Maður verður bara þreyttur :) sagði Björn

Hann Björn Jóhannsson skólabróðir minn frá Skógum sagði í innleggi á feisbókinni í dag að hann yrði bara þreyttur af því að fylgjast með mér, en svo hafði hann broskall á eftir setningunni. En ég væri ekkert hissa þó að einhverjum þætti ég ganga langt í hamagangi. Ég fór út í morgun og gróf í tvo tíma í því sem ég get virkilega kallað urð og grjót. Þá var ég aðeins að hugsa um það að ég hefði væntanlega getað fengið einhvern til að koma með traktorsgröfu til að grafa fyrir mig. Einn maður hefði jafnvel komið og gert þetta fyrir ekki neitt en þá hefði viðkvæm grasrótin á lóðinni skemmst og hlutirnir hefðu alls ekki orðið eins og ég vil hafa þá. Já, og eitt og annað fleira var til fyrirstöðu fannst mér.
 
Ég hef gripið í það undanfarið að þýða mjög stuttan texta á íslensku, texta sem mér þykir afar góður og texti sem er alveg sérstaklega mikið umhugsunarverður. Textinn er örstuttur en ef ég ætla að þýða hann til að birta hann, þá verð ég að vanda mig -og- ég verð að vera viss um að ég skilji hann sjálfur. Ég hef tekið eina og eina setningu úr þessum texta út með mér, út í holuna sem ég hef verið að grafa, og þar hef ég farið í gegnum það hvort ég skilji hann örugglega.
 
Skítugur og með ögn af möl í öðru stígvélinu, eða jafnvel báðum, hef ég komist að niðurstöðu um skilning minn á textanum og ég hef einmitt fundið íslensku orðinn sem ég vil nota til að mála upp meiningu og mikilvægi þessa texta. Svo hef ég farið inn og skrifað hálfa eða heila línu sem ég hef verið orðinn ánægður með og ekki þorað að treysta því að ég mundi muna þessi orð ef ég færi ekki samstundis inn til að skrifa þau niður. Þessi hola sem ég hef verið að glíma við núna hefur verið fín hugleiðsluhola eins og margar aðrar holur hér á Sólvöllum.
 
Þannig getur tíminn liðið í urð og grjóti og mér finnst það ekki slæmt. Hefði hann Mikki á Suðurbæ komið með gömlu heimilisgröfuna sína er eins víst að ég væri ekki búinn að skrifa þau vísu orð sem mér raunverulega finnst ég hafi skrifað.
 
Svo tók ég snögga ákvörðun í morgun. Ég ákvað að fara í ferðalag og taka tvo kalla með mér. Svo hringdi ég til þeirra og þeir vildu koma með. Ég ákvað tíma og þeir samþykktu og svo fór ég út og gróf þangaði til jarðaberjaholan var tilbúin. Síðan skolaði ég af mér óhreinindunum, fór inn til Örebro og tók upp hina kallana og svo ókum við út úr bænum. Við skeggræddum, sögðum frá, spurðum hver annan og áttum almennt mjög góðar samræður á leiðinni suður til Laxå, en þangað fórum við líka fyrir fáeinum vikum en komum þá að lokuðum dyrum.
 
 
Þetta var áfangastaðurinn, verslunin Linne & lump í Laxå, verslun sem selur notuð húsgögn og ýmislegt fleira. Núna var opið og við kallarnir þrír vorum komnir af bæ. Ég fór til að sækja smá hluti sem Rósa var búin að kaupa á þessum stað og voru geymdir þarna fyrir hana. Einnig til að líta á ýmislegt sem ég hafði áhuga fyrir sjálfur. Þegar ég var rétt kominn inn úr dyrunum og búinn að bjóða góðan daginn spurði konan sem stendur þarna við afgreiðsluborðið hvort ég væri að sækja vörurnar fyrir dótturina. Jú, svo var það og þau byrjuðu að pakka niður. Sumir eru miklir mannþekkjarar.
 
 
Guðjón Björnsson, Tryggvi Þór Aðalsteinsson og Hans Hellsson. Á meðan skoðuðum við kallarnir, eins og mér fellur vel að segja, mjög margt vel boðlegt þarna inni. Húsgögnin eru mjög mikið frá því um 1960 eða svo, mikið af tekki og mikið sem minnti mig á húsgagangerðina þegar ég vann í Trésmiðjunni Meið um og upp úr 1960. Svo auðvitað notuðum við tækifærið og hvíldum okkur og konan sem stóð við afgreiðsluborðið á efri myndinni var alveg til í að taka af okkur mynd.
 
 
Ég var mjög hrifinn af þessum skáp og mig vantar einn slíkan. Ég keypti mér matrborð þarna um daginn og skápurinn er alveg í stíl við matrborðið. Hann mundi líka losa mig við bækur af stað þar sem þær eiga alls ekki heima. Ég fór þarna til að sækja vörurnar fyrir Rósu og líka til að leita að svona skáp. Ég fór ekki til að athuga hvort það væri ekki eitthvað á boðstólum sem ég gæti keypt, ég fór til að leita að ákveðnum hlut. Ég verð nú að ákveða mig fljótt því að þessi skápur verður ekki á boðstólum hversu lengi sem helst.
 
