Dagurinn byrjaði með blíðviðri

Það er þriðjudagurinn 19. júlí og dagurinn byrjaði með blíðviðri og svo hélt bara blíðviðrið áfram allan daginn. Útihurðin aðaldyramegin var galopin og útihurðin bakdyramegin var galopin og það skelltist ekki hurð. Hannes litli tipplaði fram og til baka, út og inn, talaði og hló, rétti út hendi og fékk hendi á móti. Við vorum að sýsla við frágang allan daginn. Við Rósa skruppum til Örebro og sóttum hluta af búslóðinni í geymsluhúsnæði. Svo stilltum við upp kommóðum, settum stóla á sinn stað, settum saman gamla furuskrifborðið, hengdum upp myndir og málverkið af Lómanúp og Öræfajökli og Rósa og Pétur yngdu upp tölvur og tölvukerfi. Hannes hélt áfram að leika sér í kringum okkur og veðrið þreyttist ekki á að láta vel að okkur. Húsið breyttist í ennþá meira heimili eftir því sem leið á daginn.

Þegar leið að kvöldmat grillaði Pétur kjúklinginn og Valdís og Rósa sinntu meðlætinu en ég hélt áfram við að koma fyrir myndum. Svo borðuðum við við tréborðið vestan við húsið og dáðumst að veðrinu og útsýninu og hurðirnar héldu áfram að standa opnar. Hannes fékk að fara inn í bílinn þar sem hann undi sér vel, fór úr skónum, stóð upp í  bílstjórarasætinu og þótti gaman að halda með annarri hendinni um stýrið en skipta um rásir á tækinu með hinni. Nokkra kólómetra í suðri sáum við himininn verða dekkri og dekkri en rigningin lét okkur vera þar til við vorum búin að sitja nægju okkar við tréborðið. Svo kom rigningin en varð minni en reikna mátti með.

Svo kom miðvikudagurinn 20. júlí og hann byrjaði á sama hátt og gærdagurinn. Það var í raun enginn munur annar en sá að við aðhöfðumst annað en í gær. Við Valdís skruppum inn í Örebro ýmissa erinda, Hannes undi sér með mömmu og pabba og skrapp með þeim í kaffi til nágrannanna. Eftir að við Valdís komum heim fórum við Pétur í að fúgufylla forstofugólfið og það er ábyrgðarmikið fagverk sem við unnum af nákvæmni þar til ég fór á AA fund í Fjugesta og eftir það annaðist Pétur verkið einsamall.

Í gær sagði Valdís að það þyrfti að slá lóðina en ég sagði að lóðin yrði ekki slegin þann daginn. Í dag sagði hún að hún ætlaði að slá lóðina og svo hvarf hún út og sláttuvélin var komin í gang örstuttu síðar. Rósa var í hálfu starfi við að halda Hannesi frá forstofugólfinu og svo undirbjó hún kvöldmatinn. Meðan ég var á AA fundinum borðuðu þau kvöldmatinn við tréborðið úti. Jarðarberin voru hins vegar borðuð eftir að ég kom heim. Það rigndi ekkert seinni partinn þó að það hefði hálf partinn verið gert ráð fyrir því. Norræn hreystitré héldu áfram að vaxa af fullum þunga í hlýindunum eftir sæmilegar rigningar undanfarið. Laufkápur þeirra hafa líka orðið þéttari og grænni eftir þetta regn. Suðlægari tré eru hins vegar gætnari og það er að sjá að þau séu búin að skila ársvexti sínum, einkanlega hvað hæðina snertir.

Fimmtudagurinn 21. julí byrjaði eins og afrit af fyrri dögum með veðurblíðu, opnum útihurðum á báðum hliðum og löngum morgunverði. Satt best að segja finnst mér að þessi veðurblíða sé búin að standa yfir frá því um mánaðamótin apríl-maí með einhverjum dögum sem voru eitthvað kaldari en þeir eru svo fáir að þeir eru gleymdir. Við sýsluðum sitt af hverju að vanda og svo miki er víst að það er búið að fúgufylla allt sem þarf að fúgufylla. Mest öll lóðin vestan skógar, tæpir 2000 m2, er ný slegin sem þýðir að Valdís er búin að leggja langa vegalengd að baki í gær og í dag.

Hannes hefur fengið góða umönnun sem og alla aðra daga og hans góða skap og skemmtilegu uppátæki geta ekki annað en glatt viðstadda. Hann fékk líka að fara með pabba og mömmu í ferðalag til Kumla í dag þar sem er að finna sérstaka skóverslun og hann fékk nýja skó til næstu missera. Eitt af hans uppátækjum í dag varðaði skó -eða öllu heldur að vera ekki á skóm, og hann fékk mig til að gera stórkostlega tilraun. Ég nefnilega fór með ruslapoka út í tunnu sem er hinu megin við veginn. Það sá Hannes og þegar ég kom til baka vildi hann endilega fara sömu leið með dúkkukerruna sína. Svo lögðum við í hann, Hannes, pabbi hans og afi gamli ég.

Hannes hafði verið berfættur að leika sér á grasinu inn á lóðinni og berfættur fór hann út á götu. Þegar hann var búinn að koma við hjá ruslatunnunni sem vakti ekki svo mikið aðdáun hans lagði hann af stað suður veginn. Og berfættur var hann og virtist hreinlega ekki taka eftir því. Ég minntist sumardaga fyrir 60 árum þegar við gerðum slíkt hið sama á Kálfafelli og nú snaraðist ég úr skónum. Ég hreinlega kveð fyrir að setja fyrri fótinn niður í mölina en viti menn- það gekk, en mikið varð ég að fara varlega. Svo gengum við eina 100 metra suður götuna og hluta þeirrar leiðar til baka, Hannes hlaupandi öðru hvoru með kerruna sína og ég farandi fetið af mikilli gætni. Svo ótrulegt sem það nú er, þá var eins og gömlu eiginleikarnir að ganga berfættur á möl væru enn þá fyrir hendi og þegar þessari malargöngu lauk gekk mér betur en þegar hún byrjaði.

Hann Kristján Ivar sjúkranuddari í Reykjavík réðist oft á yljarnar á mér og fann þar marga auma punkta. Steinarnir í málarveginum voru álíka flinkir og Kristján við að finna þessa aumu bletti. Ég er búinn að fara í yljanudd í dag. Ég er viss með að prufa þetta á morgun líka. Þvílíkt skemmtilegt uppátæki hjá drengnum að fá mig til að gera þessa tilraun.

Í fyrra var Hannes afar viljugur við að fara út í skóg og tína upp í sig bláber. Núna eru næstum engin bláber en hins vegar mjög mikið af hindberjum. Við fórum út í skóg í dag og gáfum honum nokkur hindber sem hann tók úr lófa okkar og henti á jörðina. Við héldum að honum þætti hindber vond en að lokum setti hann  eitt þeirra upp í sig og viti menn; hann stein hætti að henda þeim á jörðina. Hann vildi alls ekki hætta að borða hindber en svo fór þó að lokum að við létum hann hætta að borða þau. Það kæmi mér ekki á óvart að hann stingi upp á skógarferð á morgun.

Hér er dæmi um það hvernig dagar líða á Sólvöllum. Fyrr á árum reyndi ég að gera daga stórbrotna en tókst illa til. Í dag eru flestir dagar stórfenglegir -þeir bara verða það. Eigið góðar stundir.

Ps. Við borðuðum við tréborðið í dag líka, einn daginn enn í þessu dásamlega sumarveðri. GB




Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0