Kötlugos 1918, myndir

Ég heyrði oft talað um Kötlugos sem barn eða unglingur, eða svo finnst mér alla vega. Nú hefur verið talað um það í mörg ár að það megi vænta Kötlugoss og ég hef oft velt því fyrir mér á þessum árum að ég veit nákvæmlega ekkert um Kötlugos og ekki einu sinni gosið 1918. Það má þó geta þess að ég var "jafnvel" mjög nálægt einu gosi í Kötlu en ég kem að því í lokin. Ég hef leitað að lesefni um Kötlu á netinu og er þar af miklu að taka en ég hef þó aðeins lesið eitt örlítið brot enn svo lengi. Hins vegar fann ég nokkrar myndir og ég hef grun um að fólk hafi ekki séð mikið af myndum af Kötlugosum og ég ætla að birta þessar myndir á blogginu.

Kötlugos 1918
Það stendur greinilega neðst á þessari mynd að hún er frá gosinu 1918. Myndin er lítil og ljósmyndatæknin 1918 lítilfjörleg miðað við þá tækni sem fólk beitir við myndatökur af gosinu í Fimmvörðuhálsi með aðdráttarlinsum og mikilli ljósnæmi. En hvað um það, að horfa á þennan öskumökk kemst maður ekki hjá því að skynja að þarna er um að ræða mökk sem er afskaplega mettaður af þéttum efnum. Gosið hófst 12. október.

Kötlugos 1918
Og þó að þetta sé sama mynd sem búið er að lita býst ég við að það sé gert af kunnáttu. Þessi mökkur er mun meira uggvænlegur en sá fyrri. Næsta Kötlugos á undan þessu átti sér stað 1860, sjö árum áður en hann Stefán Þorvaldsson afi minn fæddist. Það var því engum í fersku minni hvernig Kötlugos litu út. Það segir um tjón af gosinu 1918 að það hafi verið óverulegt og áttu einungis nokkrir fótum fjör að launa.

Það er mikill endemis kraftur í þessu gosi ef marka má myndina.
Þessi mynd er alveg skuggaleg og þó að hún sé ekki merkt Kötlu er hún í hópi mynda af Kötlu á netinu. Ég get að vísu ekki hlaupið hratt nú á tímum en ég held að ég mundi fjárfakornið reyna það ef ég væri nálægt svona ófögnuði þegar hann ryddist upp úr jörðinni. Það er eins og reyk- og öskumekkirnir á Fimmvörðuhálsi séu mikill barnaleikur hjá þessum mekki.

Vorið 1955 var ég á leið heim af sundnámskeiði í Seljavallalaug. Það var auðvitað Ford rúta með gírkassahljóði frá Brandi Stefánssyni sem þá annaðist áætlunarferðir austur um Suðurland og bílstjórinn var Jóhannes sonur hans, Jói Brands. Á þeim árum hlykkjaðist vegurinn niður austanverða Höfðabrekkuheiði og nákvæmlega þegar niður var komið tók við gamla brúin yfir Múlakvísl. Ég var mikið kvefaður eftir sundnámskeiðið en samt var þetta ferðalag mikið ævintýri og skemmtilegt. Ég tel mig muna vel eftir ferðinni niður heiðina og eins yfir mjóa brúna. Þegar komið var yfir brúna tók við nokkur aflíðandi brekka upp á sandinn austan megin og þegar rútan var komin upp þessa brekku og út á sandinn kom á móti okkur fólksbíll að austan.

Síðan er ekkert meira um ferðina að segja fyrr en rútan var að keyra heim að Klaustri að þá tók fólksbíllin fram úr rútunni og stoppaði fyrir framan hana. Bílstjórinn kom með miklu fasi að rútunni og það var eitthvað meiri háttar svakalegt að segja frá. Rétt eftir að hann mætti okkur og kom að Múlakvísl var þar engin brú. Vegurinn bara endaði í jaðrinum á ægilegum leirlituðum vatnsflaumi og lengra komst þetta fólk ekki. Trúlega hefur fólkið í þessum bíl virt ósköpin fyrir sér um stund fyrst þau náðu okkur ekki fyrr en í heimreiðinni að Klaustri. Eftir þetta var Mýrdalssandur mikill farartálmi þar sem vatn flæddi víða um sandinn og lengi. Voru þá tíðar flugferðir austur yfir sand og lent mikið að mig minnir á flugvelli á söndum neðan við Foss á Síðu. Hertrukkar voru einnig fengnir af Keflavíkurflugvelli sem önnuðust hluta af samgöngunum.

Þetta var vorið sem ég varð 13 ára og fannst mér svolítið sem ég hefði orðið maður að meiri að lenda í þessari síðustu ferð um Höfðabrekkuheiði. Hátt í 30 árum seinna fór ég á Fólksvagen bjöllu til að skoða gamla veginn niður Höfðabrekkuheiði, og fór hann líka, og var þá allt ósköp líkt því sem minnið hafði sagt mér annað en það að engin var brúin. Að því er mér skilst er talið vafamál að þetta hafi verið eiginlegt Kötlugos. Ég hef hér haft lítils háttar eftir Ara Trausta Guðmundssyni.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0