Þvílíkur fallegur dagur

Tímanlega í morgun drifum við Valdís okkur út í sólskinið og héldum áfram að taka höndum um trén sem voru felld fyrir nokkrum dögum og felldum svo tvö í viðbót. Við hálf svitnuðum við við að bera greinar og flytja niðurbrytjaða trjástofna í hjólbörum og lífið lék við okkur. Smáfuglarnir tóku þátt í þessu og sungu ástarljóð meðan þeir flugu inn og út úr fuglahólkunum og unnu greinilega glaðir við að gera heimilið klárt. Syngjandi svanahópur kom úr vestri og flaug áfram austur á bóginn. Spætan sendi frá sér einstaka trommuspil og dóttir nágrannanna hljóp um heima hjá sér og hló og kallaði. Já, það varð ekki undan því komist að smitast af vorinu sem sýndi sig í ýmis konar myndum. Meira að segja grasið á lóðinni hafði hreinlega vaxið frá því í gærkvöldi. Útivistin og sólin gerði okkur báðum greinilega mikið gott.

Þegar leið á daginn fannst okkur sem afköstin væru nægjanleg og við ákváðum að leggja af stað til Örebro. Það hafði verið með á skipulaginu alveg frá því í morgun að gera svo. Pínulítið matarkyns þurftum við að kaupa og svo héldum við í Blómaland í Marieberg. Já, það er skelfilegt að segja það af tveimur nær 68 ára manneskjum, en við duttum bæði í það. Það nefnilega skein líka sól í skrúðgarðadeildinni sem er undir berum himni og það var of erfitt að halda sönsum. Við sem ætluðum bara að kaupa tvö eplatré í staðinn fyrir þau sem hérarnir tóku af lífi hjá okkur í vetur.

En svo létum við ekki staðar numið við það. Við keyptum líka tvær alparósir og við keyptum fimm sekki af plöntumold og svo var það hænsnaskíturinn. Tveir sekkir af honum. Úff, bíllinn mundi fyllast sem hann líka gerði. En þetta með hænsnaskítinn verð ég að fara nokkrum orðum um. Fyrir nokkrum dögum kom ég við í Blómalandi og spurði þá hvað ég gæti gert til að fá ennþá meiri sprett á margumtöluð beykitré og hvort það væri æskilegt. Jú jú, svaraði lipur afgreiðslukona sem ég ímyndaði mér að væri skrúðgarðafræðingur. Það er bara gott meðan beykitrén eru í þessari stærð að fá dálítinn sprett á vöxtinn, fræddi hún mig um. Oj, hvað ég varð glaður.

Og hvaða áburð á ég að nota? Hænsnaskít svaraði hún að bragði. Hann er mjög góður og gerir trjánum bara gott. Takk fyrir þær upplýsingar. En svo getur þú líka gert annað sagði hún og sagði "dfghjklaujklæ", eitthvað sem ég alls ekki skildi. Og hvað meinarðu með því? spurði ég. Jú, svaraði hún, í staðinn fyrir að fara á klósettið til að pissa getur þú með góðum árangri pissað á beykitrén þín. Ha ha ha, það hef ég gert í nokkur ár svaraði ég, en ég hef alls ekki talað svo mikið um það.

Nú er það svo að beykitrén eru 21 og meðan snjór var yfir öllu lét ég eiga sig að fara þessara erinda út í skóg. Nú verð ég ekki búinn í tíma að pissa nógu oft á beykitrén og mér finnst ég ekki geta beðið Valdísi að taka þátt í þessu með mér. Því keypti ég tvo sekki af hænsnaskít til að hjálpa mér við áburðargjöfina. Það mun fara vel á með mér og hænsnaskítnum í þessu samstarfi. Á morgun verður gróðursetning á Sólvöllum þar sem eplatrén verða sett niður ásamt alparósunum. Það verður ekki í fyrsta skipti sem gróðursett verður á Sólvöllum 13. apríl.

Dagurinn í dag hefur verið góður og ég hlakka til morgundagsins. Ég brúkaði svolítið munn í næsta bloggi neðan við en mér fannst ég verða að gera það því að annars væri ég falskur og ómerkilegur. Það er heiðarlegra að segja eins og mér finnst og vera ekki í neinum feluleik.

Þrútin beykibrum
Fókusinn er ekki góður þarna en ef vel er að gáð má sjá beykibrumin sem eru þrútnari en nokkuð annað vor hingað til.

Þrútið kastaníubrum
Og hér er brumið á hestkastaníunni.


Hún klikkaði ekki á því í sólskininu fiskimannsdóttirin frá Hrísey.





Ráðist að dauðadæmdri björk
Þarna réðist ég að dauðadæmdri björkinni og lagði að velli og þar hafði ég mikinn aflsmun vegna keðjusagarinnar. Björkin var of nálægt viðargeymslunni og nakinn allt of langt upp. En ef ég hefði getað spurt hana hefði hún sjálfsagt viljað lifa áfram.


Kommentarer
Rósa

Þið eigið eftir að sofa vel eftir svona góðan útivistardag. Og mikið var skynsamlegt hjá ykkur að vera úti í staðinn fyrir að fylgjast með ruglinu á Íslandi...



Kveðja,



R

2010-04-12 @ 22:43:42
Þórlaug

Heill og sæll.



Mikið er ég sammála Rósu, skýrslan sem tröllríður öllu hér í dag er ekki svo skemmtileg og allir sem eru gagnrýndir segja „Ekki benda á mig“.

Ég held að vorið sé komið hérna líka þó ekki sé skyrtuveður, það er að minnsta kosti nokkurra gráðu hiti og svo er sumardagurinn fyrsti í næstu viku.

Bestu kveðjur til ykkar í sveitina,

Þórlaug

2010-04-12 @ 23:45:17
Guðjón

Takk Rósa og Þórlaug. Og svo er það sumardagurinn fyrsti. Sem barni fannst mér að það væri alltaf gott veður á sumardaginn fyrsta, að þá væri hreinlega besta veðrið. Ég hef svo sem ekki trú á að það hafi alltaf verið þannig en líklegra að það hafi verið að hluta til sálrænt.



Í morgun fór ég út í nærbol og skyrtu utan yfir en það var of mikið. Ég varð að fjarlægja nærbolinn. Lífið er svo gott á vorin.



Kveðja,

Guðjón

2010-04-12 @ 23:54:32


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0