Að vera í Vestmannaeyjum -fyrri hluti

Mér finnst gott að koma til Vestmannaeyja en mér finnst óskemmtilegt hversu oft Kári vill vera með mér hér í Eyjum. Vestmannaeyjar hafa upp á að bjóða mörg sérkenni og frábæra náttúru. Hér hitti ég líka gott fólk sem tekur mér opnum örmum og fer vel höndum um mig. Hins vegar er ég því miður svo óþroskaður að þegar veðurhamur setur á einhvern hátt fót í götu mína varðandi siglingar og veru mína á þessum stað, þá get ég farið í hálfgerða fýlu. Helst mundi ég vilja skrifa síðustu meiningu með svo litlum stöfum að það væri ekki hægt að lesa hana en ég kann ekki þá list hér á Bloggi.
 
Ég hef hins vegar aldrei orðið sjóveikur á þessum siglingum þannig að ég ætti ekki kannski ekki að vera að kvarta. Best væri bara að hafa allan tíma sem finnst í heiminum og ákveða ferðir til Eyja bara þegar ég veit að núna er gott ferðaveður. Leggja svo af stað, fá mér stóra brauðsneið um borð, gott kaffi í stóran bolla og eins og hálfan sykurmola út í kaffið. Fara svo helst út á dekk einhvers staðar og muðla í mig brauði og kaffi og horfa á heiminn og velta fyrir mér þátttöku minni í jarðlífinu. Hafa þá líka skrifblokkina nærri ef mér skyldi finnast að nú hefði mér dottið í hug mikill vísdómur og skrifa niður. Síðan gæti ég fengið mér ábót af kaffi og kökubita með.
 
Gallinn við að sigla frá Bakka er bara sá að það er ekki tími til alls þessa. Að öðru leyti sé ég allt gott við siglingar frá Bakka hvernig svo sem það gengur með hafnarmálin þar. Áhyggjur af því og kostnaðinum við það get ég hins vegar með glöðu geði velt yfir á aðra. Þegar ég verð alvöru ellilífeyrisþegi, sem ég er jú alltaf að tala um, þá hlotnast mér allur þessi tími sem finnst í heiminum og ég tala líka oft um. Eftir það get ég valið ferðir til Eyja bara þegar sólin skín og hafið er skínandi slétt og bjart. Þá get ég líka gengið á Eldfell með kíki og kannað skygnið austur á bóginn til bernskustöðvanna.
 
 
Í gær gat ég smeygt mér inn á byggðasafnið til hennar Helgu Hallbergsdóttur. Hlutirnir koma mér oft á óvart og heimsóknin til Helgu kom mér mjög á óvart. Í fyrsta lagi er svo greinilegt að Helga sinnir þessu safni undir stjórn hjartalagsins og þá verður heimsóknin til hennar ekki einungis fróðleg, heldur meira andlega söguleg innsýn inn í það sem fyrir augun ber. Nú, við fórum gegnum safnið þannig að ég veit pínulítið um það magn sem þar er hægt að nálgast og hvernig áhrif það hefur þegar nálgunin á sér stað gegnum hjartað. Ég vil gjarnan koma þangað síðar með skrifblokk og penna og dvelja í ró og næði í heilan dag. Gott væri að hafa nesti með. Nú vil ég breyta "mundi gjarnan vilja" í ætla. Það eru mörg söfn sem gefa þennan möguleika en Helgu tókst bara að smita mig af þessu byggðasafni og það væri einfaldast fyrir mig að velja safnið hennar. Þakka þér fyrir móttökurnar Helga. Þú varst hinn lifandi tengiliður milli mín og safnsins og komst á sambandi milli mín og þess. Snilldarlega gert.
 
 
Í fyrradag fór hann Kristján hafnarvörður með mig um hafnarsvæðið og þegar við fórum framhjá heimakletti bað ég hann að stoppa á ákveðnum stað. Mér fannst ég sjá þarna andlit, dýr, fornynjur og vættir og ég get ekki betur séð en allt þetta hafi fylgt með á myndina.
 
