Það var of mikið að gera

Það var bara of mikið að gera hér síðustu daga til að ég kæmist yfir það að blogga. Það hefur ýmislegt komist í verk, reyndar heil mikið, og afar mikilvægt. Og það er alltaf þetta; þegar einn áfangi er búinn er svo gaman að líta yfir. Það er líka gaman að taka myndir af áföngum og bera svo samna fyrir og eftir. Fjölskyldan frá Stokkhólmi hefur verið okkur til mikillar hjálpar við mörg verk frá því að þau komu. Þó að Hannes sé ekki verkmaður ennþá hefur hann gaman af að fylgjast með og svo er hans glaða nærvera hvatning til frekari verka.


Það má segja frá þessu litla apparati utan við einn gluggann. Meðan Rósa og Valdís voru í bæjarferð til að kaupa körfur og hillur í fataskápa ásamt fleiru leituðum við Pétur eftir besta staðnum fyrir þetta loftnet fyrir þráðlausan heimasíma og breiðband. Loksins vorum við ekki í vafa hvar það gerði mest gagn og svo var bara að setja tækið upp og tengja við módemið inni. Nú erum við komin með nánast jafn gott tölvusamband og við höfðum í Örebro þar sem við höfðum breiðbandskapalinn alla leið inn fyrir vegg.

Tölvan er líka ný, prentarinn er nýr og er inni í skáp í öðru herbergi, þrálaust tengdur tölvunni. Tölvan er líka þráðlaust tengd módeminu. Leiðslur og kaplar eru í lágmarki og Rósa og Pétur eru búin að setja upp í tölvuna það vinnuumhverfi sem hentar okkur ellilífeyrisþegunum vel. Það er einfalt að komast inn á hvert einasta atriði sem við notum og það er einfalt að nota það. Svoleiðis á það að vera og hratt gengur það.


Þessi rauf efst og til hægri í myndinni var oft búin að minna mig á að þarna væri eitthvað ógert. Listarnir til að loka raufinni með voru búnir að vera til í fleiri vikur en þeir komu ekki að miklu gagni liggjandi út við vegg bakvið rúmið í gestaherberginu. Í dag tók ég á mig rögg, tók inn tröppuna og setti hana mottu á gólfinu sem ég dró svo til eftir þörfum. Síðan fyllti ég upp í rifuna með lista og setti svo hinn eiginlega lista upp þarna í 3,5 m hæð. Á meðan voru Rósa og Pétur í tölvufráganginum en Valdís fór meðal annars út með Hannes og þau ferðuðust um nágrennið. Hannes hefur gaman af slíkum ferðum og bendir mikið og segir frá því sem fyrir augu ber. Hann er mikill vinur í svona ferðum og þær eru líka góð aðferð fyrir okkur Valdísi til að kynnast yngsta barnabarninu okkar. En aftur að listanum; mikið, mikið var ég ánægður eftir á að þessu smáverki var lokið. Það var búið að standa verulega í mér að koma því í verk.


Við Pétur vorum búnir að flísaleggja forstofuna en þar áður var Kristinn dóttursonur búinn að hjálpa okkur við að flota gólfið. Við vorum Pétur vorum líka búnir að flísaleggja yfir eldhúsbekknum. En þá var eftir að flota og flísaleggja kringum kamínuna samkvæmt reglugerð. Ég stundi nokkrum sinnum og hugsaði hvort ég ætti að fara í þetta núna eða seinna. Svo auðvitað ákvað ég að fara í þetta núna. Þarna er ég búinn að skera til og máta nokkrar flísar. Svo var að flota þarna líka undir flísarnar eins og í forstofunni -samkvæmt reglugerð.


Hér eru svo flísarnar komnar á og allt eins og það á að vera. Mikið var gaman að reisa sig upp eftir að síðasta flísin var fallin á sinn stað og virða fyrir sér. Já, það er hægt að gera lífið skemmtilegt. Við Valdís þurfum í bæinn á morgun og ég hef grun um að Pétur verði búinn að fúgufylla þegar við komum til baka. Mér heyrðist það á honum fyrr í dag.


Það var líka gaman að sjá yfir verkið þegar fataskáparnir voru full frágengnir í nýja gestaherberginu. Þeir eru fjórir og ein hurðin er spegill. Þar getur maður sagt að Hannes hitti Hannes og það er að sjá að honum líki lífið í þessu herbergi. Hún Guðdís barnabarn sem hvílir sig þarna í rúminu sagði að það hefði verið gott að sofa í þessu herbergi. Hún fékk að vígja það með því að sofa þar fyrstu tvær næturnar.


Það var ekki bara vinna í dag. Veðrið bauð að vanda upp á að borða úti og fá sér kaffi og við notfærðum okkur það. Hannes situr þarna við borðið og segir okkur frá flugvél sem fór yfir. Hann er þarna með dúkkuna vinkonu sína hjá sér. Hann leikur sér að bílum, dúkkum, dúkkukerru, hjólbörum, legókuppum og mörgu fleiru og svo á hann líka litla strákasláttuvél.


Mamma og pabbi eru samt best þegar á reynir og þau eru alltaf til staðar.

Eins og venjulega er komin nótt áður en ég veit af. Ég er með það í bígerð að fara þriggja km hringinn í fyrramálið með Hannes í kerrunni og hlusta á hann segja frá því sem fyrir augun ber. Ég veit að mamma hans þarf frið til að sinna verkefnum sem hún þarf að vinna. Kyrrðin hvílir yfir byggðinni og ég veit að Óli vinur minn verður mér hjálplegur þegar ég leggst á koddann.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0