Ég var bara fyrir

Hálfa daginn höfum við Valdís verið í Örebro að ljúka ýmsum erindum og eins að kaupa ýmislegt varðandi húsið. Svo var ég klipptur snoturlega enda fer ég í vinnu á föstudag og verð að vera góð fyrirmynd. Það teygist á þessum innkaupum varðandi húsið en einhvern tíma lýkur því. Þegar við vorum komin heim og vorum buin að fá okkur miðdegiskaffi byrjaði ég á köppunum undir efri skápana í eldhúsinu. Skömmu eftir það byrjuðu aðrir fjölskyldumeðlimir að undirbúa kvöldmatinn. Í kvöldmat eigum við að fá Pétursgrillaðar lambakótilettur ásamt ýmsu meðlæti, svo sem kús kús sem ég veit ekki hvað er annað en að það er gott til matar og það fer vel í maga.

En málið var það að þegar matargerð var hafin við eldhúsbekkinn og ég var þar að smíða, þá varð ég ekki svo vinsæll þar. Ég var bara fyrir. Það er þess vegna sem ég er sestur við tölvuna og klukkan er bara á sjöunda tímanum. Ég mun þó ekki ljúka við þetta blogg fyrr en seinna í kvöld, eftir kvöldmatinn og eftir að hafa smíðað aðeins meira í eldhúsinu. Það eru aðeins tvö atriði eftir í eldhúsinu, það eru þessir kappar og svo táskotin undir eldhúsbekkina.


Nú er ekki búið að borða kvöldmatinn þegar ég er að skrifa þetta þannig að ég gríp hér til myndar frá því í fyrradag, laugardag, þegar hún Ingigerður kom í heimsókn. Hún er vinkona Rósu og fjölskyldu, fædd í Hälsingland, búsett í Stokkhólmi og með sumarbústað í Dölunum, en hún var einmitt að koma þaðan þegar hún kom hér við. En þarna er loksins mynd af margnefndu tréborði þar sem flestar máltíðir dagsins eru bornar fram og innbirtar. Þar verður líka kvöldmatur dagsins borðaður eftir nokkrar mínútur. Það er ekkert merkilegt við þetta tréborð annað en það að sænska sumarið gefur okkur möguleika á að borða þar nánast hvenær sem er þegar okkur bara físir eða dettur í hug.


Við erum ekki bara búin að hafa hér gesti, við erum líka búin að hafa hér aðstoðarfólk sem ekki lætur sér allt fyrir brjósti brenna. Eitthvað hef ég talað um það undanfarið en enga mynd birt sem staðfestir þetta. Hér er Pétur að flísaleggja forstofugólfið fyrir síðustu helgi. Þetta eru vel valdar flísar á forstofugólf -eða hvað?


Og hér lætur hann eftir sér að líta upp frá flísalagningunni í eldhúsinu. Það eru fínar flísar hér líka þykir okkur. Bæði flísarnar í forstofunni og þessar í eldhúsinu hreinlega duttu upp í hendurnar á okkur fyrir nokkrum vikum síðan.

---------------------------------------------------

En nú er löngu búið að borða kvöldmatinn og það er komin á kyrrð í húsinu. Ég smíðaði ekkert eftir kvöldmatinn eins og til stóð en ekki er þó hægt að láta eitt kvöld líða án þess að stússa svolítið. Svo töluðum við um ferðalög í Noregi, Sognfjörðinn, fólk sem við þekkjum í Noregi og ýmislegt fleira. Svo verð ég að enda þetta blogg með mynd af tveimur athafnasömum mönnum.


Það er ekki slæm myndin af þessum strákum sem báðir vinna þarna að sínu og láta ekkert trufla sig

Ég get orðað það svo að þetta sé dagbókarfærsla dagsins, færsla sem þeir geta lesið sem dettur í hug að taka sér stund til þess. Það er vel hægt að láta það kyrrt liggja sem ég segi í bloggunum mínum og venjulegra að fólk geri svo. Hins vegar verða það alltaf all margir sem heimsækja bloggsíðuna og sannleikurinn er sá að mörgum líkar vel að lesa um einfalt, venjulegt líf. Líf okkar er afar einfalt og engin afrekaskrá sem ég get miklað mig af. Það klæðir mig líka best að reyna ekki að vera annað en það sem ég er. Mér heyrist líka á Óla Lokbrá að hann sé á sama máli og hann er farinn að toga ákaft í mig. Ég heyri líka fyrir aftan mig svefnhljóð frá fiskimannsdótturinni frá Hrísey sem eitt sinn lagði land undir fót til að prufa nýjar víddir í lífinu. Hún er enn á þessu ferðalagi með mér. Fyrir all nokkrum árum vorum við stödd langt upp í snarbröttum brekkum í Sognfirðinum í Noregi og undruðumst mikið það sem fyrir augun bar. Við töluðum um þetta fyrr í kvöld og okkur langar að fara aðra ferð og kanna betur þessar ótrúlegu brekkur. Góða nótt.



Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0