Fallegt kvöld

Sólin skín á vesturhliðina á Sólvöllum og á skógarhliðina sem að húsinu veit. Það er kyrrt hér í sveitinni og gaukurinn er kominn í gang með sitt go-gú, go-gú og nokkrir þrestir leita sér fæðu í grasinu. Ég auðvitað ætti að vera úti og gera ekki neitt annað en bara vera þar en ég reiði mig á að það komi fleiri svona kvöld.

Í dag keyptum við parket á eitt gólf og eina hurð. Annars hef ég tekið því nokkuð rólega í dag. Ég nefnilega sjúkraskrifaði mig að hluta um hádegið. Í nótt var allur vinstri fóturinn í uppnámi og verkjaði frá tám og upp í nára. það var því dapurt með svefn. Ég var farinn að velta því fyrir mér að ég mundi ekki geta unnið í Vornesi þær afleysingar sem ég er búinn að lofa og ég sá fyrir mér að vinna við Sólvelli mundi gufa upp í ekki neitt. Ég þyrfti líka á vinnunni i Vornesi að halda til að fjármagna framkvæmdir á Sólvöllum. Það væri ekki upp á marga fiska að flytja lífeyrisgreiðslurnar á hálfvirði til Svíþjóðar, það mundi ekkii fjármagna mikið. Ég kom fram til að ég yrði að reyna að flýta mjaðmaaðgerð sem reiknað er með einhvern tíma eftir sumarmánuðina. Ekki voru þetta björgulegar hugsanir á tímabilinu eitt til þrjú í nótt. Svo velti ég mér hring eftir hring í rúminu í leit að bærilegri stellingu sem ekki fannst. Klukkan hálf fjögur byrjaði ég á æfingunum sem sjúkraþjálfarinn Elías í vestmannaeyjum kenndi mér í vor og þar að auki gerði ég líka æfingarnar sem hann René sjúkraþjálfari í Örebro hefur kennt mér. Ónotalegt var að byrja og vinstri fóturinn var rosalega þungur að lyfta honum en það smá lagaðist eftir því sem á æfingarnar leið. Eftir næstum 40 mínútur að þessum rúmliggjandi æfingum fannst mér sem ég mundi geta sofnað á ný. Smám saman tókst það líka að sofa allt að einn tíma í einu. Það var þó enginn svefn sem maður fær þegar Óli lokbrá er með í spilinu. Eftir tólf tíma í rúminu fann ég allt í einu að ég hafði endurheimt krafta mína og lífið var gott á ný.

Að loknum síðbúnum morgunverði byrjaði ég gætilega vinnu við smíðarnar í svefnherberginu. Ég velti fyrir mér þessu ástandi mínu en var þó miklum mun bjartsýnni en liðna nótt. Svo reiknaði ég út hvað ég hafði verið lengi við smíðar í gær og kom fram til að það var ekki undir tíu tímum og þar að auki hafði ég verið á fullri ferð allan tímann. Ég vissi um fólk sem er sjúkraskrifað 25 %, 50 % og jafnvel meira og þetta er gert vegna þess að fólkið hefur ekki þá heilsu og kraft sem til þarf til að vera full vinnandi og þá er átt við átta tíma vinnu á dag. Ég bíð eftir mjaðmaaðgerð og er 67 ára og held svo að ég geti unnið við smíðar tíu tíma á dag. Hvenær verð ég fullorðinn? Að vísu aldrei í þeim skilningi sem ég nota í þessu tilfelli en kannski varð ég einum þumlungi fullorðnari í dag þegar ég sætti mig við að í minni stöðu þarf ég ekki að vera að hamast við smíðar tíu tíma á dag. Í dag hef ég verið sjúkraskrifaður svo sem 30 % og ætla að vera það á morgun líka.

Ég hef svo sem enga ástæðu til að opinbera málefni mín á þann hátt sem ég geri til dæmis í þessu kvöldbloggi mínu. En ekki eru þetta heldur nein leyndarmál og bloggið er eina dagbókarfærsla mín. Í nótt ætla ég að sofa í félagsskap Óla lokbrár og vakna hvíldur á skikkalegum tíma á morgun. Valdís steikti svo gott lambakjöt og ég er vel á mig kominn. Sólin er sest en kyrrðin úti er fullkomin.
Góða nótt


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0