Aumingja ég

Þegar ég er spurður hvernig ég hafi það svara ég að ég sé hraustur eins og stráklingur og hressari en en ég hef verið í áratugi eða ég veit ekki bara hvað. Í gær gerði ég áætlun um að fara út sæmilega snemma og hreinsa frá sýrenurunnunum og bæta síðan á þá skít og mold. Hvað er að fara sæmilega snemma ræði ég ekki frekar. Síðan ætlaði ég að stilla af ákveðinn hlut á baðinu og að þessu loknu ætlaði ég að fara í skattaskýrsluundirbúning. Þetta með skattaskýrsluna er það leiðinlegasta sem ég geri allt árið. Það var hátíðisdagur að losa kamarfötuna í rotþróna miðað við að gera skattaskýrslu. Nú er enginn kamar lengur þannig að ég get ekki afsakað mig með því að ég verði að losa fötuna, það er ekkert annað að gera en að fara í árans skattaskýrsluna.

Að borða morgunverð er eitthvað það besta sem ég geri flesta daga. Þegar ég var búinn að finna til morgunverðinn og setja heitt te á matborðið fór hann Lars eldri framhjá á fergusoninum sínum með skúffuna aftan á, svona skúffu eins og Hríseyingar nota á dráttarvélarnar sínar þegar þeir skreppa niður að ferju eða í búðina. Í skúffunni hafði Lars vegamöl.

Þá var ekki annað að gera en snúa sér að vegagerðinni. Ég lagði morgunverðinn til hliðar og klæddist stígvélum og vinnujakka og tók með mér derhúfu og vinnuvetlinga. Við ætluðum að holufylla malarveginn heim til okkar af aðalveginum og það er þannig að þegar einhver einn tekur af skarið og byrjar, þá koma venjulega aðrir á eftir. Ég skálmaði síðan á eftir Lars með skóflu og gekk rösklega. Þegar ég tók fram úr Stínu nágranna hafði hún orð á því að henni hefði fundist sá sem kom á eftir henni hefði haft svo létt og snaggaralegt fótatak. Þetta gladdi mig svo að ég gleymdi því að vinnudagskrá dagsins hefði hrunið til grunna um leið og ég sá Lars fara framhjá á gráa Fergusoninum.

Síðan slóst Lars yngri í hópinn og Per tróð fram með garðhrífu, breiða skóflu og sígarettu í munnvikinu. Per er sá eini í þessum hluta Krekklingesóknar sem reykir. Nokkru síðar kom svo Lennart smiður og ellilífeyrisþegi og var nú vegagerðarhópurinn veglegri en nokkru sinni fyrr síðan við Valdís komum á svæðið árið 2003. Segi ég nú ekki meira af vegagerð fyrr en að um tveimur tímum síðar var verkinu lokið. En það var ekki nóg með það, mér var eiginlega öllum lokið líka.

Ég fór heim, hitaði nýtt te og hófst þar með morgunverður minn. Valdís var þá byrjuð á meiri háttar matargerð og útbjó það sem við köllum Kjötkökur Valdísar og eru nú nokkrar máltíðir af þessu tilbúnar í frystinum. Ég ætlaði að hvíla mig aðeins í djúpum stól eftir morgunverðinn en ég hreinlega steinsofnaði. Þegar ég vaknaði af værum blundi var ég kominn með skelfilegar harðsperrur og varð að viðurkenna að ég hef lifað full þægilegu lífi undanfarna mánuði. Að flytja hefur bara verið árans dútl með hluti fram og til baka og hefur ekki reynt á mig og vinnan í Vornesi hefur heldur ekki stælt líkamann. Nú verð ég að taka á honum stóra mínum enda mikil vorverk og byggingarvinna framundan.

Vinnunni við runnana er lokið og þeir munu þakka fyrir sig á næstunni. Það er spáð upp í 14 og 15 stiga hita næstu daga. Vinnunni á baðinu er slegið á frest til morguns ásamt skattaskýrslugerðinni. Að loknu þessu bloggi ætla ég að lesa mér svolítið til um Költugos. Kannski hafnar það á blogginu líka ásamt myndum sem ég hef fundið af Kötlu gömlu. Ég býst við að segja áfram að ég sé hraustur eins og smástrákur enda líður mér betur en á mörgum liðnum árum. Sumir segja meira að segja að ég sé orðinn svo spengilegur og þegar Guðjón frá Kálfafelli heyrir að hann sé spengilegur verður hann glaður. Hér með er lokið dagbókargerð dagsins.



Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0