Rökfesta ráðherrans

Það er ekki oft sem ég hita mér kaffi á kvöldin en ég gerði það núna. Svo tók ég bolla með ilmandi kaffinu inn að sjónvarpinu til að hlusta á frábæran kór syngja afskaplega fallega vísu eftir Evert Taube. Þegar ég var sestur sagði ég af rælni að nú væri gott að eiga svolítið súkkulaði. Og hvað haldið þið að konan mín hafi ekki sagt bara sí svona eins og ekkert væri; það er við hliðina á hveitinu í búrinu. Sjúbb. Svo át ég eina rönd af súkkulaðinu með kaffinu og hlustaði á Taube. Alsæll var ég.

Ég var hálf lúinn. Þó að ég hefði byrjað seint og um síðir í morgun að vinna við eitthvað úti af öllu því sem þar er eftir að gera, þá var ég búinn að ganga heilan helling og þar að auki var ég búinn að klippa óskaplega margar greinar með greinaklippunum og ég klippti upp í þann gildleika sem ég bara með nokkru móti réði við. Röltandi með greinarnar dragandi á eftir mér fannst mér ég hafa frábæran tíma til að láta hugann reika þannig að þetta var bráðskemmtilegt verk. Nú er ég búinn að gleyma stærstum hluta af því sem ég dundaði við að hugsa um en stór hluti af því var þó hvað við gætum gert hér á staðnum til að gera hann ennþá yndislegri en hann er.

Ég var nýbúinn að kíkja á íslensku fréttirnar áður en ég fór út og því voru hin óhemju öflugu náttúruöfl ofarlega í huga mér. Í umræðuþætti í fyrradag sagði kona að þessi múgsefjun, eða hvað hún nú kallaði það, varðandi öskufall og flug væri undarleg, þar sem mikið stærri gos hefðu átt sér stað eftir að þoturnar komu í gagnið og ekkert hefði skeð. Maður sem var líka þátttakandi í þessum þætti sagði þá að það væri lang best að með auðmýkt muna þetta; þó að við manneskjurnar héldum oft að við hefðum vald á öllu á þessari jörð, þá værum við afar lítil þegar á náttúruöflin reyndi. Hann sagði þetta á svo hógværan hátt að það var ekki annað hægt en taka það inn í hjartastað.

Svo var það annar samtalsþáttur frá síðustu dögum sem ég hugsaði um. Tveir viðmælendur voru í þætti um flugslysið þegar pólski forsetinn fórst ásamt fjölda annarra pólskra ráðamanna. Annar þessara manna var sænski utanríkisráðherrann, stífur í öxlum, hálsi og andliti, án allra tilfinninga fyrir utan kannski reiði, gersneiddur af hlýhug en ákaflega auðugur af rökfestu. Hinn maðurinn var Pólverji sem greinilega var búinn að búa lengi í Svíþjóð. Það síðasta sem var sagt í þessum þætti var þegar Pólverjinn sagði frá eftirfarandi (nokkurn veginn svona): Ég hef gegnum árin fengið mörg sms frá Pólandi þar sem fólk hefur látið í ljós mikla óánægju með stjórn landsins. Þetta slys er alveg hræðilegt og kemur til með að valda margs konar vanda og breytingum. En takið nú eftir. Í dag er ég búinn að fá þrjú sms og í þeim hefur staðið; gleymdu öllu sem ég hef sagt áður um Pólland því að ég elska svo mikið þetta land. Þegar hann sagði þetta var han verulega klökkur. Að því búnu hálf reisti hann sig upp, leit á sænska utanríkisráðherrann og hneigði sig.

Og hvað segir maður svo. Ekkert. Ég varð bara klökkur líka. Ég kannski tala ómaklega um sænska utanríkisráðherrann því að hann er mjög fær maður. Ég held ég mundi segja þetta á sænsku líka ef ég fyndi fyrir að gera það. Alla vega hann Markku mun skilja þetta ef hann les það og allt í lagi með það. Fyrir svo sem einu til tveimur árum var ég mjög á því að kjósa moderaterna, það er að segja sænska sjálfstæðisflokkinn. Mér fannst þá sem þeir hefðu gert margt mjög gagnlegt og væru verðir atkvæðis míns, en í dag býst ég þó ekki við því að gera það.


Kommentarer
Markku

Joo, jag hängde nog med rätt bra i din berättelse ;)

Det var ett ord som var lite klurigt: ómaklega. Kanske ogynnsamt, besvärande eller något liknande är rätt nära sanningen?

2010-04-18 @ 18:11:25
Markku

Joo, jag hängde nog med rätt bra i din berättelse ;)

Det var ett ord som var lite klurigt: ómaklega. Kanske ogynnsamt, besvärande eller något liknande är rätt nära sanningen?

2010-04-18 @ 18:12:10
Guðjón

Ómaklega betyder ovärdigt; oförtjänat.

2010-04-18 @ 23:29:58


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0