Vorylurinn tók okkur í faðm sinn í dag

Það var langt síðan ég hafði farið í Vornes þangað til í morgun, en þá var tími til kominn á ný. Klukkan rúmlega hálf sjö gekk ég út að bíl, setti í gang og gekk svo kringum bílinn með sköfuna og hreinsaði hélu af rúðum. Fyrst var það framrúðan og svo hliðarrúðurnar bílstjóra megin og svo gekk ég hvatlega aftur fyrir bílinn og beint á dráttarkrókinn. Ég leit með djúpu andvarði niður á buxnaskálmina og það sannaðist sem mig grunaði, ég hafði ekki sett hettuna á kúluna í fyrradag. Það var ljót smurolíuklessa á buxunum svo ég snaraði mér inn og skipti um buxur. Þetta voru aðrar buxurnar sem ég gerði óhreinar þennan fyrsta vinnudag í nær fjórar vikur. Við svona grínlaus tækifæri líður tíminn fljótt. Hitamælirinn í bílnum stóð á núlli en eitthvað í loftinu lofaði góðum degi. Ég kom í tíma í Vornes og á morgunfundinum hlógu vinnufélagar mínir að frásögn minni af buxnaævintýrinu þannig að eitthvað jákvætt hlaust af því að lokum.

Eins og lög gera ráð fyrir var fullt af alkohólistum í Vornesi og dagurinn var eins og hver annar venjulegur dagur á meðferðarheimili. Fimmtán mínútur yfir fjögur gekk ég út að bílnum veifandi lyklunum. Nú stóð mælirinn í 17 stigum. Á leiðinni heim flakkaði hann milli 17 og 18 stig og loftkælingin fór nokkrum sinnum í gang í fyrsta skipti á þessu ári. Víðirunnar voru á fullri ferð inn í grænu árstíðina, heggir voru farnir að breyta lit, haustsánu akrarnir voru grænir og aðrir akrar ný unnir, sléttir og fallegir. Ég sá fyrir mér vorið og snemmsumarið og ég spilaði á píanó með fingrunum á stýrinu. Það lá við að ég færi að syngja.

Þegar ég kom heim var þvottur á snúru, þriðji umgangurinn í dag. Valdís var búin að þvo báðar buxurnar sem ég gerði óhreinar í morgun. Hún hafði verið í essinu sínu í dag fiskimannsdóttirinn. Og hún hafði þurrkað af, skúrað og almennt verið á fullu mest allan daginn. Ég fór til að athuga með heggina bakvið galma kamarinn. Toppbrumin stóðu nú opin og hlynurinn var strax á eftir. Sírenan með græn brum og ör örlítil hrokkin blöð voru að brjótast fram á birkinu. Beykið sefur ennþá en brumin eru að túttna út og skógarsóleyjarnar þekja meira og meira af skógarbotninum. Brennisóley sá ég í gær þar sem var farið var að sjást inn í gula litinn. Fimm daga spáin á textavarpinu gerir ráð fyrir ellefu til fimmtán stiga hita og þá má reikna með að dagarnir verði líkir deginum í dag. Það er vor.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0