Hann Kjell var vinnufélagi minn og vinur og hann var líka afi ungs manns

Um það bil einum og hálfum tíma seinna en til stóð í morgun var ég úti í bílageymslunni og skipti um buxur. Á leiðinni þangað út sá ég fyrstu sóleyjar vorsins hér á Sólvöllum, en krókusarnir hafa verið til gleði í vikur og eins bellisarnir sem virðast vagga höfðinu eftir gangi sólar. Skógarsóleyjarnar eru byrjaðar að leggja sína hvítu slæðu yfir skógarbotninn.
 
Ég fór úr þokkalegum buxum og í drulluganllann. Ég fór líka í hálf molduga sokka sem ég skildi þar eftir í gærkvöldi. Ég var áður farinn að geyma óhrein stígvélin þarna úti en núna var það í fyrsta skipti sem ég geymdi öll óhreinu fötin þar.
 
Í gærkvöldi fór ég á nærbuxunum inn og berfættur var ég í skónum. Þegar ég var að draga óhreinu fötin á mig í þessu nýja húsi í morgun hugsaði ég að þarna hefði ég náð langþráðum áfanga, að fara ekki með óhreinu fötin inn í þvottahús, fara úr þeim þar og leggja út í horn. Mottan á gólfinu þar ber þessa virkilega merki. Að hugsa út í þennan áfanga var svo gaman. Svo þegar annar fóturinn kom niður í stígvélið þar sem ég stóð óstöðugur á hinum fætinum fann ég að það var mold í stígvélinu. Jú, haltra aðeins lengur, losa stígvélið og fara í það aftur.
 
Að ég fór svo seint út byggðist á því að mér varð hugsað til móður tuttugu og átta ára manns sem lét lífið fyrir nokkrum dögum. Ég hafði ekki lengur netfangið hennar, hún var komin með nýja fb síðu sem ég fann ekki og símanúmerinu hennar tapaði ég þegar ég tók farsímann hennar Valdísar í notkun um daginn. Svo sendi ég skilaboð á fb til manns sem núna er staddur eina átta hundruð kílómetra norður í landi og spurði hann. Einhverri mínútu síðar var ég búinn að fá leiðbeiningar til baka. Tæknin hjálpar snarlega þó að það séu fjarlægðir.
 
Hann Kjell vinnufélagi minn og vinur, og afi þessa tuttugu og átta ára manns, var svo stoltur af honum dóttursyni sínum og hann lýsti eins og sólin þegar hann sagði frá veiðiferðum þeirra meðfram Umeåánni. Augun urðu dreymandi þegar hann talaði um þetta. Svo varð Kjell mikið veikur og var lengi veikur. Svo dó hann og nú eru liðin fáein ár síðan. Kjell var þó nokkrum árum yngri en ég. Ég hitti dótturson hans á stað sem ég má ekki segja frá. Ég sá í honum það sem afi hans hafði sagt mér frá; kurteisi, góðmennsku og almennt fróðan ungan mann. Hann var samvinnuþýður og vildi vel en fáeinum dögum eftir að ég hitti hann fór hann á eftir afa til heimalandsins. Kannski sitja þeir á árbakka einmitt núna og tala um að þeim hafi alltaf þótt svo vænt hvor um annan.
 
Svo skrifaði ég mömmunni nokkrar línur. Meðan faðir hennar glímdi við veikindi sín hafði hún oft samband við mig. Ég veit að Kjell talaði vel um mig við dætur sínar. Ég sagði henni í línunum áðan frá þeim fáu stundum sem við sonur hennar áttum saman fyrir fáeinum vikum og ég sagði henni frá þeim fínu eiginleigkum sem ég hafði orðið var við hjá hinum tuttugu og átta ára gamla manni. Að skrifa svona skilaboð getur fengið sjötíu og tveggja ára mann að gráta.
 
Þannig er lífið og verður ekki umflúið. Ég skrapp inn um hádegisbil til að skrifa þessar línur sem brutust um í huga mér og létu mig ekki í friði. Nú fer ég út aftur til að hræra í mold og hænsnaskít og finna suðvestan blæinn leika um mig. Ég get ekkert annað en gert það besta við mitt líf og ég tel mig skyldugan til þess. Ég veit að ég kem til með að hitta fleira ungt fólk sem á við það sama vandamál að stríða og dóttursonur hans Kjells vinar míns. Þá vil ég eiga kraftinn og góðu lífssýnina sem til þarf ef ég á að gera gagn meðal þessa fólks sem er sjálft búið að missa lífslogann og getur ekki staðið beint í baki og tekist á við sjálft lífið.
 
Svo heldur mitt líf áfram, ég fer nú út og sleppi þessum hugleiðingum til skógar með suðvestan golunni.
 
