Páskar 2010

Nú eru okkar fyrstu páskar á Sólvöllum sem heimili. Við vorum seint á ferli í morgun, svo seint að við tókum morgunmatinn með okkur inn að sjónvarpi. Hugsið ykkur ef fólk mætti í kirkjuna með morgunverðinn sinn og sæti þar og muðlaði á kræsingunum undir messu. En svona getur það litið út á okkar heimili. Að hugsa sér!

Messan var reglulega fín. Hún var send út frá Luleå sem er eina 800 km fyrir norðan okkur í beinni loftlínu. Þetta var afar falleg messa og vandalaust að einbeita sér að því að horfa á hanna og hlusta. Hár og stæðilegur prestur með mjög fallega söngrödd þjónaði fyrir altari í byrjun en allt í einu birtist á skjánum yngri kona sem við giskuðum á að væri bæði frá Suður-Ameríku og Sri Lanka. Við komumst ekki að niðurstöðu um þetta enda skaðaði það ekki messuna. Hún steig í predikunarstólinn og þegar hún hafði talað um stund bað hún barnakór að koma fram og syngja um það sem hún hafði verið að tala um. Svo hélt hún áfram og hafði fallegan páskaboðskap fram að færa.

Nokkru síðar stóðu þau hlið við hlið, hún og mannlegi presturinn, og hún var ekki svo mikið minni en hann. Hún náði honum í eyra. Svo gengu þau fram fyrir altarið og hún steig greinilega niður af þrepi. Svo þegar þau stóðu hlið við hlið framan við altarið náði hún manninum varla í öxl. Hún gerði sem sagt eins og tónlistarmaðurinn Kalli frá Úrsa sem stundum stendur á goskassa til að vera ekki svo mikið minni en allir aðrir. En án þess að gera nokkuð grín, þessi kona var alveg frábær og ég bar líka virðingu fyrir mannlega prestinum sem gaf henni eftir svo mikið af messunni. Einhverjum finnst þetta kannski óþarfa athugasemd en sannleikurinn er bara sá að það hefði ekki öllum tekist svo vel að gera það.

Eitthvað í messunni minnti mig á orð nítján ára gamallar konu í Vornesi eitt sinn. Við sátum grúppu og lásum annað sporið í sporabókinni sem fjallar um að trúa á eitthvað. Þetta er bara svo einfalt, sagði hún, það er einfaldast að trúa bara á Guð og það gera það svo margir. Hins vegar er það svo að þegar það fjallar um að trúa á Guð, þá verða svo margir skræfur og þora ekki að viðurkenna það.

Já, þannig er það. Unga fólkinu í Vornesi hefur svo oft tekist að láta falla klók orð af munni og þessi orð eru ekkert einsdæmi þar. En uppi í Luleå hélt messan áfram og fólk gekk til altaris. Undir altarisgöngunni var leikin tónlist eftir Duke Ellington. Það var að vísu Valdís sem veitti því athygli. Organistinn var virkilega lifandi maður og stundum flaug hann til á orgelstólnum og hann sveiflaði hendi frá nótnaborðinu og upp í takkaborð við hliðina, niður á nótnaborðið aftur og áfram hélt orgelleikurinn. Í vissu sjónarhorni yfir öxlina var þessi orgelleikari líkur honum Sigurði mági mínum í Völvufellinu í Reykjavík. Það var líka Valdís sem fyrst tók eftir þessu. Af hverju er hún svo oft á undan?

Snjórinn minnkar og þegar ég lít út í skóginn finnst mér sem snjóflekkirnir hafi minnkað síðan í morgun. Snjóhaugurinn undir austurglugganum á herberginu okkar nær núna bara upp undir glugga í staðinn fyrir næstum því upp á miðjan glugga áður. Það er að vísu minnst sólskin á þessum glugga. Við vorum búin að tala um að skreppa inn til Örebro en núna erum við að hugsa um að gera það frekar á morgun en fara þess í stað út og svipast um hér í kring, þá auðvitað á tveimur fjafnfljótum. Annars vitum við um góðgerðir í húsi við Kristnibrautina í Reykjavík. Ég held að þar angi hamborgarhryggur ásamt fleiru meiri háttar góðgæti. Nei, við verðum að eiga það inni.


Kommentarer
Rósa

Er ekki mamma á undan af því að þú ert sofandi?



Zzzzzzzzzz,



R

2010-04-05 @ 08:54:59
Guðjón

En Rósa mín, ég er orðinn svo duglegur að ég er farinn að sofa á nóttunni, ekki fyrir framan sjónvarpið. Það er nú reyndar árangur af mjaðmaaðgerðinni. Ég sef orðið svo vel á nóttunni að klósettferðirnar heyra næstum fortíðinni til og ef ég fer er ég svo fljótur að sofna aftur að ég eiginlega man ekki eftir að hafa komið til baka. Það er gaman að þessu.



Kveðja, pabbi

2010-04-05 @ 09:50:46


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0