Ánægður skattgreiðandi

Stuttu eftir sjónvarpsmessuna í morgun kom Satan í heimsókn. Boðskapur hans var ljúfur og þýddi hjálp við ákveðið verkefni og svolítið innlegg á bankareikninginn minn. Hver vill ekki njóta svona fríðinda?
 
Ég held að ég hafi sagt frá því hvað eftir annað núna lengi að ég ætti eftir ákveðinn fjölda verkefna sem væru af stærri gráðunni, alla vega fyrir mig, verk sem væri vont að framkvma en væru naðusynleg. Ég er mitt í því síðasta einmitt núna. Eftir það eru framundan ýmis verkefni eins og á öllum bæjum en þau þurfa ekki endilega að vera búin fyrir veturinn, eða ég get vel hætt í þeim miðjum og byrjað aftur eftir eina viku eða tvær. Sem sagt; frjálsræði mitt eykst þegar þessu verki er lokið.
 
Og svo kem ég aftur að þessu eftir messuna. Ég þarf að útbúa rúmlega 30 m2 gólf upp á lofti á Bjargi og fæ þar með geymslu sem er af sömu stærð. Allt í einu fékk ég góða hugmynd. Ég fæ Anders með mér í þetta og bið hann svo að gera reikninginn þannig að það líti út fyrir að við höfum verið að vinna við íbúðarhúsið. Þá fæ ég helminginn af laununum hans endurgreidd frá skattinum. Það er samkvæmt sænskum lögum -en, það á við íbúðarhús sem verið er að breyta, lagfæra eða stækka. Bjarg heyrir ekki undir það.
 
Það var svolítið skrýtið svona strax á eftir messu sem ég hafði að nokkru leyti lifað mig inn í, að mér skyldi detta þetta í hug. Svo þegar ég hafði fengið hugmyndina hugsaði ég hvers vegna ég hefði ekki tekið þessa ákvörðun fyrir löngu síðan. Þarna sat ég í djúpa stólnum sem Valdís alltaf notaði áður og nú beitti ég samvisku minni virkilega til að fá svar við spurningunni sem ég hafði lagt fyrir mig. Það fékk mig niður á jörðina aftur. Nei, svona bara get ég ekki gert. Ég hef unnið við það nánast í 20 ár að halda fyrirlestra fyrir fólk sem er að takast á við líf sitt og ég kenni því að undirstaðan sé að vera svo heiðarleg manneskja sem hugsast getur. Hvernig skyldi ég þá verða á næsta fyrirlestri um heiðarleika ef ég lifi ekki eftir því sem ég kenni.
 
Ég bakkaði, steinhætti við svindlið. Svo hugleiddi ég í hvað skatturinn minn færi. Mikið var ég þakklátur fyrir nýja mjaðmarliðinn sem ég fékk á sjúkrahúsinu upp í Lindesberg árið 2009 og gersamlega gerbreytti lífi mínu. Mikið var líka hjúkrunarfólkið gott við mig. Og mikið er ég þakklátur heilsugæslunni þó að þeim hafi ekki tekist að bjarga lífi Valdísar. Ég er nefnilega þakklátur þeim fyrir alla þá alúð og góðmennsku sem hún var aðnjótandi hjá þeim undir eins árs tíð, frá því að hún greindist með krabbamein og þangað til hún dó. Ég á eftir að fara á lungnadeildina í Örebro og leita uppi Rose-Marie og Jary og segja þeim að Valdís hafi svo oft talað um hvað þau væru góð. Ég held að ég hafi þakkað öðrum viðkomandi sem ég veit um fyrir umhyggjuna. Svo að segja allur kostnaðurinn við þetta var greiddur með skattpeningum -og þar með talin laun góða fólksins.
 
Ákvörðun að freistast ekki kemur til með að gefa mér góðan svefn og betri drauma. Að láta undan ljúfri freistingunni hefði úthlutað mér lélegri svefni og gert drauma mína órólega.
 
Það var margt sem flæddi gegnum huga minn þarna eftir messuna í morgun og þangað til ég fór svo inn í Marieberg og í kaupfélagið til að gera stærri innkaup. Ég gekk nokkrum sinnum að tövunni og skrifaði minnispunkta í nýtt blogguppkast en nú þegar er þetta blogg orðið of langt eins og öll mín blogg. Ég geymi því hina minnispunktana eða hendi þeim ef ég met þá þannig. Þó verð ég að láta meira fylgja sem viðkemur skattapeningunum sænsku.
 
Fyrir tæpum tveimur vikum fór ég til sjúkraþálfara vegna þess að ég er með slit í hálsliðum sem var staðfest með röntgen fyrir rúmum tveimur árum. Þetta hefur lítið bagað mig hef ég talið nema þá helst þegar ég er að aka bíl í umferð. En mér finnst eftir því sem ég eldist meira að mér beri skylda til að varðveita eftir bestu getu þann líkama sem skaparinn gaf mér og þá miðað við þá möguleika sem finnast nú til dags. Ég borga 80 krónur á heilsugæslustöðinni í hvert skipti sem ég kem þangað og stundum 120 krónur. Þegar ég verð svo kominn upp í 800 krónur þarf ég ekki að borga meira í heilt ár. Hitt er greitt með skattapeningum.
 
Sjúkraþjálfinn mældi hversu mikið ég gat hreyft höfuðið í allar mögulegar áttir og kenndi mér svo fjórar æfingar sem ég á að gera þrisvar sinnum á dag og ég geri samviskusamlega. Viku síðar kom ég í aðra heimsóknina til hans og hann mældi hreyfigetuna á ný. Miklar framfarir sagði hann og svo kenndi hann mér þrjár æfingar í viðbót sem ég á að gera jafn oft. Svo var ég sem sagt í kaupfélaginu í dag og þar er afar vítt til veggja og nóg pláss til að snúa sér við. Nú voru tæpar tvær vikur frá því að ég kom fyrst til sjúkraþjálfarans.
 
Svolítið er ég stundum ringlaður á þessum stað og þarf að líta mikið í kringum mig og má ekki við truflunum. Svo var ég að veljan ávexti af mörgum borðum og leit við til að athuga hvort ég væri kominn framhjá einhverju sem ég leitaði að. Þá áttaði ég mig á nokkru ánægjulegu. Ég sneri mér ekki lengur við þó að plássið væri nægjanlegt -ég leit við. Trúið mér eða trúið mér ei. Ég leit við í stað þess að snúa mér við eftir að hafa gert æfingarnar í aðeins fjórtán daga. Mikið fyrir skattapeningana þar og hvernig ætli ég verði þá eftir 140 daga..


Kommentarer
björkin

gott blogg eins og alltaf mágur minn.Góða nótt.

Svar: Góða nótt mágkona.
Gudjon

2013-09-29 @ 23:00:44


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0