Um flísar og fleira

Meðan við enn áttum heima á Íslandi var ekki til efni sem hrært er út í vatni og síðan hellt á gólf og úr verður þræl sterkt lag sem líkist steypu. Það er síðan hægt að dúk- eða flísaleggja eftir vild og hér heitir þetta efni flytspackel. Samkvæmt því ætti það að heita flotsparsl á íslensku. Ég ætla alla vega að kalla það flotsparsl. Svona efni ætlum við að setja á forstofuna hjá okkur og hafa gólfhita í forstofunni. Ég var búinn að spyrja marga hvernig ætti að gera þetta og hafði fengið afar mörg svör við því. Svo hélt ég að allt væri til reiðu og í morgun kom rafvirkinn og ætlaði að ganga frá hitaþráðunum í gólfið. Þegar hann leit yfir gólfið sagði hann að bragði að svona gætum við ekki gert. Síðan skrifaði hann lista yfir ýmsan lokafrágang sem hann ætlar að framkvæma á þriðjudag í næstu viku og fara þá í gólfið um leið.

Þegar hann var farinn sagði ég við Valdísi að ég ætlaði að fara í Flísahúsið í Marieberg og hvort hún kæmi ekki með. Fyrst var hún ekki viss en svo fórum við bæði í Flísahúsið og Valdís sagðist vera búin að tala oft um það áður að fara þangað. Kannski þarf ég að fara að fara aftur á heilsugæsluna í Fjugesta til að láta hreinsa meiri eyrnamerg.

Í Flísahúsinu hittum við grannvaxinn mann, eitthvað yngri en við var hann, alvarlegur í bragði en hjálplegur var hann. Það sem hann sagði virtist vera sagt af þekkingu og nú virtist eitthvað vera að verða á hreinu með þetta blessað forstofugólf okkar. Svo gengum við um salina í Flísahúsinu og Keyptum allt sem til þurfti til að geta klárað gólfið. Flísar, flísalím, fúgusement, vírnet og eitthvað fleira. Það var alls ekki meiningin að kaupa flísarnar fyrr en seinna en nú er sem sagt allt til staðar. Netið vorum við búin að kaupa áður en því neti verðum við að skila aftur.

Þegar ég var að plokka flísakassana á vagninn datt mér allt í einu í hug að það þyrfti að kaupa eitthvað til að leggja undir netið, lyfta því frá gólfinu. Þá var hjálpsami maðurinn að afgreiða annan mann úti við og ég gekk þangað og spurði. Hjálpsami maðurinn spurði þá viðskiptavininn hvort það ætti að setja eitthvað undir netið. Nei sagði hann og leit á mig. Bara við að líta á hann datt mér í hug eiginleikar sem heita virðing, öryggi, kunnátta, innri ró. En athugaðu, sagði hann, að það á að kaupa sérstakt efni þegar á að nota net en ekki gipsónett.

Ég gat ekki látið vera að segja við þá að allt í einu hitti ég menn sem vissu alveg upp á hár hvernig ætti að vinna hlutina. Já, svaraði viðskiptavinurinn, ég ætti að fara að vita það eftir 27 ár í faginu. Heyrðu, sagði ég, viltu líta á kerruna og segja mér hvort efnið sem ég keypti í annarri verslun í gær er það rétta. Alveg sjálfsagt þótti honum og svo kom hann og staðfesti að ég væri með rétt efni á kerrunni. Þar með var ekki annað að gera fyrir mig en að lúta höfði og þakka þeim báðum fyrir hjálpina. Þeir lyftu báðir hendi og báðu mig að njóta vel. Svo lögðum við Valdís af stað heim og ég reyndi að láta í ljósi að það hefði ekki verið vitlaust af henni að vilja fara í Flísahúsið.

Nokkru seinna vorum við í málningarbúðinni í Fjugesta. Við vorum að sækja viðbót við veggflísar sem við setjum í eldhúsið. Þar gekk Per framhjá á fullri ferð og heilsaði að vanda. Heyrðu Per, kallaði ég á eftir honum, hvernig á ég að taka tvö göt fyrir rofadósum hlið við hlið í sömu flísina? Ekkert mál sagði Per. Svo kom hann með litla svarta tösku og tók dósabor upp úr töskunni og rétti mér. Hann lýsti því fyrir mér að þessi dósabor væri útbúinn med demanta sem biti á flísarnar. Það gat ég svo sem sjálfur séð. En tvö got hlið við hlið, flísin hlýtur að brotna. En Per sat við sinn keip en sagðist ekkert taka fyrir að lána borinn, ég væri þar svo oft á ferðinni í innkaupaerindum. Heim fórum við og ég var vantrúaður á árangurinn en ákvað að reyna.


Svona gekk það að bora fyrir tveimur dósum í sömu flísina. Hún brotnaði ekki og þetta var ekkert mál. Ef einhverjir lesa þetta verða sjálfsagt margir til að hlæja að mér fyrir að vita ekki svona einfaldan hlut. Það get ég vel boðið upp á, annars hefði ég ekki sagt frá þessu.

-------------------------------------------------------------------------------


Hann Broddi er samur við sig og alltaf jafn skemmtilegur og forvitnilegur, þetta litla dýr sem hefur ekkert breytst í ótrúlega margar miljónir ára.


Svo þegar hann varð þess var að það ætti að fara að taka mynd af andlitinu á honum varð hann feiminn og laut höfði.


Froskarnir eiga það sameiginlegt með broddgöltunum að oft eru þeir bara þarna allt í einu og þegar ég varð þessa var, var ég við það að stíga ofan á hann. Ég kippti upp undir mig fótunum af öllum mætti og báðir komumst við lifs af.


Í gær gengum við yfir til nágrannanna sunnan við. Þau eru líka að byggja og hér er Stína að mála með Falufärg. Það er málmrík rauð leðja sem er tekin upp úr gamalli koparnámu upp í Falun og er mjög góð raka- og fúavörn. Stina og Valdís ræða oft málin.


Þeirra hús er stærra en okkar hús en við því verður ekkert gert. Haha, lélegur brandari, svefnórar og mál fyrir mig að leggja mig.

Ps. Það er rigningartíð og 20 stiga hiti. Ef einhver les þetta, segið mér gjarnan hvað þetta gólfefni heitir.


Kommentarer
Anonym

Sæl, ég heyri yfirleitt talað um flotmúr og að það sé verið að flota gólf.

kv BP

2011-07-08 @ 23:57:28
Guðjón Björnsson

Þetta lætur túlega, sama hugsun bakvið orðið. Takk fyrir það BP og kveðja.

2011-07-09 @ 08:22:28
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0