 
Svo bauð Kristján mér í mat, fiskrétt sem hún Guðný kona hans hafði framreitt af mikilli snilld. Þau buðu líka honum Þórólfi sýslunga mínum og skólabróður í mat, þeim sem sem er lengst til vinstri og gætir heimilishundsins Lóu sem vildi gjarnan vera á hlaupum á hnjám fólks.
 
 
Ég flakka hér á milli daga og kem nú aftur til gærdagsins þegar það var Skóladagur i Barnaskólanum. Þar voru sýningar á öllu mögulegu og það voru miklar dýrindis veitingar. Ég hlakkaði mikið til veitinganna því að það var óttalegur nautnaseggur í mér í gær. Ég fór þangað með Valgerði og dótturdætrunum og við skoðuðum margt. Við komum meðal annars að þessum ungu mönnum þar sem þeir voru að kynnast eðlisfræðiundrum hjá raungreinakennara skólans.
 
Einn þessara drengja var einn á leið til skólans þegar okkur bar að. Hann spurði hvort við værum á leið þangað og hvort hann mætti vera okkur samferða. Mamma hans hefði verið svo lengi að koma sér af stað sagði hann og að nú væri hann alveg að pissa "í" sig þannig að honum lægi á. Hann fékk auðvitað að vera okkur samferða og hann náði í tíma á snyrtinguna og síðar sáum við að hann átti hinn besta dag þarna eins og við hin og svo margir aðrir.
 
 
Svo kom barnið upp í mér og ég komst í smásjá sem stækkaði þennan blýant 20 X. Það er afar hógvær stækkun þegar um smásjá er að ræða, en þarna gefur að líta hvernig blýanturinn er slitinn í oddinn eftir síðustu notkun og Jónatan tengdasonur tók líka eftir því hvar yddarinn hefði stoppað síðast þegar blýanturinn var yddaður. Það er margt að sjá ef hugmyndafluginu er sleppt lausu.
 
 
Mikið að gera, fólk að teikna, lita og spjalla saman. Skoða, sýna öðrum og skiptast á skemmtilegum athugasemdum.
 
 
Svo eru hér kræsingar sem voru ómótstæðilegar og ódýrar voru þær. Ég féll algerlega fyrir þessu og hvolfdi í mig af fyrsta brauðdiskinum. Svo tók ég á þann næsta en neyddi mig til að taka ekki meira. Þegar við yfirgáfum húsið var ég alsæll með þetta og feginn að hafa ekki hvolft í mig af meira stjórnleysi.
 
 
Hér er samferðafólk mitt í þessari skólaheimsókn. Valgerður og dætur hennar Erla og Guðdís. Augnatillit þeirra Valgerðar og Guðdísar gefur eiginlega til kynna að þær viti eitthvað sem við Erla vitum ekki. Það fer ekki milli mála að Valgerður er skyld henni móður minni, Valgerði á Kálfafelli. Jónatan tengdasonur var við störf þarna í skólanum en lenti samt ekki á mynd hjá mér.
 
 
Það er sem sagt margt hægt að taka sér fyrir hendur hér í Vestmannaeyjum. Það var margt annað sem talað var um að hægt væri að gera en hér hef ég sagt frá fáu. Ég fór líka í fjárhús og sá aðeins til suðburðarins sem hófst fyrr en til stóð. Hrútur slapp einhvers staðar yfir grindverk og ástaævintýri áttu sér stað í desembermyrkrinu sem ekki voru skipulögð. Ávöxtur þessara ástarævintýra urðu átta lömb sem nú eru þegar farin að vaxa úr grasi
 
Nú er ég að verða leiðinlegur innan um hóp af fólki, enda nóg komið. Á morgun, föstudag, yfirgef ég Vestmannaeyjar og held austur til bernskustöðvanna.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0