Trygglyndi

 
Þær eru trygglyndar gömlu vinkonurnar hennar Valdísar. Ég sendi einni þeirra skilaboð á feisbókinni um daginn og spurði hvort þær vildu ekki fara að kíkja hingað á Sólvelli og það stóð ekki á því. Þær voru hér svo örfáum dögum seinna. Ein þeirra gat ekki komið og þá hljóp önnur í skarðið, sú sem er í miðjunni vinstra megin. Svo höfðu þær einkabílstjóra, hann Robban sem er maður Ghita, en þau sitja hægra megin við borðið. Vinstra megin eru þær Kaarina, Margareta og Inger.
 
Ég bar ekki hnallþórurnar fyrir fólkið, en pönnukur ásamt sultu og rjóma voru í anda Valdísar. Rúgbrauðið einnig sem er þarna í hvarfi framan við Robban ásamt faglega steiktu nautakjöti, svo ég tali ekki um prestostinn sem er afbragðs góður. Þetta með nautakjötið leysti ég þannig að ég fór inn á Google og fann þar uppskrift frá kaupfélaginu. Best var það þegar það kom heitt út úr ofninum seint í gærkvöldi og var svo búið að liggja í álfólí í hálftíma. Svo stalst ég til að smakka. Namm namm hvað það var gott, mikið betra en í dag. Þetta með álfólí, það var ekki í kaupðfélagsuppskriftinni, það lærði ég hjá honum Þóri.
 
 
Eftir skoðun á síðustu athöfnum mínum hér á Sólvöllum hélt fólkið heim á leið. Það var jú margt sem ég var búinn að koma í verk síðan konurnar komu síðast. Það hefur margt átt sér stað á vegferð þeirra. Tvær þeirra voru sendar frá stríðshrjáðu Finnlandi á sínum tíma í öryggið í Svíþjóð og þær eru hér enn í dag. Þær ganga ekki heilar til skógar en við Robban getum virkilega þakkað fyrir það sem við höfum.
 
*          *          *
 
 
Ég tók forskot á sæluna og fékk  lánaða mynd sem tilheyrir júlí á almanakinu frá Rósu og Pétri. Þar eru þau að leika sér frændsystkinin Hannes Guðjón og Erla Jónatansdóttir í Vestmannaeyjum. Þessi blómarós átti afmæli þann 7. apríl, varð þá 17 ára. Ég veit ekki við hvaða tækifæri þessi mynd var tekin en kannski kemur það fram þegar ég birti þetta blogg.
 
 
Ég veit hins vegar að þessi mynd var tekin af henni þegar hún var fermd. Eitthvað fyrsta árið sem við Valdís áttum heima í Örebro dvaldi Valgerður hjá okkur með þær systur, Erlu og Guðdísi. Þær voru búnar að ærslast kringum mig einhvern dagpart og svo var tekin mynd þar sem ég sat með þær á sitt hvoru hné. Á þeirri mynd er ég ekki í jafn góðu formi og á þessari mynd. Ég virðist hafa verið orðinn afar þreyttur þá, því að það er eins og andlitið á mér sé sigið all langt niður eftir höfðinu. Ég vona að þær systur fari að koma í heimsókn á Sólvelli og ég veit að þær munu ekki framar þreyta afa sinn á sama hátt og þær gerðu þá. Það er langt síðan ég fór að öfunda börn fyrir þá nánast óþrjótandi orku sem þau hafa. Ég mundi koma mörgu í verk á stuttum tíma ef ég byggi yfir öðrum eins krafti.
 
*          *          *
 
 
Mamma kom í heimsókn til okkar 1994 og lenti þá í eihverjum mestu sumarhitum sem komið hafa í þessu landi. Við fórum oft út að keyra og skoða okkur um. Eitt sinn vorum við í hálfgerðum óbyggðum ofan við Svärdsjö í Dölunum þar sem við Valdís áttum þá heima. Við ókum gegnum vel hirtan skóg þar sem beinir og snyrtilegir stofnar uxu upp úr stórgrýttu landi, hreinlega upp úr urð, skógur sem var orðinn æði gamall. Landið var eins og ég sagði stórgrýtt og virtist algerlega snautt af jarðvegi. Þá sagði mamma alvarleg á svip; það er alveg merkilegt að svo fallegur skógur geti vaxið á svo grýttu og hrjóstrugu landi. Ég verð að segja að ég var sammála og þetta vekur oft undrun mína enn í dag.
 
En það land var mikið stórgrýttara en landið sem ég er að grafa í þarna, finnst mér nóg um samt. Ég frétti í gær eða fyrradag að rifsrunnarnir mínir mundu ekki gefa af sér ber fyrr en eftir tvö eða þrjú ár. Til að bæta það upp keypti ég tólf jarðarberjaplöntur, en þær nefnilega eru með berjum þegar á fyrsta ári. En þá fékk ég að sjálfsögðu meiri vinnu sem skurðgröfuleikari. Holan er ekki langt komin á myndinni sem er frá í gær, en samt er ég þegar búinn að fara með einar hjólbörur af grjóti, umfram það sem liggur þarna við holuna, í ákveðna uppfyllingu bakvið Bjarg. En nú er ég langt kominn með þessa holu og það verður gaman að gróðursetja jarðarberjaplönturnar á morgun. Ég mun ekki sakna grjótvinnunnar þegar þetta verður búið. Annars er þessi gröftur bara hressandi fyrir mig.
 
 


Kommentarer
Björkin

Mikið fallegar myndir mágur minn.K
rammmmmmmmmm

2014-04-11 @ 00:03:54
Rósa

Það verður mikið gott að skreppa út í beðið og fá sér jarðaber í sumar. Nammi namm!

Kveðja,

R

2014-04-11 @ 09:07:58


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0