Konunglegur skítur

Í dag er ég búinn að klippa niður einhver hundruð plöntur hérna bakvið húsið þar sem um mikið offramboð er að ræða. Samt skil ég eftir talsvert, aðallega birki, eik, hegg og hlyn. En ég hef meðan á þessu hefur staðið undrast yfir því magni sem búið er að bíta ofan af. Að vísu er ég búinn að virða þetta fyrir mér síðan snjóa leysti en ég var bara svo hissa á því í dag hversu nærri húsinu þetta át hafði farið fram. En svo kom skýringin þegar ég fann elgsskít nokkra metra bakvið húsið. Þetta þýðir að ljóskastari sem er á gafli móti skóginum og kviknar á við hreyfingu hefur auðvitað farið að lýsa, en það hefur greinilega ekki haft áhrif. En auðvitað er það bót í máli eftir skaðann á einhver hundruð plöntum að konungur skógarins skeit bakvið húsið okkar. Auðvitað þurfti eitthvað af þessum plöntum að fara en svoleiðis vil ég gjarnan stjórna sjálfur. Hins vegar hefur enginn sagt mér að  ég hafi meiri rétt en elgurinn á því sem skógurinn býður upp á. En sem "maður" vil" ég taka mér þennan rétt.

Þar sem ég var þarna að hamast með klippurnar datt mér í hug næturnar áður en baðherbergið var tilbúið og ég fór út á nóttunni að sumri til á nærbuxunum og á stígvélum númer 46 til að pissa. Þá fundu dádýr upp á því að gelta aðeins út í skóginum og ég bókstaflega tókst á loft. Það þurfti ekki einu sinni dádýr til. Þegar froskur hoppaði við hælana á mér í næturrökkrinu bókstaflega kólnaði ég upp áður en ég áttaði mig á því hvað þetta var. En hugsið ykkur ef elgur hefði allt í einu þefað af herðablöðunum á mér, hvað hefði þá orðið af mér. Þegar mér datt það í hug fór ég að hlæja aleinn sitjandi á trjástupp.

Brumin á heggnum eru orðin græn og aðeins byrjuð að opnast. Einnig á sýrenunni. Heggur og sýrena blómgast með stuttu millibili og tala menn um vikuna milli heggs og sýrenu. Það er að segja vikan milli þess að heggurinn er í blóma og þangað sýrenan blómstrar. Víðitegundir eru líka að laufgast og önnur brum eru farin að þrútna og jafnvel að fá á sig ögn grænan blæ.

Gosfréttir og umræður halda áfram í sænska sjónvarpinu. Fréttamaðurinn sænski sem svo oft sendir féttir frá New-York, Jerúsalem, London, Moskvu eða einhverjum öðrum stórstað á þessari jörð stóð allt í einu í öskumekki undir Eyjafjöllum og sat furðu lostinn í helikopter yfir Eyjafjallajökli. Hópur sérfræðinga ræddi eldgos og áhrif þeirra og bakgrunnurinn var gosmökkurinn íslenski. Bogi Ágústsson svaraði spurningum um sálarró Íslendinga þegar undirheimar æsa sig. Þannig gengur lífið og nú er kominn háttatími á Sólvöllum


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0