Gamla rúmið heyrir sögunni til

Við Valdís vorum lengi nokkuð í Örebro í dag. Hún fór til sjúkraþjálfara og svo í mat með hinum norrænu vinkonum sínum. Ég fór hins vegar með kerruna á haugana fulla af rusli frá Sólvöllum. Eftir það fyllti ég kerruna aftur í geymslu sem við fengum lánaða hjá húsfélaginu þar sem við bjuggum og svo fór ég á haugana á ný. Og nú skeði það sem hefur verið í farvatninu í fáein ár. Gamla rúmið okkar er komið í tvo ruslagáma. Dýnurnar í einn gám og viðurinn í annan. Þetta rúm eignuðumst við þegar við bjuggum á Bjargi og í því erum við búin að hvílast oft og lengi. Ég hund sá eftir rúminu og eiginlega fannst mér það vera í besta lagi. En það var eins og eldri rúm, 180 sm langt og 145 sm breitt. Sem nútíma rúm er það bara ekki gjaldgengt vegna smæðar sinnar. Það er samt ekki langt síðan ég svaf í því og það fór svo notalega um mig í því. Eiginlega hefði rúmið verið alveg ágætt fyrir einhleyping sem sefur hjá svo sem einu sinni í mánuði. Ef svo sjaldan er sofið hjá sefur fólk þétt og þá þarf rúmið ekki að vera svo breitt. En nóg um þetta rúm, það er komið til feðra sinna eins og sagt var um konunga Gyðinga þegar þeir létust.

Svo komum við heim og þá lá okkur auðvitað svolítið á að heyra féttir frá Íslandi. Valdís byrjaði á því að kveikja á sjónvarpinu og þá var bara Ísland á skjánum. Hátt í hálfir fréttatímarnir hafa síðan fjallað um ösku, Ísland og Eyjafjallajökulsgos. Við erum búin að heyra Ísland oftar nefnt í fréttum í dag en samtals á fjöldamörgum undanförnum árum. Svo gerir tölvan okkur líka kleift að hlusta á fréttir beint frá Íslandi. Reynir Böðvarsson í Uppsala er búinn að vera í nokkrum samtölum í sjónvari eins og venjulega þegar umbrot eru í jörðu.

Ég setti matardisk út til að fylgjast með ösku. Ekki veit ég hvernig þetta er í svo mikilli fjarlægð en sú aska sem er í háloftunum og kemur í veg fyrir flugsamgöngur hlýtur einhvern tíma að falla til jarðar. Kannski er þetta barnalegt en hver veit. Ég alla vega veit það ekki fyrr en ég hef prufað. Þetta gerði ég í Hrísey á sínum tíma þegar það gaus í Heklu. Þá hafði ég disk úti á stétt heima og svo varð diskurinn grár af ösku. Þá var mál að setja inn nautgripahjörðina og gekk það nokkuð vel þó að það væri sumar. Að lokum voru allir gripir komnir á hús utan kýrin Grána. Hún virtist verða alveg geðveik við þessa atburði og ef ég man rétt fékk hún aldrei vitið til baka. Þetta sumar þurfti alveg gríðarlega marga hnífa í sláttuvélina því að þeir eyddust upp á afar skömmum tíma.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0