Eitt ár er liðið

Það er eitt ár frá því að það var hringt snemma morguns hingað á Sólvelli frá Háskólasjúkrahúsinu í Örebro. Það var sagt að það væri ekki allt með felldu varðandi Valdísi sem þá var innskrifuð þar. Nokkrum mínútum síðar lauk Valdís ferðalaginu sínu. Hún var farin heim. Sársaukinn kemur fram við að skrifa þessar línur en þegar ég var að velja myndirnar í þetta blogg, sem ég gerði þegar í fyrradag, þá fannst líka gleði.
 
KiddaVillasysturnar frá Hrísey. Brynhildur, Árný og Valdís.
 
 
30. desember 1961, Valdís og Guðjón búin að vera hjá Séra Árelíusi.
 
 
Á stéttinni heima hjá Rósu og Kidda Villa í Hrísey 1970. Vilhjálmur Kristinn, Guðjón, Valgerður, Valdís og Rósa.
 
 
Í Svärdsjö 1994 þegar Kristinn Jónatansson kom í heimsókn. Hann varð 11 ára hjá Rósu og Pétri í Stokkhólmi og kom svo þaðan einn með lest daginn eftir. Hann vildi komast sem fyrst til ömmu og afa. Þá var amma óörugg en síðan stolt þegar hún sá hann stíga út úr lestinni með ferðatöskuna sína.
 
 
Í nágrenni Falun sumarið 1996. Kristinn Jónatansson, Valdís, Valgerður og Jónatan. Á þessum myndum er Valdís líklega að lifa sín bestu ár.
 
 
Í Örebro 1998. Valdís með Erlu og Guðdísi og lífið virðist leika við hvern sinn fingur.
 
 
Á veitingastað við Hjälmaren 2007 þegar Guðjón varð 65 ára. Valgerður, Rósa, Valdís og Guðjón.
 
 
Valdís að lesa ritningarorð í Sörbykirkjunni í Örebro.
 
 
Þau eru ekki drukkin þarna kórfélagarnir Valdís og Torsten en myndin er tekin á glaðri stund eftir tónleika. Torsten er ættaður frá einu af nyrstu héruðum Svíþjóðar og þau voru góðir vinir. Í erfidrykkjunni eftir útför Valdísar minntist Torsten þess að þau hefðu bæði sungið einsöng við sömu tónleika eða messu, og í tilefni af því söng hann sama lag og hann hafði sungið við það ákveðna tækifæri.
 
 
Í ársbyrjun 2006 höfðum við Valdís verið eins og stórir fatabögglar að vinna við að fella tré í Sólvallaskóginum í miklum snjó og frosthörku. Þessi mynd er svo tekin um vorið þegar búið var að saga þessi tré niður í byggingarefni sem við notuðum svo í fyrstu útbygginguna á Sólvöllum. Við hjálpuðumst að við að ganga vandlega frá þessu byggingarefni, stot yfir að ætla að byggja úr viði úr okkar eigin skógi.
 
 
Áður voru bílar okkar mikið hreinir og glansandi. Þar hefur orðið afturför.
 
 
Þeim virðist ekki líða illa þarna ömmu og Hannesi. Alveg frábær mynd.
 
 
Meiningin var að það yrðu fleiri svona stundir í Sólvallaskóginum.
 
 
Eða svona stundir. Þessi mynd er tekin í eins dags hópferði við austurströndina.
 
 
Í kórstarfinu voru góðar stundir. Þessi mynd er tekin á tónleikum í Krekklingekirkju en Sólvellir eru í Krekklingesókn. Valdís er aftast aðeins vinstra megin. Þetta er ekki kórinn sem hún var félagi í lengst af í Örebro, þetta er "Hafðu það gott kórinn" í Fjugesta.
 
 
Það er festa í svipnum enda hefur þessi kubbur gefið mikinn yl þegar þar að kom.
 
 
Margir saman á blíðviðrisdegi á Sólvöllum sumarið 2012. Jónatan, Hannes Guðjón, Pétur, Valdís, Rósa og Valgerður.
 
Það var ekki auðvelt að velja þessar myndir úr miklum fjölda og nú finnst mér að ég hefði kannski átt að velja hina myndina -já eða hina. En nú er ég búinn að velja þessar og þannig verður það.
 
Sólin skín inn um austurgluggana á þessum morgni eins og alltaf áður á fallegum vormorgnum. Fuglarnir syngja og vinna líflega við sitt, blómtegundirnar birtast hver af annarri, grasið grænkar dag frá degi og skógurinn undirbýr sumarstarfið. Allt gengur eins og ekkert hafi skeð. Samt hefur mikið skeð.
 
Sumarið gengur brátt í garð í allri sinni dýrð og við fjölskyldumeðlimir sem sátum við borðið á þessum fallega sumardegi hér á Sólvöllum, ásamt öllum hinum, gerum okkar besta. Valdís í nýja heimalandinu en við hin hér á jörð. Eftir heimferð Valdísar finnst mér sem ég sé ennþá mikilvægari afi og skyldur mínar ennþá mikilvægari. Svo heldur tíminn áfram að líða móti hinu óþekkta. Það lifir á kerti skógarmegin við húsið og á öðru við stóru myndina af Valdísi. Hugurinn er tregur í augnablikinu en myndirnar tala glöðu máli og þannig er best að það verði áfram. Vormorguninn segir að svo skuli það vera.


Kommentarer
Björkin.

Hér logar ljós við myndir af elskulegri systur minni.Megi guð gefa að henni líði vel á nýja staðnum sínum.Hennar er sárt saknað en númer eitt er að henni líði vel.Stórt krammmm til þín mágur minn og við hugsum til þín .

2014-04-16 @ 16:32:58
Guðjón

Ég sé ekkert sem ætti að valda því að það hefði ekki verið tekið vel á móti henni þar sem hún er núna. Ekki var hún vond manneskja. Og þeir sem fóru á undan henni hafa tekið höndum um hana.

2014-04-16 @ 20:55:15
URL: http://www.gudjon.blogg.se
Þorsteinn

Það er gott þegar ástin manns verður besti vinurinn, en fyrir bragðið verður söknuðuinn meiri. Hafðu það gott kæri vinur og njóttu páskanna og lífins, það hefur þú vissulega alltaf getað, og séð fegurðina í lífinu.

2014-04-17 @ 03:12:24
Guðjón

Steini minn, þakka þér fyrir þessa fínu kveðju. Með bestu kveðju til þín og hennar Helgu þinnar. Hannes er hér með fjölskyldu sinni og þau biðja líka að heilsa.

2014-04-17 @ 21:28:09
URL: http://www.gudjon.blogg.se


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0