*          *          *
 
Ég hélt áfram með jarðaberjabeðið í dag og útbjó ramma utan um það eins og hún Pernilla í Skrúðgarðagróðri hafði ráðlagt mér. Ég rak niður sex hæla eftir að ég hafði fyllt gryfjuna af góðum jarðvegi og slatta af hænsnaskít. Síðan var ég byrjaður að skrúfa hliðarnar á hælana þegar mér varð allt í einu á að hugsa hvort það væri virkilega allt í lagi að nota fúavarið efni svo nálægt matvælaframleiðslu. Maður í byggingarvöruverslun sagði mér í fyrra að þetta fúavarða efni væri orðið allt öðruvísi meðhöndlað en áður og með mikið saklausari efnum. En ég varð allt í einu mjög efins. Ég lagði frá mér verkfærin og gekk inn.
 
Google varð fyrir valinu og ég skrifaði þar "tryckimpregnerad virke". Fyrirsagnirnar sem birtust á skjánum voru nægar einar sér til að taka frá mér allan mátt. Ég sem hef verið svo hress og vinnuglaður að það hefur valdið sjálfum mér nokkurri furðu, ég varð allt í einu gersamlega úrvinda af þreytu og öll vinnugleði bara gufaði upp, langt langt út í himingeiminn. Já, mér féllust hendur all lengi. Lýsingarnar á þessu voru næstum eins skelfilegar og lýsingarnar á refaeitri fyrir 60 árum. Það var ekki um annað að gera en að rífa upp hælana og fresta gróðursetningu um óákveðinn tíma, fram yfir Íslandsferð.
 
Smám saman tókst mér að safna mér saman aftur og ég ákvað að klára rammann, kaupa ómengað efni þegar ég kem úr Íslandsferðinni og fúaverja með svokölluðu Roslagsmahony (rúslagsmahoný). Eftir það að taka hitt allt saman burtu og skipta um. Þetta verð ég að standa við.
 
Ef allar upplýsingar eru réttar er ég ekki hissa þó að það vaxi ofnæmi og almennur vesaldómur í heimi hér því að þetta efni er út um allar trissur og meðal annars í veröndinni á Sólvöllum, hjá sjálfum Guðjóni. Nýjustu upplýsingar sem ég fann um þetta eru frá 2010. Mér varð svo mikið um að ég fann ekkert annað. Ef nú einhverjir sérfræðingar lesa þetta eða fólk sem er dulegt við að finna upplýsingar um allt mögulegt og sjá eitthvað allt annað en það sem ég sá, að láta mig gjarnan vita.
 
Þessa umgjörð kem ég sem sagt til með að rífa burtu og setja vistvænt efni í staðinn. Það verður eftir Íslandsferð. Á morgun ætla ég að jafna með gróðrarmold kringum rammann  og jafna út halla sem er á landinu þarna. Þá mun þetta líta betur út. Svo sái ég í þetta grasfræi og eftir það geri ég ráð fyrir að ég endurheimti endanlega gleði mína. Að skipta þessu út verður barnaleikur vegna þess að þá verð ég orðinn sjötíu og tveggja ára.
 
Það logar ljós skógarmegin við húsið. Á morgun ætla ég að kveikja á kerti við hliðina á stóru myndinni af Valdísi. Svo ætla ég að skreppa inn í Marieberg í litla innkaupaferð og um leið ætla ég að borða mat hjá veitingamanninum sem veit að ég vel gjarnan fisk og kjúkling. Svo ætla ég að smakka sultuna/marmelaðið sem ég sauð í kvöld eftir eigin uppskrift. Ég ætla líka að horfa á sjónvarpsmessuna með það fyrir augum að ég verði pínulítið betri maður af.


Kommentarer
Auja

Það er ekkert lát a framkvæmdum á Sólvöllum. Sjáumst í maí eftir Íslandsreisu hjá þér og Spánarferð hjá okkur

2014-04-12 @ 22:53:00
Guðjón

Auður, þetta er síðasti dagurinn sem ég leik skurðgröfu þangað til alla vega eftir eftir langan, langan tíma. Heyrðu já, það er langt þangað til! Næstum því fleiri vikur.

2014-04-12 @ 23:01:15
URL: http://www.gudjon.blogg.se
Björkin

Kæri mágur minn.Þvílíkur dugnaður í einum manni.Held að þú verðir bara 30 ára á morgun.Kærar afmæliskveðjur frá okkur ellilýfeyrisgamlingunum.Mikið glöð væri ég ef þú vildir kveikja á kerti fyrir mig í fallega lundinum í skóginum.Mynningarlundinum.Líði þér alltaf sem besi.Krammmmmmmmmm.

2014-04-13 @ 01:10:38


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0