Sumir gestir eru farnir og aðrir eru eftir



I fyrradag var fullt af fólki hér og þá flotuðum við eitt forstofugólf undir stjórn Kristins dóttursonar. Í gærmorgun komu svo Kristinn og Johanne og eftir kaffi og rístertu hjá Valdísi lögðu þau af stað til Noregs og með Guðdísi með sér þar sem hún ætlar að prufa að vinna í fiski í Bergen ásamt barnapössun sem hún ætlar að taka að sér. Þau ætluðu að vera nótt í Ósló til að dreifa aðeins langri ferð. Á myndinni gefur að sjá Johanne, Kristinn og Guðdísi og meira að segja má greina rístertuna á borðinu. Að baki þeimer svo ellilífeyrisþegi sem gjarnan reynir að vera með á myndum.


Nú erum við fimm sem dveljum hér á Sólvöllum og þar með er hann nafni minn, Hannes Guðjón, sem er hvers manns hugljúfi í sveitinni og mikill miðpunktur. Honum finnst spennandi að standa á bakvið stýrið og skipta um rásir á útvarpinu með þar til gerðum hnappi í stýrinu og svo dansar hann inn á milli eftir tónlistinni.


En það er margt fyrir hann að rannsaka eins og til dæmis hvernig það getur verið mögulegt að sprauta vatni úr slöngu.


Og ef það gengur ekki sem best að fá það á hreint er ekki annað að gera en að koma enn nær og einbeita sér enn betur.


Svo er líka gott að skella sér inn á milli í stólana hjá henni ömmu, slappa af með leikföng og kannski inn á milli að kíkja á litríkt efni í sjónvarpinu.


En það gengur ekki til lengdar að liggja inni í mjúkum stólum. Hann drífur sig þá út með pabba og vökvar sírenurunnana. Hér er það nú þurrt maður!


Meðan faðir og sonur önnuðust ýmis mál og amma bakaði pönnukökur handa nokkrum konum sem ætluðu að koma í heimsókn fór, hún Rósa dóttir mín með mér að sækja eldivið út í skóg, við sem felldur var snemma í vor. Við þurftum að byrja á því að stækka svolítið hlaðið sem er á bakvið eldiviðargeymsluna þar sem við ætlum að vinna viðinn. Mannfræðingurinn, Dr. Rósa, sagði mér að láta sig hafa skófluna og svo mokaði hún mölinni í hjólbörurnar. Vísst var það mikill léttir fyrir mig svo að það var bara fyrir mig að taka ofan hattinn, hneigja mig, og vera þakklátur.


Svo fórum við út í skóg að sækja viðinn. Þetta er ekki alveg réttasti árstíminn til að vinna við eldivið en ég vitna bara í það sem fyrrverandi vinnufélagi minn sagði eitt sinn; ef maður hefur ekki tíma til að ganga fré eldiviðnum á besta tíma, þá gerir maður það þegar tækifæri gefst. Mér líkaði þessi afstaða hans.


Það er líka hægt að taka dansspor með eldivið í höndunum.

En nú er kominn háttatími fyrir ellilífeyrisþegann mig. Snemma í fyrramálið kemur hann Patrik rafvirki til að klára það mesta af verkefnum rafvirkjans í þessu húsi. Óli lokbrá er mættur og ég ræð ekki við hann og get ekki annað en hlýtt honum.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0