Andamamma bjargar sér

Undanfarið hefur lífið verið vinna í Vornesi og innréttingarvinna heima. Veðrið hefur að mestu verið hiti, nokkuð yfir 20 stig, og of lítil úrkoma. Því hef ég líka verið duglegur með garðkönnurnar til eftirlætis vinanna minna með rætur, en Valdís hefur meira aðhyllst garðsalönguna með úðaranum. Það er ótrúlegt þetta hvað maður er gagnlegur þegar maður fer út að vökva þegar líður á kvöldið. Ekkert verk er mikilvægara þá stundina.

Ég var á leiðinni heim á fimmtudagsmorguninn var og á aðalgötunni í Vingåker var stolt andamamma með ungana sína níu á leið niður að Vingåkersánni. Hún vaggaði áfram meðfram gangstéttarkantinum, vildi yfir götuna en treysti mér ekki. Ég hélt því áfram og þegar ég var kominn framhjá þessari fjölskyldu blikkaði ég næsta bíl á móti. Andamamma treysti þeim bílstjóra betur enda var kona þar á ferð. Hún stoppaði þegar sýnt var að andamamma ætlaði sér yfir götuna og nokkrir bílar komu úr hinni áttinni og stoppuðu líka. Þannig sá ég í bakspeglunum hvernig andamamma komst slysalaust yfir götuna með allt sitt smávaxna lið og marga bíla sem biðu. Þar með var áin skammt undan.

Í gær, sunnudag, kom ég í Vornes um hádegi og var þar þangað til í morgun. Skömmu eftir komuna þangað í gær hafði ég upplýsingafund fyrir fólk sem kom í sunnudagsheimsókn til fjölskyldumeðlima sem voru í meðferð. Þegar allir voru komnir sem ætluðu að vera þarna með sá ég á augabragði að einginn nærstaddra var hreinræktaður Svíi. Það voru þrír Írakar, einn Írani, einn Pólverji og einn Íslendingur -ég. Í hljóði spurði ég sjálfan mig; hvernig verður nú þessi upplýsingafundur. Já, og hvernig varð hann?

Þetta varð besti upplýsingafundur sem ég hef haft í Vornesi í þau 16 ár sem ég hef unnið þar. Að ég spurði sjálfan mig þessarar spurningar í upphafi kom til af því að þarna var saman komið fólk af ólíkum þjóðernum og með ólík trúarbrögð. En þvílíkar manneskjur sem allar stefndu að sama markmiði og sýndu hver annarri svo einstakan skilning og hlýju. Mér þótti vænt um þau öll að þessum fundi loknum og ég átti virðingu þeirra allra. Ég hef oft áður haft fólk af ólíkum þjóðernum á þessum fundum en aldrei áður að hver einast einn var af erlendu bergi brotinn. Það er mikið til af góðu fólki.

Já, það er mikið til af góðu fólki og það eru góðir sumardagar og mikið jákvætt að upplifa um þessar mundir. Við sjáum betur og betur eftir því sem líður á sumarið hvernig skógurinn okkar er að þakka fyrir þá umhyggju sem við höfum reynt að sýna honum.


Í fyrra talaði ég um það við hann Pál bróður minn hversu stór blöðin gætu orðið á hlyninum. Ég held að Páll hafi orðið hálf hissa á þessari lýsingu minni. Rétt fyrir dimmumótin núna í kvöld bað ég Valdísi að koma út og hjálpa mér. Hún heldur hérna um stilkinn á einu meðal stóru laufblaði af hlyn og stærðina getum við því miðað við hendina á henni.


Hér heldur hún í grein á álmi sem ég klippti niður árið eftir að við keyptum Sólelli þar sem ég hélt að þetta væri ösp. En álmurinn gafst ekki up og fór að vaxa á ný og nú er hann orðinn svo stór að hann nær aðeins upp fyrir það sem myndin spannar. Hann er orðinn nokkrar Valdísir á hæð. Svona eru trén farin að fylla upp fyrir þá nöktu stofna sem misstu allar neðstu greinarnar sínar vegna þess að greni og reyniviður uxu allt of þétt innan um bjarkir og eikur áður en við komum. Það eru til gríðar há tré í Sólvallaskóginum, en sem sagt, þau eru of nakin að neðan af fyrrnefndri ástæðu. Árið sem við verðum 75 ára og höfum opið hús allt sumarið verður þetta orðinn afar fallegur skógur og með afar háum trjám.


Svo vex eitthvað innan húss líka. Hér eru komnir upp nokkrir skápar og bókahilla í nýjasta herberginu á Sólvöllum. Hér gafst rétt einu sinni ástæða til að ganga nokkur skref aftur á bak þegar síðasta hurðin var komin upp og virða fyrir sér glæsibraginn. Svo kom nokkuð óvænt í ljós. Við settumst á stóla beint á móti skápnum og tókum þá eftir því að í speglinum sjáum við nánast of vel heim til nágrannanna sunnan við ásamt fallegum trjágróðri.



Kommentarer
Auja

Þetta er nú aldeilis orðið glæsilegt hjá ykkur, það mun ekki "væsa" um gestina ykkar þarna

Bestu kveðjur í Svíalandið góða

2011-07-05 @ 12:18:06


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0