Best að standa við það sem ég segi

Það er sunnudagur. Í gærkvöld bloggaði ég en var ekki ánægður með það. Svo var ég að fara lauslega yfir áður en ég birti það -og viti menn, allt í einu hvarf hver einasti bókstafur af skjánum en eftir stóðu myndirnar. Það hefur líklega verið best að svo fór, að einhver tæki í taumana og henti vitleysunni. Svo var ekkert meira með það en ég get líka sagt frá því að oft hleypur í mig þrái og þegar ég finn að ég er ekki í bloggstemmingu, þá er ég viss með að láta alls ekki undan. Ég læt mig þá hafa það, skrifa samt og birti svo steypuna.
 
En að ég bloggaði yfir höfuð í gær kom til af því að ég fékk enn eina staðfestinguna á því að ég hef svo mikið að gera með það sjálfur hvernig mér vegnar. Ég kom heim eftir hádegi í gær eftir vinnu í meira en sólarhring. Á leiðinni heim fann ég hvernig þreytan lagðist yfir mig af miklum þunga. Þessi sólahringur hafði líka verið venju fremur erfiður meðal mjög veiks fólks. Þegar heim kom byrjaði ég á því að setjast í mjúkan stól og halla mér aftur á bak og þá fannst mér sem ég væri gersamlega búinn, ég gæti ekki gert neitt meira í dag. En þá tók ég ákvörðun.
 
Ég hrærði hálfa uppskrift af pönnukökum og bakaði svo þrjár pönnukökur. Ég lét nægja að horfa á þær og njóta ilmsins af þeim. Síðan fór ég í drullugallann. Ég var búinn að segja í bloggi á föstudaginn var að ég mundi grafa eina holu fyrir berjarunnum eftir að ég kæmi heim úr vinnunni á laugardag. Svo sagði ég sjúklingunum í Vornesi að ég ætlaði að grafa tvær. Spurning hvort það voru mannalæti.
 
Ég var alls ekkert mikið fyrir mann að sjá er ég viss um þegar ég dróst út úr dyrunum, aðfram kominn maðurinn eins og mér fannst. Svo byrjaði ég að grafa. Ég fann ferskt útiloftið flæða ofan í lungun og með haka og járnkall í höndunum milli þess sem ég mokaði komst púlsinn á ferð. Verkinu miðaði. Ég mundi eftir því hversu vel pönnukökurnar ilmuðu örstuttu áður og ég ætlaði að grafa eina holu og fá mér svo mat með volgar pönnukökur í eftirrétt. Síðan ætlaði ég að hafa það huggulegt.
 
Lífið varð svo gott, veðrið gat ekki verið betra, verkinu miðað vel og ég sá fyrir mér rifsberjarunna með bæði rauðum og svörtum berjum. Ég sá fyrir mér potta á eldavél og sultugerð í gangi, krukkur fyllast, ristaða brauðsneið með osti og nýrri sultu og glænýtt kaffi með. Mikið er stundum gott að vera til. Ég fann fyrir svita undir höndunum, hakinn varð bara léttari og skóflan lét betur í hendi. Svo fór ég niður í holuna því að hún var orðin svo djúp.
 
Guðjón, af hverju ertu alltaf að byggja var þá sagt þétt við hlið mér. Það var barnsrödd. Siw, fimm ára nágrannastúlka, var komin í heimsókn. Bíddu aðeins, sagði hún. Svo hljóp hún heim og kom strax til baka með rekuna sína. Svo mokuðum við bæði. Aftur bað hún mig að bíða og hljóp heim á ný. Nú kom hún með hjólbörurnar sínar og svo mokuðum við líka í hennar hjólbörur. Svo fórum við bæði með hjólbörur út í skóg til að setja mölina sem upp kom í slóðina þar sem hún er ójöfnust. Þegar við komum til baka úr skóginum tók Siw rekuna sína og setti í hjólbörurnar. Svo sagði hún bless og hélt heim á leið. Ég þakkaði henni fyrir hjálpina.
 
Ég var liðugri í hreyfingum en ég hafði verið lengi, verkfærin léku ótrúlega vel í hendi og það var svo gaman að grafa. Svo var holan allt í einu búin. Eitt tonn af möl og grjóti var nú komið á sína staði þar sem það kom að gagni og hola var fullgrafin fyrir rifsberjarunna. Ég fór inn, bakaði nokkrar pönnukökur, fékk mér að borða og hafði svo pönnukökur í eftirrétt. Eftir það var aðeins eitt sem kom til greina og það var að grafa aðra holu eins og ég hafði sagt sjúklingunum í Vornesi. Ég segi þeim aftur, aftur og aftur að það meigi ekki skrökva. Þá má ég ekki gera það heldur.
 
