Umhyggjan, sorgin og hamingjan

Strax eftir að við höfðum borðað byrjaði mjög áhrifamikill þáttur í sjónvarpinu. Við fórum beina leið frá matarborðinu og að sjónvarpinu og frágangurinn fékk að bíða.

Fyrir einum átta til tíu árum horfðum við af kostgæfni á þáttaröð í sjónvarpi um andlegheit. Tveir menn voru leiðandi í þessum þáttum. Það var Martin, eldri maður og fyrrverandi biskup, og það var Tomas, prestur á fertugs aldri. Þeir voru oft glaðir, brostu, hlógu og gerðu svolítið að gamni sínu í þessum þáttum sínum. Martin og Tomas voru menn sem við tókum eftir, það einhvern veginn var ekki hægt annað. Þeir hurfu alls ekki þó að þáttaröðin tæki enda. Einhvern veginn voru þetta menn sem höfðun alltaf eitthvað að segja og það var athyglisvert að fylgjast með því sem þeir höfðu að segja.

Svo kvisaðist það út að næst elsti sonur Tómasar var mikið veikur. Hann hafði einhvern rýrnunar- eða hrörnunarsjúkdóm og var ekki hugað líf. En það nægði ekki með að þessi sonur væri veikur og ætti ekki afturkvæmt. Yngsti sonurinn var einnig byrjaður að sýna einkenni sama sjúkdóms. Síðan fréttum við að Jónas sonur Martins fyrrverandi biskups hafði fæðst með heilaskaða. Hann var dæmdur til að verða aldrei eðlilegur maður.

Kem ég þá aftur að þættinum sem við horfðum á strax eftir kvöldmatinn. Þessir tveir menn voru áhrifapersónurnar í þættinum og lýstu ótrúlega vel lífsreynslu sinni. Þeir eru vinir og það var greinilegt þegar við sáum þá í þáttunum fyrir mörgum árum að þeir voru þá þegar góðir vinir. Þeir skrifast mikið á og spyrja, spyrja kannski ekki til að endilega fá svör, heldur til að láta hvorn annan vita að spurningarnar séu fyrir hendi.

Í dag er eldri sonur Tomasar, sá sem varð fyrst veikur, dáinn. Hinn sem var tólf ára þegar þátturinn var unninn situr í hjólastól og er langt leiddur. Ég veit ekki almennilega hvernig hann hefur það, sagði Tómnas, en stundum finnst mér sem ég sjái skelfinguna í augum hans. Sonur Martins sem er orðinn maður á miðjum aldri býr ennþá hjá foreldrum sínum. Hann fæddist á aðfangadagskvöld sagði Martin frá og einnig að hann væri besta jólagjöfin sem þau hefðu fengið. Martin var heldur ekki viss um það hvernig syni hans liði en sagði að stundum virtist sem sonurinn skynjaði mikla fegurð. Hann var enn í foreldrahúsum. Þeir fóru oft í gönguferðir og það var vilji sonarins, hann lét vita þegar hann vildi ganga. Þeir leiddust hönd í hönd eins og faðir og lítill sonur sem er í þörf fyrir nálægð og styrk á göngunni. Hann sagði aldrei orð. Einhvern tíma verður Jónas einn eftir og ég held að það hafi verið hið þunga áhyggjuefni Martins og einnig að sonurinn gerði sér grein fyrir þessu líka. Að lokum verður hann einn eftir í fjölskyldunni.

Þessir tveir prestar voru ekki bitrir eða reiðir. En sorgin virtist hafa mótað þá og trúarlegar vangaveltur gefið þeim kraft. Þeir brostu aldrei í þættinum eins og þeir gerðu í þáttunum sínum í gamla daga. Spurningar þeirra hvor til annars og tilraunir þeirra til að ræða þær höfðu byggt þá báða upp. Það var mikið sem hafði byggt þá upp og ég vil bara segja, hvílíkur mannlegur og andlegur þroski. Kona Tómasar var líka þátttakandi í þættinum en kona Martins sást bara einu sinni.

Að þættinum loknum sagði Valdís; þetta var hrærandi. Já, það var svo hrærandi að mér fannst sem maginn í mér hefði hætt störfum og strengur af harðsperrum lá þvert yfir mig neðan við bringsbalirnar.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0