Skógarferð með afa

Stundum segjum við fast og ákveðið nei, nei, nei, nei! og þá þýðir það þvert nei við einhverju. Stundum segjum við nei, nei, nei nei í undrunartón eða aðdáunartón og þá hljómar það allt öðru vísi. Þannig var það hér um daginn þegar við nafnarnir fórum út í skóg, ég haldandi á honum á handleggnum og þegar ég áttaði mig á því að honum fannst þetta hinn stórkostlegasti heimur, þá auðvitað varð ég mjög glaður. Svo komum við að gríðar háum trjám og ég benti upp og sagði: nei, nei, nei, nei, sjáááðu baara! Hann horfði eftir því sem ég benti og svo fór hann að segja í sama tón og ég: nei, nei, nei, nei.

Í dag fórum við aftur út í skóg og nú höfðum við ljósmyndara með. Mamma hans var með og tók mikið af myndum sem hún svo setti á Flickr og þaðan var ég svo að taka nokkrar myndir rétt í þessu, myndir sem mér fannst alveg sérstaklega mikilvægt að heimsbyggðin ætti kost á að sjá. :)


Þegar við komum aðeins skammt út í skóginn benti hann á stór tré og sagði í undrunartóninum: nei, nei, nei, nei. Svo leit hann á mig og við vorum báðir voða glaðir og svo horfðum við þangað sem hann benti. Ég verð að viðurkenna að ég átti ekki minnstu von á að hann myndi eftir þessu sem farið hafði okkar á milli fyrir fimm dögum síðan. Ég held að mamma hans hafi líka orðið undrandi þegar hún heyrði hann segja þetta, en ég var jú búinn að segja þeim frá þessu og einnig að blogga um fyrri ferðina.


En ekki vorum við komin langt þegar nafni vildi ganga sjálfur og svo leitaði hann upp gönguslóðina undir burknahafinu og honum tókst það ótrúlega vel.


Svo hvarf hann bara ennþá lengra inn í burknahafið og fyrir þessum smávaxna manni hljóta stórvaxnir, þéttir burknarnir að hafa verið sem hreini frumskógurinn. Þarna var það hann sem réði ferðinni og hann hélt sig við slóðina. Ef hann fór út af slóðinni áttaði hann sig strax á því og leitaði hana þá uppi aftur. Vinstra meginn við hann má sjá eikarplöntu sem er að hasla sér völl og er að vinna í því að komast yfir burknana til að geta virkjað fyrir sig sólarljósið.


Hér lækkar gróðurinn heldur og það er að sjá að Hannes sé að athuga eitthvað merkilegt. Auðvitað hlýtur það mesta að hafa verið merkilegt fyrir hann fyrst hann hreinlega hræddist það ekki.


Já, leiðin er hérna, komiði bara á eftir mér. Hver ratar ef ekki ég afi minn.


En hvað var þarna? Núna var ekki um annað að ræða en að stoppa og þarna talaði Hannes mikið og var undrandi. Það nefnilega var aragrúi af maurum fyrir framan hann sem þustu bæði til hægri og vinstri og þeir virtust vera í miklu annríki. En þegar maurarnir byrjuðu að æða upp eftir stígvélunum hans þótti honum nóg komið. Hann valdi þá að halda áfram í all nokkrum flýti. Það sem ég er að gera þarna með hendina niður á fætinum er að slá burtu maura sem voru farnir að herja á mig líka.


Ástæðan fyrir þessum maurafaraldri þarna er þessi mauraþúfa sem reyndar er farin að taka á sig mynd af fjalli. Þvílíkur aragrúi og ég segi aftur; aragrúi. Allt yfirborð þúfunnar var á iði og umhverfi hennar líka. Þarna var allt kvikkt og það var nánast ekki hægt að fara nær til að taka mynd. Ég var berfættur á sandölum og Hannesi virtist ekki alveg standa á sama svo að dvöl okkar þarna varð ekki svo löng. Þegar aðeins dró frá þúfunni voru mauraslóðirnar greinilegar eins og fjárgata. Ótrúlegt en satt.


Frá mauraþúfunni héldum við heim á leið. Þegar við vorum að fara yfir brúna yfir skurðinn bakvið húsið áttaði Hannes sig á því að við værum að fara heim. Hann sneri þá við og fór annan hring og var fyrstur allan tímann. Hann var svo ótrúlega ratvís í skóginum þar sem margir fullorðnir geta villst -og hafa villst. Ég held að drengurinn hafi í sér eitthvað af skógareðlinu mínu. Það er gott eðli.


Það er víðar grænt á Sólvöllum en inni í skóginum. Hér eru þau amma og drengur akkúrat hinu megin við húsið og hann hvílir sig nú í kerrunni. En kannski við ættum að fara inn. Mögulega lumar amma á einhverju.


Og það gerði hún svo sannarlega. Hún var nefnilega búin að baka kanelsnúða. Hvað þær eru góðar þessar ömmur. Svo bárum við út snúða, í fyrsta lagi þá sem ömmu fannst ekki líta nógu vel út, og drykkjarföng bárum við út líka. Svo héldum við snúðaveislu við tréborðið. Takk fyrir daginn Hannes, Rósa og Pétur og auðvitað þú líka amma.


Kommentarer
Anonym

Yndislegt þetta sænska sveitalíf skemmtilegar frásagir

kveðjur á ykkur kæru hjón

2011-07-31 @ 01:27:49


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0