það að ég hef borðað þó nokkrum sinnum hjá honum á síðustu árum. Samt veit hann þetta. Aldrei slíku vant var hann ekki við kassann núna, hann stóð við eldhúsbekkinn og var að búa til mat. Það var fullt af fólki þarna, sem sagt margir í afmælisveislunni minni. Ég átti samt litlar samræður við gestina í veislunni minni.
 
Maturinn var góður og ég léttur í lund og ánægður með sjálfan mig. Svo fór ég í innkaup, mettur vel, og þá er minni hætta á að ég kaupi einhverja vitleysu. Svo fór ég í IKEA til að leita að smáhlut, smáhlut sem er ekki samkvæmt IKEA staðlinum. En ég fékk svo ótrúlega lipra og vingjarnlega hjálp samtals þriggja kvenna í þessari IKEA verslunarferð minni -og afbrigðilegi hluturinn kostaði 19 krónur. Ég sagði þeim líka að þær væru frábærar. Þær tóku því með þökkum og fallegar voru þær þegar þær brostu. Það er mikið gaman að geta sagt svona og þegar það er augljóslega vel meint, verður það svo fínt fyrir alla sem það snertir.
 
Ég er búinn að fá ósköpin öll af afmæliskveðjum í dag. Ég er ekkert barn lengur, alla vega ekki í árum talið, en ég skal alveg viðurkenna að mér finnst notalegt að fá þessar kveðjur sem flestar hafa komið á feisbók, einnig sem skilaboð og jafnvel sem e-póstur. Til og með hefur verið hringt í mig.
 
Ég er þakklátur fyrir allar þessar kveðjur, takk kærlega fyrir mig.
 
Það er mál fyrir mig að bursta og pissa og koma mér undir ullarfeldinn. Ég ætlaði að hengja hann út á snúru í dag en það var of hvasst til þess. Það blés heila 10 metra á sekúndu skuliði vita. Að svo búnu; takk fyrir daginn og góða nótt.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0