Að gera Sólvelli að yndislegum stað þar sem ljúft verður að vera

Ég sagði í gær að ég hlakkaði til að fara til hans Ingemars i Skrúðgarðagróðri til að kaupa nokkrar sortir af berjarunnum. Þegar ég vaknaði í morgun bar ég ennþá þessa tilhlökkun í brjósti mér. Ég snaraði mér á fætur þegar ég hafði lokið nokkurn veginn hefðbundnum morgunsiðum mínum, las innkaupalistann, drakk slatta af vatni og heitt vatn með hænsnateningi í, og þar með gat ég barið mér á brjóst og haldið af stað. Ég fékk að geyma kerruna á bílastæðinu hjá Skrúðgarðagróðri meðan ég fór niður í Tybble til hans Tony sem klipti mig aldeilis afbragðs vel. Ég finn það svo vel að það eykur sjálfstraust mitt að Tony klippir alltaf runnagróðurinn sem leitar út úr eyrunum og löngu sveru hárin sem taka yfirhöndina á augabrúnunum. Ég hef enga trú á að það sé hægt að rækta ber á þessum óvelkomnu hárum og því best að vera af með þau.
 
Kogödsel stendur þarna á einum pokanum. Það þýðir kúaáburður sem fyrir mér er kúaskítur. Ég gæti líka fengið að taka skít hjá einhverjum bónda, hefur verið boðið upp á það, en ég skal bara viðurkenna að ég vel lúxusinn framyfir ferð í fjós eða hesthús. Mér finnst að einn sem er 72 ára geti alveg leyft sér slíkt.
 
 
Nei, sá er orðinn myndarlegur sagði Ingemar þegar ég kom til baka frá rakaranum. Það var lítið annað að gera en að taka ofan hattinn við svona hrós og segja takk takk. Síðan fór ég með hjólbörur út að berjarunnunum og ætlaði að sýna að ég færi létt með að velja nokkra slíka potta. En það fór á annan veg. Ég horfði bara alveg ruglaður á úrvalið og gafst upp á nokkrum sekúndum. Pernilla sá þetta og kom og hjálpaði mér af mikilli lipurð og fræddi mig mikið um leið. Ég er ekki óþekktur þarna, hef verið viðskiptavinur í Skrúðgarðagróðri síðan 1999, og þó að ég sé enginn gildur kaupandi finn ég oft að ég fæ að njóta þess að sýna Skrúðgarðagróðri tryggð. Pernilla virtist leggja sig í lima við að velja góða einstaklinga handa mér og ég reyndi í staðinn að vera sem skemmtilegastur. Svo voru komnir tólf runnar af sex tegundum á hjólbörurnar.
 
Þar með hélt ég inn að kassanum þar sem Ingemar tók á móti mér. Við bættum nú við ýmis konar moldargóðgæti og svo var allt slegið inn í kassann. Hann leit á mig eins og pínulítið hikandi og sagði; áttarðu þig á að þetta kostar 1750 krónur. Já, ég sagðist gera það, og að ég hefði verið alveg viðbúinn að þetta yrðu allt að 2000 krónur. Svo borgaði ég og allir voru ánægðir.
 
 
Pokinn sem það stendur 15 á inniheldur það sem kallað er Hönsgödsel eða hænsnaáburður, sem fyrir mér er hænsnaskítur. Hann er að vísu kornaður eins og smágerður fóðurbætir og er auðvitað ósköp þrifalegur og meðfærilegur. Runninn næst okkur er amerískt bláber og sá næsti með laufinu er bróðir þyrnirunnans. Bróðirinn hefur enga þyrna en svo keypti ég líka plöntu með þyrnum og þá meina ég svo sannarlega með þyrnum. Ég gróðursetti þá bræðurna svolítið afsíðis þar sem það er lítið hætta á að fólk rífi sig á þyrnunum. Þessir tveir runnar sem á sænsku heita krusber tilheyra rifsættinni eins og mikið annað sem ég keypti í dag.
 
 
Jæja, lítið mál er orðið að löngum texta. Útgjöldin voru 1750 krónur, eða kannski álíka mikið og þriðjungur af því að fara niður til Grikklands og vera þar í viku. En ég er mjög ánægður með þetta val. Ég fékk líka símtal í dag og ég verð að segja að vera mín úti undir heiðum himni hér á Sólvöllum meðal athafnasamra fugla, með óhreinindi undir nöglum og skrikandi lítillega í leirnum, var afskaplega mikið heilnæmara en það sem sumir velja að aðhafast. Ekki er það ókeypis heldur. Um stund var ég bara sorgmæddur. Eftir dágóða stund tókst mér að leggja það til hliðar og naut þess að koma innkaupum dagsins á sinn stað til frambúðar, kannski til áratuga.
 
Ég komst að því að jarðvegurinn sem fór í holurnar í dag vegur álíka mikið og það sem ég hef verið að grafa upp undanfarið. Að vísu gat ég látið það falla niður í stað þess að moka því upp, en ég er líka búinn að ganga frá því á einum degi sem ég gróf upp á þremur dagpörtum.
 
Á morgun fer ég í Vornes. Þangað er boðið fyrrverandi starfsfólki og þó að ég sé enn í vinnu er mér boðið sem svo gömlum starfsmanni. Ég mun hitta fólk sem ég hef aldrei hitt áður, það er fólk sem vann þar á nundan mér meðan Vornes samsvaraði stað sem var kannski eins og Gunnarsholt var forðum.
 
Þetta er búinn að vera góður og nytsamur dagur og ég er ánægður með hafa valið að fara í þetta vorverk sem brátt er á enda. Svo taka við önnur vorverk en einn góðan veðurdag mun ég sitja á veröndinni, horfa yfir Sólvallasvæðið og njóta þess að hafa gert hvert valið á fætur öðru sem hefur fært mig nær því marki að gera Sólvelli að einum yndislegum stað þar sem ljúft verður að vera sem og hingað til.
 
Nú verða svolítil verðlaun, granatepli í skyri.


Kommentarer
Björkin

Mikill er nú krafturinn í þér kæri mágur.Held að hann aukist bara svei mér þá.En farðu nú bara varlega með þig.Kær kveðja úr Garðabæ.PS.Löbbuðum um fallegt Gálgahraun í dag,og þvílík fegurð.Krammmmmmmmmm.

2014-04-07 @ 23:01:12
Guðjón

Kveðja til baka í Garðabæ.

2014-04-07 @ 23:24:31
URL: http://www.gudjon.blogg.se


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0