2. apríl 2013

Það var 2. apríl 2013 sem Valdís kom heim til sín í síðasta skipti. Það hvarflaði yfir höfuð ekki að mér að nota þessa mynd eða minnast þess neitt sérstaklega í dag, ekki fyrr en þessi mynd birtist á skjánum hjá mér hvað eftir annað núna á síðustu dögum. Ég var ekki að leita að henni, hún bara birtist. Það var eins og það væru skilaboð.
 
Ég veit hvað hún horfði á þegar þessi mynd var tekin, það var Hannes Guðjón sem stóð í dyrunum heima, líklega frekar óöruggur vegna þess hvernig hlutirnir komu honum fyrir sjónir þá. Einum eða tveimur dögum fyrr hafði amma hans gefið honum leikfangaorgel að gjöf, orgel sem gefur tóna þó að það sé leikfang.
 
Það var margt í bígerð á Sólvölum þessa daga fyrir ári síðan. Það átti að gera það sem mögulegt var til að gera Valdísi sumarið léttara og bærilegt að upplifa. Engum duldist að þetta sumar yrði hugsanlega það síðasta fyrir hana. Tveimur vikum seinna gátum við lagt allar áætlanir á hilluna, þá hafði sá sem öllu ræður þegar gert henni lífið léttara.
 
Næstu daga eftir þessa heimkomu skeði svo margt sem var í síðasta skipti. Aprílmánuður á þessu ári hefur þegar byrjað með því að minna á sig á þann hátt að minningarnar um þessi síðustu skipti falla í slóð mína alveg án fyrirvara. Í morgun var ég á leið í vinnuna, á einum þessara fallegu vordaga þegar sólin bara leikur við lífið. Ég fann vel að lífið hafði ekki bara verið fullkomið gegnum áratugina, en að það voru bara bjartar stundir sem minntu á sig á þessum fallega vordegi. Ljúfir dagar, væntingar, uppfylltar væntingar, blóm, falleg kvöld, líflegar stundir og góð og hlý samvera. Börn sem komu í heiminn.
 
Svo hélt ferð mín áfram í vinnuna og sólin hélt áfram að senda geisla sína niður til mín og minna mig á að hún ber með sér minningarnar um góðu stundirnar. Klökkvinn var nálægur en miskunnsamur og það sem hrærðist í huga mér var að það væri svo mikilvægt að vera með, bara halda áfram að vera með og þroskast af lífinu eftir bestu getu. Heima logar ljós hjá rósunum hennar Valdísar og ég læt það halda áfram að loga frameftir mánuðinum.
 
 
 
 
Þessi mynd sýnir betri daga eins og kannski hálfu ári fyrir aprílmánuðinn þegar ferðalaginu luk. Hannes var mikill lífgjafi. Þegar amma var að koma heim frá geislameðferðarferðunum lagði hún sig oft í sófa í stofunni. Þá kom Hannes með lækningatöskuna sína og reyndi að hjálpa ömmu sinni. Það gerði hann vissulega, hann gerði stundirnar bjartari en það er svo oft sem ekki gengur að lækna og svo var það á Sólvöllum á sínum tíma, en sumum er meira lagið en öðrum að gera studnirnar bjartari
 
Hannes grípur ennþá orgelið frá ömmu og gefur nokkra tóna. Svo leggur hann það frá sér og heldur áfram að lifa sínu lífi í leikum sem hann sér sem sitt starf. Hann gerði sannarlega sitt besta til að hjálpa ömmu.


Kommentarer
Björkin

Mikill gleðigjafi hann Hannes Guðjón.Margar sögur fékk ég að heyra af honum í gegnum fésið og símann.Gangi þér allt vel mágur minn.Krammmmmmmmm

2014-04-02 @ 23:12:20


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0