Frá graskeri til vegavinnu

Ég stóð við mitt í dag, ég sáði fyrir graskeri og kúrbít, kúrbít eða zucchini, sem ég hef gjarnan kallað skvass. Það eru sex plöntur í hvorum bakka sem standa þarna í sitt hvorum glugganum. Við þurfum alls ekki allar þessar plöntur því að ef þær kæmust allar álegg og skiluðu ávöxtum, þá mundi ég ekki þurfa svo mikið meira að borða það sem eftir lifir af ári. Það kemur mynd af graskeri neðar. Svo er mikið að finna um þetta á netinu og ég bendi á hlekkinn hérna fyrir neðan, skvass.
 
Á þessum hlekk er margt girnilegt og hollt að finna   Skvass
 
 
Þessi mynd er af kúrbítsblómi, býsna fallegt, en mikið af lífi er á brónublöðunum.
 
 
Sultu og saftgerð síðastliðið haust og á borðinu liggja þrír kúrbítar sem voru svo steiktir með mat þegar sultugerðinni lauk. Valdís steikti kúrbít gjarnan í raspi og þð var hinn allra besti matur.
 
 
Þarna er Pétur að byrja að gera að graskeri á eldhúsbekknum á Sólvöllum í fyrrahaust að viðstöddu áhugasömu og glöðu fólki. Þetta grasker var þó nokkuð stærra en löggiltur fótbolti og úr því komu 7,4 kíló af graskerskjöti.
 
 
Þann sama dag var svo graskerssúpa sem er falleg á diski eins og sjá má. Það er líka hægt að gera hana fallegri með því að strá einhverri kryddjurt yfir diskinn.
 
Það er hægt að aðhafast mikið góða hluti á Sólvöllum og það er mikil dyggð fólgin í því að hlú að því sem landið getur gefið af sér. Bláber má nefna og í skóginum vex mikið af berjum sem hægt er að gera mikinn mat úr. Ég hef hins vegar fram að þessu notað tíma minn í annað en nú er færi á að breyta því. Allur húsakostur og aðstaða er orðin þannig að nú get ég snúið mér að nýjum sviðum í lífinu.
 
 
Heyrðu, ekki mátti ég gleyma eplatrénu sem líka gaf af sér ávexti í fyrra og ég ætla rétt að vona að eplatrén gefi af sér meiri uppskeru á næsta ári. Eplatrén á Sólvöllum eru öll ung.
 
 
*          *          *
 
 
 
Ég hefði viljað hafa tvo daga í viðbót á Bjargi en það verður að bíða. Ég hef sagt að ég verði að snúa mér að gróðri jarðar á fimmtudaginn þegar ég kem heim úr vinnunni sem ég fer í fyrir hádegi á morgun, miðvikudag. En ég komst svo langt í dag að ég gat mátað plássið fyrir bílinn þar inni. Ég á eftir að taka meira til, henda og brytja í eldinn og setja upp fleiri skápa. Það stendur ennþá dót við veggina en það er ágætt pláss fyrir bílinn eigi að síður. Ef til vill geri ég ekki meira þarna fyrr en í haust. Það er dugnaður minn sem kemur til með að ráða því og hversu mikill tími fer í önnur verkefni sem ég vel mér að taka mér fyrir hendur næstu mánuðina.
 
 
Svo var það vegavinnan sem ég talaði um í gær. Honum brást ekki bogalistin heldur núna bílstjóranum þessum. Hann á virðingu mína að fullu.
 
 
Og ekki var vegurinn amalegur að stíga út á að verkinu loknu. Það lá við að ég tímdi ekki að setja spor í hann fyrsta kastið á eftir. Og nú er hann Mikki á Suðurbæ búinn að fara nokkrum sinnum yfir veginn með dreifarann sinn og rykbinda. Þetta er allt til fyrirmyndar.
 
Af ýmsum ástæðum fer ég enn einu sinni seinna að sofa en til stóð. Í kvöld voru fyrir því óvenju gildar ástæður. Það er orðinn tveggja tíma munur á klukkunni milli Svíþjóðar og Íslands. En nú segi ég góða nótt.
 


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0