Það er komið sunnudagskvöld og öllum holugreftri sem átti að ljúka annað kvöld er nú þegar lokið og gott betur. Á morgun fer ég til hans Ingemars í Skrúðgarðagróðri og kaupi sex rifsberjarunna af ólíkum tegundum. Rauð rifsber, svört rifsber og þyrniber sem líka eru af rifsberjaættinni. Ég þarf líka að kaupa tvo hindberjarunna, tvo bláberjarunna og berjalyng sem ég man ekki hvað heitir.  Og ég þarf að kaupa hænsnaskít, alparósarmold og plöntunarmold, að öðru leyti á ég hálft bílhlass af góðri mold frá því í fyrra.
 
Ef ég hefði trúað því í gær að ég væri svona þreyttur eins og ég hélt að ég væri, þá ætti ég svo mikið eftir að gera núna að ég gæti þess vegna misst móðinn og tekið ákvörðun um að gróðursetja ekki fyrr en eftir Íslandsferðina. Þá hefði uppskera ársins væntanlega ekki orðið svo mikil og ég hefði orðið fúll yfir að hafa farið of oft í vinnuna. En þess í stað sit ég hér glaður og blogga og hlakka svo sannarlega til að gera innkaupin á morgun. Og þar sem ég þarf ekki að grafa neina holu á morgun ætla ég til hans Tony rakara og láta hann gera mig fínan um höfuðið. Það verður enginn ljótur kall sem Örebrúararnir fá að berja augum eftir að ég hef verið hjá honum á morgun.
 
Ég gerði gott val í gær og svo átti ég líka eftir tvær pönnukökur áðan til að hafa í eftirrétt eftir kvöldmatinn.
 
 
Svona líta ærlegar holur út á Sólvöllum. Einn meter í þvermál og hálfs meters djúpar. Það þýðir um eitt tonn af jarðvegi sem kemur upp úr holunni. Hún Elísabet nágranni minn norðan við kom til mín í dag til að athuga hvað ég væri eiginlega að gera. Þegar hún kom að fyrstu holunni hálf hrópaði hún "oj". Ég sagðist vilja gera þetta almennilega þar sem ég ætlaði ekki að grafa þessar holur nema einu sinni. Svo fórum við inn á Bjarg til að skoða og hún fór svo ánægð heim. Hún hefur nefnilega lengi haft áhuga fyrir að sjá hvað ég hef verið að gera á Bjargi.
 
 
Hún Stína nágranni sunnan við, mamma hennar Siw, spurði mig einu sinni hvort ég vissi af hverju væri mest í Krekklingesókn. Nei, ég vissi ekki. Það eru steinar sagði hún. Ég segi stundum að ef ég styðji mig við stunguspaðann, þá hrökkvi undan honum steinn. Kannski aðeins ýkt skal ég viðurkenna. En þó að það sé afar grýtt hér, þá er jörðin gjöful.
 
 
Hindberin vilja gjarnan svolítið súran jarðveg og þess vegna er þeirra hola í skógarjaðrinum. Hér er ég búinn að hálf fylla holuna aftur af gjöfulli mold. Björkin upp í vinstra horninu á að víkja fyrir matjurta og berjarækt. Hægra megin sér í viðarskýli sem Jónatsan tengdasonur smíðaði fyrir tæplega tveimur árum. Það hefur nú þjónað tilgangi sínum þarna og verður fært innan tíðar.
 
 
Já, hvers vegna ætli ég hafi grafið við bláberjabekkinn í dag. Jú, þar eiga að koma amerískir bláberjarunnar í viðbót við alla hina bláberjarunnana. Grannir bláberjarunnarnir sjást vart á þessari mynd, en bíðið bara við þangaði til þið fáið að sjá myndirnar af þeim laufguðum og með hnígandi greinar, hlaðnar stórum, stórum bláberjum. Mikið verða þau góð í íslenska skyrinu sem Svíarnir selja mér í kaupfélaginu sínu.
 
 
Þessi mynd er frá því í hitteðfyrra þegar Hannes var að tína ber af einmitt amerískum bláberjarunna.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0