Við Hannes og fleira

Þó að dagurinn 22. júlí byrjaði með súld voru útihurðirnar bæði á fram- og bakhlið opnar alveg frá fótaferð og nánast það sem eftir lifði dags. En fyrir hádegi þornaði upp og það varð næstum mollulega hlýtt. Merkilegt að vera að skrifa þann 22. júlí og það er komið langt fram yfir mitt ár og mitt sumar. Að vísu má reikna með að Valdís slái alveg fram í nóvember en samt er sumarið meira en hálfnað. Margir akrar eru orðnir þroskaðir og gulir eins og segir í Njálu þegar Gunnar vildi hvergi fara og þá breytist landið mikið. Það er eins og vorið ráði ríkjum þangað til akrarnir gulna og þá er allt í einu komið fram yfir mitt sumar.

Þegar Norðmenn voru að upplifa skelfilega hluti vorum við Hannes hérna megin í skóginum að tína hindber og mamma hans með. Við vorum að endurupplifa berjatínsluna frá í gær þegar hann áttaði sig á því að hindber væru voða góð og alls ekki gerð til að henda þeim á jörðina. Svo tók ég Hannes á handlegg mér og við gengum lengra út í skóg en mamma hans gekk heim sem hann mótmælti ekki. Það var eins og hann upplifði það að þetta var annar heimur og hann varð hljóður og horfði mikið í kringum sig.

Ég gat auðvitað ekki þagað yfir þessari veröld sem ég taldi mig eiga svolítinn þátt í að hafa skapapð. Á nokkrum stöðum benti ég á eitthvað sem mér fannst hugsanlegt að ég gæti fengið hann til að taka eftir og þá sagði ég; nei nei nei sjáðu bara. Fyrst sagði hann ekkert en svo fór hann að segja eftir mér; nei nei nei og leggja á það sömu áherslur og ég. Við vorum afar góðir vinir í þessari skógarferð og þurfum að endurtaka hana. Kannski ættum við að taka einhvern með okkur til að taka mynd af okkur.

Ég fór til tannlæknis í dag í örlitla viðgerð. Það var eins og ég væri eini viðskiptavinur dagsins. Ég held að ég fari rétt með að það var símastúlka, tannlæknir og tannhjúkrunarfræðinur á staðnum og alls ekki meira fólk. Það virtist líka vera lítið að gera og þegar tannlæknirinn var búinn með sitt spjölluðum við saman aðeins í léttum dúr. Svo sagði hann allt í einu og benti á öxlina á mér; það er sulta á skyrtunni þinni. Nei, ég sagði honum að ég hefði farið út í skóg í gær að tína hindber með barnabarninu mínu. Já, honum líkaði það vel og sagði að það yrði enginn klókur af því að hanga heima og liggja yfir tölvum. Ég hafði svo sannarlega ætlað að skipta um skyrtu áður en ég fór en það bara varð ekki af.

Það er komið fram yfir miðnætti og ég ætti að skammast mín til að fara að sofa. Ég er að skrifa á nýja tölvu sem keypt var í dag, ég er að æfa mig á hana. Þetta er Mackintosh (eða hvernig það er nú skrifað) og virkar talsvert öðru vísi en PC. Við notum tækifærið meðan Rósa og Pétur eru hér til að aðstoða okkur. Meðan ég var hjá tannlækninum keypti Rósa tölvuna. Rósa sagði stúlkunni sem afgreiddi hana að hún væri að aðstoða pabba sinn og mömmu. Jahá, stúlkan sem afgreiddi hafði líka verið að enda við að hjálpa pabba sínum og mömmu við að koma í gang tveimur tölvum sömu sortar og við keyptum. Svona er þetta; ef maður tekur upp þó ekki sé nema pínulítinn félagskap fær maður eitthvað til baka. Með það segi ég góða nótt og hugsa til Norðmanna fyrir svefninn.


Kommentarer
Rosa

Duglegur þú að blogga á makkanum!



Kveðja úr Suðurherberginu,



R

2011-07-23 @ 08:52:02


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0