Vorverk

Þennan sunnudagsmorgun er sólin búin að skína glatt æði lengi en hér á bæ er sein fótaferð í dag. Það verður óvinur minn skattaskýrslan sem verður viðfangsefni dagsins. Í gær var það hins vegar útivinna. Þá lágu í valnum fjórar bjarkir sem ég hef talað um áður að við þyrftum að losna við, þrjár smá bjarkir og ein á miðjum aldri. En áður en við komumst að verki lagði Arnold bóndi dráttarvélinni sinni hér framan við og var hann með kerru fulla af birki, eldiviði sem hann var að flytja til viðskiptavinar. Stuttu síðar sátum við yfir kaffibolla og sandköku sem Valdís hafði bakað daginn áður. Svíar eru ekki vanir að borða sætt svo snemma dags og við reynum að halda okkur frá því líka en spjallstund er nú alltaf spjallstund. Við fengum okkur öll af sandkökunni.

Heyrðu, sagði Arnold, það hefur fallið all stórt grenitré við hjá mér rétt við landamörkin ykkar, viljið þið ekki bara hirða það. Það voru svo ójafnar á því greinarnar og það hefur ekki þolað snjóþyngslin. Jú, við ákváðum að taka höndum um þetta tré. Það var skiljanlegt að hann vildi ekki gera ferð út í skóginn á dráttarvél til að sækja eitt tré, enda er tré sem fellur á þennan hátt væntanlega sprungið eftir átökin og ekki nothæft sem byggingarefni. Fyrir okkur er þetta stutt ferð með nokkrar hjólbörur af niðurbrytjuðu greni.

Svo þakkaði Arnold fyrir kaffið og var á leið út. Þá barst talið að smíðum og þá varð Arnold svolítið eins og fuglahólkur svo að ég bað hann að bíða, ég ætlaði að sýna honum svolítið. Ég fór inn í svefnherbergið og niður í skúffu þar og dró upp teikningar. Þegar ég rétti úr mér aftur með teikningarnar í hendinni var Arnold kominn inn í svefnherbergið á eftir mér, rúmið óumbúið, sængurnar uppsnúnar og Arnold á skógarvinnugallanum sínum. Af þessu væri gaman að eiga mynd.

En svo skoðuðum við teikningar og Arnold lýsti hrifningu sinni. Þegar við verðum búin að fá svar frá byggingarfulltrúanum er ég viss með að birta þessar teikningar á blogginu. Eftir þetta byrjaði vinnan við að klippa greinarnar af björkunum. Stóru greinaklippurnar voru dregnar fram, valdís snaraði sér í vinnugalla og verkið hófst. Það er ekkert að fella tré og það er ekkert að brytja tré niður í eldivið, en það er hellings vinna við að hreinsa af greinar og koma þeim fyrir.

Eftir þetta fórum við inn til Örebro til að taka þátt í afmælishátíðahöldum í kirkjunni. Þar hittum við marga kunnuga og þar var margt skemmtilegt og fróðlegt í gangi og svo bauð kórinn upp á afar fallegan söng. Mat fengum við líka með forrétti og eftirrétti og kaffi. Hvað þetta var nú notalegt allt saman.

Hljóðir grannar fallnir í valinn
Jörð er lítillega farin að grænka, eiginlega ótrúlega lítið miðað við að hún kom ögn græn undan snjó. En nú er vor, skyrtuveður og glampandi sól síðustu daga. Undir austurglugganum beint fyrir framan við mig er ennþá eins fets djúpur snjór sem í vetur rann í miklu magni af þakinu. Það er ekki mikill skógur sem liggur þarna en greinarnar eru kannski hátt í eitt þúsund. Áfram nú Íslendingar á Sólvöllum -byrja.

Fiskimannsdóttirin frá Hrísey greip vinnugallan í snatri og réðist á greinarnar.
Ég get látið ykkur vita að ég var ekki einsamall við þetta verk. Þegar ég var búinn að gera það sem hægt var að gera með klippunum kom fiskimannsdóttirin frá Hrísey og kom röð og reglu á hlutina á ný.


Kommentarer
Guðmundur Ragnarsson

Sæl verið þið, dugnaðarhjón.

Það er sennilega nóg að snúast hjá ykkur á búgarðinum við vorverkin. Mér sýnisst af lýsingunni og af myndunum að náttúran se á svipuðu róli hjá ykkur og hér á suðurlandinu. Flestir eru farnir að slá því föstu að nú sé vorið komið hér eftir dálitla umhleypingatíð. Ojæja, í þessum innslegnum orðum bylur slydduél á glugganum...en þetta er að koma. Alltaf gaman að lesa og bera áfram norður í eyjuna fregnir af ykkur, þó ég kommenti stopult.

Hafið það sem best og gangi ykkur vel með skattmann :o)

Kveðja,

Guðmundur

2010-04-11 @ 17:04:36
Guðjón

Guðmundur, þú þarft ekki að öfunda mig yfir því að klára allt, stundum er nefnilega ekki svo einfalt að komast af stað. En sannleikurinn er sá að þegar ég loks kemst af stað fæ ég áhuga fyrir að klára og stundum verður verkefnið virkilega skemmtilegt.



Svo er það svo að vorið er komið hér. Við fáum afar meinlaus vorhret. Í dag hefur grænkað töluvert enda skyrtuveður allan daginn. Haltu svo áfram að bera kveðjur til Hríseyjar.

Kveðja,

Guðjón

2010-04-11 @ 20:33:16
Valgerður

Hér lét vorið sannarlega á sér bera í dag því kindin hans Jónatans bar afar fallegu lambi. gimbur og á Jónatan þá orðið tvær kindur. Í þessum töluðum orðum er hann að vantna fénu sínu og bera brauð í Nót (það heitir mamman) það verður bið á því að Tinna (það heitir gimbrin) geri sér gott af brauðinu. Pabbi minn, gangi þér vel við vorverkin og skattinn.

VG

2010-04-11 @ 22:30:19
Valgerður

það pirrar mig smá að geta ekki lagað þegar maður sér að ásláttarvillur hafa ratað inn í textann en mér væri hollast að lesa yfir áður en ég sendi

2010-04-11 @ 22:32:14
Guðjón

Ég var að kommentera hjá Jónatan á Feisbókinni og óska honum til hamingju. Ég skil vel að hann sé ánægður bóndi núna. Ég kannast við þetta með villurnar en er næstum hættur að láta það svekkja mig. Það er tímafrekt að þaullesa yfir. Á morgun verða trén brytjuð niður og flutt á betri stað. Skattaskýrslan er eiginlega tilbúin í hendurnar á endurskoðanda þannig að ég hef látið of mikið yfir erfiðleikunum. En samt verða vissir hlutir að vera fyrir hendi svo að hægt sé að senda og sumt viltist af leið í flutningunum.

Kveðja,

pabbi

2010-04-11 @ 22:49:27


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0