Hin miklu vorverk

Ég hef mikið talað um vorverk að undanförnu, eitthvað í bloggi, eitthvað í e-pósti, eitthvað í smsum og eitthvað í símtölum. Það er eins gott að við höfum ekki 300 ær að hugsa um líka og sauðburð framundan. Þá yrðum við greinilega að hafa nokkra vinnumenn. En vorverkin hjá okkur eru ekki lífsnauðsynleg í þeirri merkingu sem fólk leggur í þá hluti, en þau eru okkur mikilvæg eigi að síður. Þungur vetur jók á vorverkin þar sem snjór braut niður smátré og svöng spendýr í ólíkum stærðum lifðu á gróðri sem við kannski ætluðumst ekki til að væri étinn. Því þurfti á útmánuðum að klippa til mikið af sköðuðum smátrjám, jafnvel að binda upp og í sumum tilfellum hreinlega að fjarlægja og setja nýtt í staðinn. En við erum ekki ein í heiminum og ferfættu nágrannanna viljum við þrátt fyrir allt hafa kringum okkur.

Alparós í sorg
Hér gefur að líta alparós, hressilega stóra. Hún var þriggja metra há og fjórir metrar í þvermál. En illa er hún farin af snjóþunga og hún er ekki þriggja metra há lengur. Haugurinn næst á myndinni er það sem var svo brotið að það varð að fjarlægja. Að sjá þarna megin frá er alparósin ekki sjálfri sér lík lengur en við erum nú búin að gera samkomulag við hana um að ná sér eftir þetta áfall. Bláa yfirbreiðslan er dæmi um hvernig hlutirnir geta litið út þegar þeim er ósmekklega fyrir komið á öfugum stað. Það verður eitt af vorverkunum að fjarlægja þennan voða.

Alparósin ber harm sinn vel
Frá götunni séð ber alparósin harm sinn nokkuð vel. Áburður og alúð munu hjálpa henni að komast á strik aftur. En sjáið bara, þó að ég reyndi láta bláu yfirbreiðsluna ekki sjást á þessari mynd, þá sést hún samt. Þetta er hreina umhverfisslysið

Siv og Alma, Siv byggir og Alma útbýr sósu
Þarna eru þær Siv og Alma. Mitt í vorverkunum komu þau nágrannarnir, Lars og Alma, yfir til okkar og buðu upp á kaffi í sólinni. Þær systur og foreldrarnir Stína og Lars eru góðir nágrannar. Við gætum satt best að segja verið langamma og langafi þeirra systra, en þau eru öll svo afskaplega elskuleg í okkar garð. Annars eigum við bara góða granna hér.

Alma kom með blöðrur til að gleðja afmælisbarnið
En hvað er nú þetta. Er kallinn orðinn eitthvað bilaður. Nei, ekki aldeilis. Þetta eru blöðrurnar sem hún Alma gaf mér þegar ég varð 68 ára.

Skógarsóleyjarnar eru farnar að gleðja með brosi sínu
Þegar við vorum á leið heim úr kaffinu hjá Stínu og Lars urðu þessar skógarsóleyjar á vegi okkar. Þær eru ekki ennþá farnar að þekja skógarbotninn en allt er á góðri leið þó að hitinn hafi verið undir meðallagi.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0