Að höggva mann og annan

Hann var enginn útrásarvíkingur maðurinn sem dreginn var fyrir dóm í Stokkhólmi í dag, hann var bara venjulegur innanríkisdrullusokkur og hafði stolið milli sjö og átta miljónum SKR af Krabbameinssjóðnum og Rauða krossinum. Hann baðst afsökunar og þótti þetta hræðilegt! sagðist hafa fengið gullsótt. Ósköp var það lítils virði sú afsökunarbeiðni fannst mér og alla vega ekki tímabær fyrr en hann er búinn að borga til baka. Talið um gullsóttina hefði verið betra að láta kyrrt liggja.

Ég las í íslensku blaði í dag að vísindamenn telji líklegt að Ísland sé að ganga inn í eldgosaskeið sem geti staðið í áratugi. Einnig er þar haft eftir erlendu fagtímariti að að það sé aukinn órói í jarðskorpu Íslands. Hér hefur þetta líka verið í fréttum oft á dag í marga daga og hefur þá Katla verið efst á baugi. Birt var viðtal við íslenskan hóteleiganda í sænsku sjónvarpi í dag. Hann hélt þessu líka fram í viðtali við sænsku fréttamennina, að ef Katla gysi yrði það mikið heiftarlegra en gosið í Eyjafjallajökli.

Ég hef ekki verið sáttur við Ólaf Ragnar að undanförnu en nú hef ég þörf fyrir að verja hann. Mér skilst á öllu að nú sé hann skotinn niður bara fyrir það að vera Ólafur Ragnar og það að hann sagði við fréttastofuna BBC það sem er til umræðu um allan hinn vestræna heim. Hann ljóstraði ekki upp neinu íslensku leyndarmáli. Íslenskir vísindamenn hafa líka talað um þetta á sjónvarpsskjáunum hér ásamt hrjáðum bændum undir Eyjafjöllum. Hér er talað um að það hafi verið hættuleg þróun að leggja niður ýmsar ferjuleiðir og að það verði að auka afkastagetu járnbrauta. Hugsanlegt Kötlugos er hvati til þessarra hugleiðinga og þær umræður eru greinilega alveg bráð nauðsynlegar eftir flugsamgöngum undanfarna daga dæma.

Annars á ég ekki að vera að rífa kjaft en ég vil bara ekki vera með í að "að höggva mann og annan" eins og höfðinginn á Borg fyrir þúsund árum ef það er hugsanlega að ósekju. Mér finnst líka endilega að það hafi verið hóteleigandi sem álasaði forsetanum fyrir að kjafta frá íslenska leyndarmálinu til BBC, sami hóteleigandi og síðar talaði sjálfur fjálglega um hina voðalegu Kötlu við sænsku sjónvarpsmennina. Ég hlýt að vera voðalegur einfeldningur fyrst ég skil ekkert í þessu.

Vorverkin standa enn yfir á Sólvöllum þó að engin sé framleiðslan á þessu sveitasetri. Í morgun var jörð hvít þegar við litum úr um austurgluggann, en þegar við drógum frá suðurglugganum stuttu síðar var hún ekki lengur hvít. Það hefur verið rigning og slydda í dag og hænsnaskíturinn og blákornaáburðurinn hljóta að hafa runnið ljúflega niður í rótarkerfin. Á morgun er svo spáð níu stiga hita. Vorverkin eru gríðarlega skemmtileg þegar ellilífeyrisþeginn á frí vinnu og sannleikurinn er sá að ég hef ekki unnið einn einasta dag ennþá í þessum mánuði. Svo ljúft er lífið -þangað til á mánudag.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0