Maður gekk út að sá og kona að slá

Ég var í óttalegum vandræðum með mig í morgun. Ég snerist í kringum sjálfan mig og hafði fjölda mörg verkefni til að snúa mér að en ég hreinlega gat ekki ákveðið mig. Mér fannst ég ekki geta farið í þetta vegna þess að annað væri mikilvægara og þetta annað gat ég ekki farið í vegna þess að ég var ekki alveg ákveðinn í hvernig ég ætlaði að framkvæma það. En þá var það hitt og það gæti ég auðvitað gert, en nei, ég mundi ekki klára það í dag og þá væri asnalegt að byrja. Ég er að segja alveg satt. Svo kom Annelie vinkona Valdísar í heimsókn og þá fann ég mér ástæðu til að hanga í kringum þær og bulla einhverja vitleysu.

Maður að nafni Guðmundur Ragnarson kommenteraði á blogginu mínu fyrir nokkru og sagði að ég væri svo duglegur við að drífa mig í að framkvæma hlutina. Síðan lýsti hann því sem hann hefði skoðað í sumarbústaðnum sínum upp í Borgarfirði, það er að segja atriði sem hann þurfti að framkævma þar, og honum hefði vaxið það svo í augum að hann hefði bara farið heim og helst viljað leggja sig. Það var einmitt þetta sem ég upplifði í dag. En ef ég hefði lagt mig hefði ég orðið mjög óánægður með mig.

Ég er búinn að vinna mjög mikið í Vornesi undanfarið og kannski ætti ég ekki að vera svo óánægður með einn aðgerðarlausan dag. En ég vil heldur hafa aðgerðarleysið á morgun, föstudaginn langa, eða þá á páskadag. En nú skeði nokkuð skrýtið um hálf fjögur leytið í dag. Ég fór út í skóg með snæri, hæla og skarexina sem hann Kristinn dóttursonur minn færði mér í hitteðfyrra. Með skarexinni hjó ég börkinn af einum tólf trjám sem þarf að fella vegna ess að þau eru of þétt eða vansköpuð vegna þrengsla. Við viljum ekki fá hundrað rótarskot frá þessum tólf trjám sem vel gæti átt sér stað ef ekkert er gert til að koma í veg fyrir það.

Þegar vinnunni með exina lauk fór ég að binda upp minni tré og plöntur sem lögðust illa undan snjónum í vetur. Það er enn mikilvægara vegna þess hve fjórfætlingarnir voru duglegir við að bíta ofan af þeim. Ég fann tveggja metra háa eik í dag og toppurinn var bitinn af henni. Sennilega hefur hún lagst undan snjóþyngslum og þar með verið auðveld bráð.

Nú þarf ég ekki að velta fyrir mér hvað ég geri næst. Ég ætla að halda þessu áfram alla vega einhvern dag í viðbót. Svona nauðsynlegum verkefnum sinnti ég alls ekki í fyrravor vegna þess að ég var að flýta mér við að koma nýju herbergi í gagnið. Svo þegar verður heldur þurrara þarf ég að fella nokkur tré til að grisja, til að fá í eldinn og til að fá pláss fyrir þvottasnúru bakvið húsið og einnig slá til að geta viðrað og pískað mottur. Það er mörgu að sinna í sveitinni og ef fram fer sem horfir hef á ég þriggja vikna frí fram undan. Ég er hins vegar orðinn vanur því að svoleiðis lúxus standist ekki en ég held að ég hefði mjög gott af fríi núna.

Svo eru hér tvær sumarmyndir í tilefni þess að vorið er framundan.

Maður gekk út að sá
Maður fór út að sá . . .

Og svo fór kona út og sló grasið
Nokkrum vikum síðar fór kona út og sló grasið sem kallinn hafði sáð fyrir.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0