 
Þegar við vorum búnir að fá nóg af verunni í Linne & lump fórum við til Hollendingsins í bakaríinu þar sem við komum líka við í síðustu Laxåferð. Við fengum okkur kaffi og vel með því. Hollendingurinn þekkti okkur aftur og tók vel á móti okkur. Hann tók líka mynd af okkur og mér finnst nú bara að við séum hinir reffilegustu kallar. Þarna erum við með gott kaffi, rækjusneiðar og annað góðgæti.
 
 
Og sjáum nú til, þetta er nefnilega Hollendingurinn. Það var ekkert vandamál að fá að taka af honum mynd. Ég spurði hann hvað hefði dregið hann til Svíþjóðar og það var einföld skýring á því. Hann var búinn að koma fimmtíu sinnum til Svíþjóðar og þá fannst honum tími til kominn að flytja þangað. Núna er hann að læra sænsku í skóla. Þetta minnti mig á mín fyrstu misseri þi þessu landi.
 
Nú er það komið fram svo óyggjandi sé að ég geri fleira en að grafa í urð og grjóti. Ég er búinn að fara í ferðalag í dag. Þegar ég kom heim fór ég umsvifalaust í drullugallann og dreif mig út. Nú er ég búinn að flytja allt grjót frá síðustu holunni minni og er búinn að fylla hana aftur að einum þriðja. Já, það getur enginn sagt að lífið hjá mér sé einhæft -eða hvað?
 
*          *          *
 
 
Þessi mynd er tekin í gær, 10. apríl, og er tekin þegar fyrstu sænsku jarðarberin voru seld á þessu vori. Það var í Stokkhólmi og það voru skólabörn sem fengu að njóta góðgætisins.
 
 
 
Þegar jarðarberjaílátin á Sólvöllum fara að líta svona út, þá mun ég ekki velta mér upp úr því að ég hafi orðið skítugur undir nöglunum við að grafa í urð og grjóti.


Kommentarer
Auja

Það er svo upplífgandi að lesa bloggin þín kæri vinur, maður hressist allur við eftir svo mjög stressaðan dag í vinnunni en ég var alveg að finna mig þar í dag áskorun!

2014-04-11 @ 23:07:49
Guðjón

Það er gott Auður mín ef bloggið gerir fleirum gagn en mér. Þetta með vinnuna; það sem er að ske hjá þér núna eru hrein langstökk í "personlig utveckling". Mikið að ske á öllum sviðum lífs þíns. Ég segi oft við sjúklingana mína að ég sé alls ekki fullorðinn ennþá en að ég stefni ótrauður að markinu og það sé mitt mikilvægasta ævistarf. Þannig er nú það. Gangi þér vel vinkona.

2014-04-11 @ 23:39:03
URL: http://www.gudjon.blogg.se
Anonym

Góður dagur sem þú og félagar þínir hafa átt saman. Mjög gaman að lesa um ferð ykkar. Verð nú að viðurkenna að það kveiknaði vel og rækilega í sál Áslaugar. Eitt það skemmtilegasta sem hún gerir er að fara á svona markaði.Sá í skápnum þínum (kannski) ísbjörn á skál sem kallaði á mig alveg hástöfum. Njóttu.

2014-04-12 @ 03:03:33
Áslaug Hildur Harðardóttir

ps. Gleymdi að setja nafnið mitt inn. :)

2014-04-12 @ 03:04:59
Guðjón

Já Áslaug, ég sé á því sem þú skrifar að þú mundir hafa gaman af að koma í þessa verslun. Og ekki var rykið á hlutunum hjá þeim. Alveg ótrúlega fínt. Hveðja

2014-04-12 @ 09:18:20
URL: http://www.gudjon.blogg.se
Kristín Aðalsteinsdóttir

Bara alveg dásamlegt að lesa um virkni þína og ferðir. Gaman að þið Tryggvi finnið stundir til að hittast.
Þú verður að kaupa þennan skáp.

En hvar eru setningarnar sem þú varst að færa yfir á íslensku, ylhýra málið? Finn þær ekki.

Svar: Það er fínt að vera einn af nokkrum köllum (þó að ég geti ekki skilið að ég sé kall :) ) og það er gott að bregða svona út af vananum. Ég sem sagt sá skrifin þín og þú munt nú sjá þau rétt bráðum. Skápurinn er þegar minn. Með kveðju til ykkar hjóna frá Guðjóni
Gudjon

2014-04-12 @ 14:45:56
Guðjón

Það er fínt að vera einn af nokkrum köllum (þó að ég geti ekki skilið að ég sé kall :) ) og það er gott að bregða svona út af vananum. Ég sem sagt sá skrifin þín og þú munt nú sjá þau rétt bráðum. Skápurinn er þegar minn. Með kveðju til ykkar hjóna frá Guðjóni

2014-04-12 @ 15:07:28
URL: http://www.gudjon.blogg.se


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0