Kannski er ég óttalegur kjáni en lífið er samt mikilvægt

Já kannski er ég óttalegur kjáni. Snemma í morgun þegar staðarhaldarinn í Vornesi mætti í vinnuna spurði hann mig hvort ég gæti unnið milli föstudags og laugardags. Það þýðir vinna frá klukkan ellefu á morgun, föstudag, og fram til hádegis á laugardag. Mér hálf hraus hugur við en sagði svo já. Svo kom dagskrárstjórinn og þegar hann heyrði þetta sagði hann við mig að ég léti ofnota mig. Einum og hálfum tíma síðar kom hann til mín og spurði hvort ég gæti komið klukkutíma fyrr á morgun til að taka fyrirlestur áður en helgarafleysingin byrjaði. Þá lét ég hann ofnota mig ennþá meira og sagðist skyldi gera það.
 
Þar með verður ekki af heimsókn minni til yfirbýflugnadrottningarinnar nágranna míns sem ég ætlaði að heimsækja eftir hádegi á morgun og sjá býflugnabúskapinn hennar. Ég kem þá ekki heldur til með að grafa fyrir svo mörgum berjarunnum um helgina eins og ég hafði hugsað mér.
 
Já, ég sagði í bloggi um daginn að ég þyrfti að fara að byrja á útiverkunum. En þegar ég kom fram daginn eftir skein sólin svo fallega gegnum greina og barrverk í austri. En það var líka annað sem hún gerði. Hún skein á skítugar gluggarúðurnar móti austri og flekkirnir beinlínis öskruðu á rúðunum. Þegar kvöldaði skein hún líka á gluggarúðurnar vestan megin þar sem hún var farin að draga sig niður móti Kilsbergen. Að vísu eru það útiverk að þvo gluggana að utan en ef ég þvæ þá bara að utan kemur sólin til með að lýsa upp skítinn innan á rúðunum þangað til hann hefur verið þrifinn líka. Það er sem sagt ekki flóknara en svo að ég er óttalega upptekinn maður :-)
 
Og fyrst ég er byrjaður að tala um skít þá er það líka svo skrýtið að rykið sem ég þreif svo samviskusamlega innan húss fyrir jól er komið aftur. Ekki veit ég hvernig, en það er komið. Gólfin eru hins vegar í lagi -alla vega í dag. Það er þannig með þrifin að þegar ég byrja verður vandvirknin full mikil og tíminn sem fer í það of langur. En það getur varla talist löstur eða hvað? Það er eins og ég þurfi verkstjóra við sum verk til að þau verði unnin.
 
En það er spurning hvers vegna ég er þá að láta hafa mig í vinnu. Já, en þannig er það að þegar við héldum morgunfund í morgun í Vornesi var ég lang elstur. En ég var ekki bara það. Ég var líka minnst þreyttur og slitinn utan hjúkrunarfræðingsins og staðarhaldarans. Dagskrárstjórinn er búinn að vera veikur heima í nokkra daga, annars hefði hann líklega verið minna slitinn en ég. Vinnan virðist því ekki fara illa með mig.
 
Svo er annað mál sem er hrikalega alvarlegt. Fólk sem við hittum og ekki tekst að nýta sér meðferðina deyr allt of oft. Undanfarið, á óhugnanlega stuttum tíma, hafa þrír menn milli tvítugs og tuttugu og átta ára dáið -dáið í sjúkdómnum. Sá sem var tuttugu og átta ára er einhver notalegasti maður sem ég hef hitt. Kurteis, almennt fróður maður, viðræðugóður, hógvær og tillitssamur. Hvað meira getur prýtt ungan mann? Hann var líka sonur sænks manns sem var afburðagóður vinur minn, en sá er látinn líka en úr öðrum sjúkdómi. En það dugði ekki til. Sumir komast ekki undan. Mig setti hljóðan. Svo ók ég heim og var þungt hugsi þrátt fyrir afburða fallegan vordag.
 
Ég hugsaði til annars fólks sem ég þekki til og fólks sem mér þykir vænt um sem ræður ekki við sjúkdóminn alkohólisma og hefur fallið aftur niður í svartnættisgljúfrið. Það er líka sorglegt og ennþá sorglegra vegna þess að þetta fólk á börn og aðra aðstandendur sem elska þá þrátt fyrir allt. Fólk þarf ekki að deyja til að þetta verði sorglegt. Ég veit að ég get gert gagn og ég bara get ekki annað en haldið því áfram. Svo er ég minna þreyttur en unga fólkið. Ég kem oft inn á þetta, ég veit varla hvers vegna en það skiptir bara ekki máli.
 
En nú ætla ég að opinbera nokkuð. Þrátt fyrir þessa vinnu er ég búinn að grafa eina holu í dag, holu sem ég ætla að gróðursetja þrjá berjarunna í eftir helgina. Kannski gref ég aðra holu eftir vinnu á laugardaginn og kannski gref ég þriðju holuna eftir messu á sunnudaginn. Svo get ég grafið eina holu á mánudaginn áður en ég fer inn í garðyrkjustöðina Skrúðgarðagróður til að kaupa heilan helling af berjarunnum. Svo get ég haft gróðursetningarhátíð á þriðjudag. Það er ekki spurning að þá verða pönnukökur handa Sólvallamér.
 
Sumir þessara berjarunna skila berjum þegar í haust, aðrir ekki fyrr en á næsta ári. Svo er eins víst að hann Ivar nágranni bjóði henni Rósu að tína ber hjá sér í haust eins og hann gerði í fyrra. Stokkhólmsfólkið er nefnilega afar áhugasamt um þetta og er fyrir mig mikil driffjöður í að drífa þetta áfram. Kannski vill koma fjölskylda frá Íslandi til að sýsla við þetta líka. Ólafur Ólafsson fyrrverandi landlæknir kom árlega með konu sinni til Uppsala til að hjálpa móður hennar við berjatínslu og sultugerð á haustin. Þetta með ber og sultugerð getur orðið að verðugri hefð hér á Sólvöllum og ég á möguleika á að verða þátttakandi í því í nokkur ár og kannski all nokkur ár.
 
Lífið er gríðarlega mikilvægt og frábært að vera þátttakandi í því. Ég skal nú reyna að greiða eitthvað upp í þátttökugjaldið og ég fer því í vinnu á morgun. Ég fæ vissulega laun fyrir það en ég mun heldur ekki verða sérhlífinn við starfið.
 
Þrátt fyrir annríkið -og einmitt vegna annríkisins- þá fór ég á Brändåsen og borðaði virkilegan kvöldmat. Steikt svínasíða var það (svipað og beikon) og raggmunk með. Raggmunk er eins og þykkar pönnukökur, gert úr hveiti, mjólk og miklu af kartölfum ásamt smá bragðbæti. Svo er þarna salat á diski. Ég reiknaði með að ég þyrfti að víkka út beltið um eitt gat þegar ég væri búinn að borða þetta en gleymdu því. Ég brenni þessu á örstuttum tíma.
 
 
Þetta er útsýnið frá gestaherberginu á Bjargi. Þess fá bara þeir að njóta sem koma þangað. Hinir fá ekkert af því.
 
 
 
Brändåsen er borið fram Brendosen, en ef ég skrifa það þannig, þá bara er það svo skuggalega vitlaust skrifað. Það er oft svona að ég er tvístígandi hvernig ég á að skrifa, að skrifa það samkvæmt sænskri stafsetningu eða íslenskum framburði. En eins og ég sagði er það þá svo hrikalega vitlaust skrifað.
 


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0