Elgur, elgur

Það er nú meiri róin sem hvílir yfir Sólvallaheimilinu. Veðrið er á batavegi og meira að segja sat Valdís úti og las bók á tímabili í dag. Fyrri partinn tókum við í algerum rólegheitum en eftir hádegi gekk ég út í skóg með exi, hæla og snæri eins og ég gerði í gær. Það var fljótlega eftir það sem Valdís fór út með bókina og það þótti mér ekki leiðinlegt.

Ég veit ekki almennilega hvað ég á að segja um veru mína í skóginum en ég gerði ýmsar uppgötvanir þar í dag. Þegar við felldum grenitrén í húsbygginguna hér um árið óttaðist ég svolítið að öspin mundi vaða yfir allt og verða óviðráðanleg. En sannleikurinn er sá að það er eikin sem er duglegust við að nema landið. Svo eftir því sem snjórinn hverfur sé ég bara meira og meira af elgsskít og ég finn líka fleiri og fleiri eikarplöntur sem elgurinn hefur notað sér til framfærslu. Ég sé fyrir mér hvernig það mundi líta út ef einir 200 fermetrar af skógarsvæðinu væru þéttvaxnir eikum sem væru svo sem tveggja til fjögurra metra háar. Það væri ekki leiðinlegt að vera á ferðinni snemma á morgnana og ganga inn í svoleiðis svæði þegar sólin væri á leiðinni upp og geislar hennar smygju gegnum laufþykkni hærri trjáa og niður á þennan ímyndaða eikarlund. Ég get lofað að það væri notaleg byrjun á degi.

En ef fram fer sem horfir núna verður það ekki nema ein eikarplanta af tíu eða svo sem mun komast til vits og ára. Hann Jónas nágranni okkar sagði mér í dag að fjórir elgir hefðu verið heimilisfastir hér í vetur. Hann hefur meira opið svæði bakvið húsið en við og sér því meira til þeirra. Við erum líka svo nýlega orðin heimilisföst hér og höfum minna fylgst með. Þrátt fyrir þetta er gaman að hafa þessi dýr svo nálægt en við verðum að læra að mæta því.

Á morgun verður mótorsögin tekin út og nokkur tré verða felld. Það er gott fyrir mig að segja það núna því að þá á ég erfiðara með að slá því á frest á morgun.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0